Frumvarp iðnaðarráðherra til breytinga á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

14.12.2005

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 33/2005

Fréttatilkynning

Í tilefni af fréttaflutningi og umræðu undanfarna daga um frumvarp iðnaðarráðherra til breytinga á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem lagt var fram á Alþingi í haust en hlaut ekki afgreiðslu, er nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri:

Misskilnings hefur gætt um efni frumvarpsins, sem m.a. má rekja til ónákvæmra upplýsinga sem veittar voru af hálfu ráðuneytisins við meðferð málsins á Alþingi varðandi hugsanlegan forgang rannsóknarleyfishafa á útgáfu virkjunarleyfis. Beðist er velvirðingar á því.

Frumvarpið gerir aðeins ráð fyrir breytingum sem varða rannsóknir á vatnsafli, en ekki nýtingu þess, þ.e. útgáfu virkjanaleyfa. Í umræðu síðustu daga hefur m.a. komið fram að útgáfa rannsóknarleyfa veiti sjálfkrafa rétt til nýtingar. Þetta er ekki rétt. Hið rétta er að skv. raforkulögum er gert ráð fyrir að sækja þurfi sérstaklega um leyfi til nýtingar, þ.e. virkjunarleyfi, og auk þess má á það benda að forsenda nýtingar er ávallt að samið hafi verið við eiganda auðlindar eða að eignarnámsferli sé hafið. Frumvarpið felur í sér að komi til þess að virkjunarleyfi verði veitt öðrum en þeim sem stóðu fyrir rannsóknum, beri þeim sem fær virkjunarleyfið að endurgreiða rannsóknarleyfishafa kostnað hans af rannsóknum. Það er talið nauðsynlegt að tryggja þeim sem leggja í kostnaðarsamar rannsóknir að þeir fái kostnaðinn endurgreiddan komi til þess að þeir fái ekki virkjunarleyfi. Þetta er eini tilgangur frumvarpsins. Það er því ekki rétt, sem fram hefur komið í fréttum, að útgáfa rannsóknarleyfis skv. frumvarpinu veiti forgang að útgáfu virkjunarleyfis.

Í fréttum hefur því einnig verið haldið fram að ekki sé gert ráð fyrir að greiðsla komi fyrir nýtingu orkuauðlinda. Hér er um alvarlegar rangfærslur að ræða. Í þeim tilvikum þar sem auðlindir eru háðar einkaeignarrétti verður sá sem nýta vill auðlind á landi annars að semja við landeiganda eða fara fram á eignarnám. Í báðum tilvikum er landeiganda tryggt eðlilegt afgjald á grundvelli samninga eða fullar bætur. Þegar um er að ræða nýtingu auðlinda sem eru innan þjóðlendna skal einnig greitt fyrir það samkvæmt lögum um þjóðlendur.

Frumvarpið var lagt fram til að tryggja áframhaldandi rannsóknir á vatnsafli á meðan sérstök nefnd sem iðnaðarráherra mun skipa, mótar tillögur til framtíðar um úthlutun rannsókna- og virkjunarleyfa. Sú nefnd skal m.a. taka mið af niðurstöðum auðlindanefndar sem starfaði á vegum forsætisráðherra.

Reykjavík, 14. desember 2005.



 

Fréttir eftir árum...








Stoðval