Útrás íslenskrar tónlistar.

1.4.2003

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 5/2003



Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur í dag veitt nokkrum íslenskum tónlistarmönnum styrk til útrásar. Samtals nema styrkirnir nú 2 milljónum króna og skiptast á 7 aðila. Frá árinu 1999 hefur á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og sjóða þess verið veitt á fimmta tug milljóna króna til útrásar íslenskrar tónlistar. Þau verkefni sem nú hljóta styrk eru:

Singapore Sling
Hljómsveitin Singapore Sling fær styrk til þátttöku á tónlistarhátíðinni South by South-West í Austin, Texas. Markmiðið er m.a. að tryggja hljómsveitinni útgáfusamning vestra og er lögð áhersla á að kynna breiðskífu sveitarinnar The Curse of Singapore Sling, sem kom út á síðasta ári. Hljómsveitin hlaut 250.000,- króna styrk til þessa verkefnis.

Ensími
Hljómsveitin Ensími fær einnig styrk til þátttöku á tónlistarhátíðinni South by South-West, sem er ein stærsta söluráðstefna í heiminum hvert ár. Þar mun hljómsveitin leggja áherslu á að kynna sig fyrir erlendum útgefendum. Hljómsveitin hlaut 250.000,- króna styrk til þessa verkefnis.

Orgelkvartettinn Apparat
Orgelkvartettinn Apparat fær styrk til markaðssóknar erlendis og nær fyrsti áfangi þeirrar sóknar til útgáfu og kynningar á smáskífunni "Romantika" í Bandaríkjunum og Bretlandi. Markmið með markaðssókninni er að tryggja fyrstu plötu sveitarinnar sem mesta dreifingu með svokölluðum "license" samningum, sem felst í framsali á útgáfurétti til alþjóðlegs útgáfufyrirtækis. Hljómsveitin hlaut 300.000,- króna styrk til fyrsta áfanga þessa verkefnis.

Mínuss
Hljómsveitin Mínuss mun kynna nýja breiðskífu sína, sem nú er unnið að, með umfangsmesta kynningarstarfi sem hljómsveitin hefur farið í til þessa í Evrópu. Fylgt verður eftir þeim góða árangri sem náðist með útgáfu breiðskífunnar "Jesus Christ Bobby" sem gefin var út árið 2001. Hljómsveitin hlaut 200.000,- króna styrk til þessa verkefnis.

Smekkleysa
Smekkleysa vinnur að kynningarátaki í Bretlandi undir yfirskriftinni "Humar eða frægð – Smekkleysa í 16 ár". Verkefnið fellur undir almenna markaðssetningu fyrirtækisins í Bretlandi en er jafnframt sjálfstætt verkefni og fellur undir menningartengda ferðaþjónustu. Smekkleysa hlaut 500.000,- króna styrk til verkefnisins.

Tónskáldafélag Íslands
Félagið sendi íslensk tónskáld, sem áttu verk á Norrænum músíkdögum í Berlín, til að kynna íslenska tónlist. Alls fóru 7 íslensk tónskáld á hátíðina. Norrænir músíkdagar hafa verið haldnir reglulega frá lokum 18. aldar. Þangað er boðið fjölda gesta, kynningarfulltrúum og fréttamönnum víðsvegar að úr heiminum. Þar gefst því einstakt tækifæri til að kynna íslenska tónlist og tónlistarmenn. Félagið hlaut 300.000,- króna styrk til þessa verkefnis.

Tilraunaeldhúsið
5 ungir listamenn komu fram á marglistrænum viðburði á The Tonic í New York í síðasta mánuði á vegum Tilraunaeldhússins. Markmið ferðarinnar var að kynna framsækna íslenska tónlist. Tilraunaeldhúsið hlaut 200.000,- króna styrk til þessa verkefnis.

Fjölmargar hljómsveitir og listamenn hafa hlotið stuðnings iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins undanfarin ár til útrásar. Þar má nefna: Bellatrix, Botnleðju, Möggu Stínu, Guitar Islancio, SigurRós, Emiliönu Torrini, Móeiði Júníusdóttur, Maus, Jagúar, Jóhönnu Guðrúnu og Vinyl.

Reykjavík, 1. apríl 2003.

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval