skipa_forsida

Samkeppnisstaða skipaiðnaðarins : nefndarálit

4.3.2005

Nr. 7/2005
Fréttatilkynning

Skýrslan


Samkeppnisstaða skipaiðnaðarins: Nefndarálit - endurskoðun reglna um
endurgreiðslur aðflutningsgjalda í skipasmíðum og viðgerðum

Um mitt ár 2003 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefnd sem átti m.a. að kanna breytingar á starfsskilyrðum skipasmíðaiðnaðarins hér á landi, þar sem áhersla væri lögð á að greinin gæti keppt við erlenda keppinauta á grunni jafnræðis. Sérstaklega var talið nauðsynlegt að fara yfir lög og reglugerðir sem varða endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna skipasmíða og skipaviðgerða, þar sem slík gjöld eru endurgreidd erlendis. Í nefndina voru skipuð; Baldur Pétursson, frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, sem jafnframt gegndi formennsku, Jóna Björk Guðnadóttir, frá fjármálaráðuneyti, Ingólfur Sverrisson, Samtökum iðnaðarins og Hallgrímur Hallgrímsson, Samtökum iðnaðarins,

Starf nefndarinnar skiptist í fjóra hluta:
1. Úttekt endurskoðunarfyrirtækis á aðflutningsgjöldum greinarinnar, skilað í árslok 2004.
2. Umfjöllun um EES reglur og ríkisstyrki.
3. Aðgerðir innan ESB er varða stefnumörkun í skipaiðnaði – Leadership 2015
4. Mat á þróun og samkeppnisstöðu greinarinnar.

Um nokkuð flókið starf var að ræða – þar sem m.a. þurfti að fá sérstaka óháða úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Endurskoðun og ráðgjöf ehf. á umfangi og bókhaldi er varðar allar greiðslur aðflutningsgjalda af aðföngum í skipasmíðum og viðgerðum, sem skilað var í sérstakri skýrslu seint á árinu 2004. Sú úttekt var forsenda þess að meta mætti með faglegum aðferðum leiðir þær sem til greina kæmu í málinu. Skýrslu nefndarinnar til iðnaðarráðherra var skilað í febrúar 2005.

Helstu niðurstöður og tillögur nefndarinnar eru eftirfarandi:

1. Mismunun skipaiðnaðar gagnvart erlendum keppinautum – endurgreiðslur aðflutningsgjalda
Reglugerð um endurgreiðslur til skipasmíða og skipaviðgerða frá mars 1985 var ætlað að mæta röskun sem stafaði af útgjöldum vegna vörugjalda, tolla ofl. sem lögð eru á aðföng í greininni. Hún gerir ráð fyrir 6,5% endurgreiðslu sem meginreglu. Þetta er gert til að jafna aðstöðu innlendra aðila við erlenda, þar sem slík endurgreiðsla á sér stað. Árið 1998 var þetta endurgreiðsluhlutfall lækkað úr 6,5% í 4,5%. Það er megin niðurstaða nefndarinnar að þessi skerðing á endurgreiðslu aðflutningsgjalda hafi ekki átt sér forsendur og því beri að leiðrétta hana á þann hátt að endurgreiðslan verði hækkuð úr 4,5% í 6.0%. Lagt er til að leiðrétting vegna þessa verði afturvirk til ársins 2002. Jafnframt er lagt til að lagagrunnur viðkomandi reglugerðar verði treystur.

2. Jöfnunaraðgerðir 1994 skiluðu verulegum árangri
Árið 1994-5 beittu stjórnvöld sér fyrir aðgerðum til að jafna mismunun í starfsskilyrðum skipaiðnaðar við erlenda keppinauta með jöfnunarstyrkjum. Sú aðgerð skilaði verulegum árangri, þannig að greinin jók umsvif sín verulega sem nam allt að 30% fjölgun starfa frá 1994-1995. Þetta sýnir gildi slíkra aðgerða.

3. 20% þróunarkostnaðar skipa – endurgreiddur innan ESB
ESB hefur ákveðið að skilgreina skipaiðnað á EES-svæðinu sem hátækniiðnað, og því verður heimilt að greiða niður allt að 20% af þróunarkostnaði. Evrópskir samkeppnisaðilar virðast nú þegar hafa nýtt sér þessar heimildir með þeim afleiðingum að þeir bjóða nú lægra verð. Þetta kann að gera samkeppnisstöðu islenskra skipasmíðastöðva erfiðari. Brýnt er að bregðast við og móta tillögur á þessu sviði. (sbr. LeaderSHIP 2015 og Framework on state aid to shipbuilding (2003/C 317/6)).

4. Auknar alþjóðlegar kröfur
Verið er að auka alþjóðlegar gæðakröfur í allri smíði og viðgerðum skipa. Þessar auknu kröfur eru umfangsmiklar fyrir smærri skipasmíðafyrirtæki eins og á Íslandi sem gæti því torveldað starfsemi þeirra. Því er beint til viðkomandi stjórnvalda að brugðist verði við með þeim hætti að bæði íslenskur skipaiðnaður og útgerðir geti veitt og þegið góða alþjóðlega viðurkennda þjónustu hvað varðar nýsmíði ásamt viðgerðum og viðhaldi skipa.

4. mars 2005

 Stoðval