Ráðstefna orkuráðherra Norðurlanda og Eystrasaltslanda í Helsinki

26.10.1999

Iðnaðar- og viðkiptaráðuneyti
Nr. 17/1999



Ráðstefna orkuráðherra í Eystrasaltsráðinu og Evrópusambandsins var haldin í Helsinki dagana 24. og 25. október sl. Dr. Erkki Tuomioja, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Finnlands, boðaði til ráðstefnunnar.

Af Íslands hálfu sat Finnur Ingólfsson, iðnaðarráðherra, ráðstefnuna ásamt embættismönnum frá ráðuneytinu. Finnur Ingólfsson flutti ávarp á ráðstefnunni og lagði áherslu á nauðsyn þess að allir aðilar tækju höndum saman við að uppfylla rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og nauðsyn þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Á meðal leiða til að ná þessum markmiðum er aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Hér á landi er 70 af hundraði orkunotkunar mætt með endurnýjanlegum orkugjöfum sem byggjast á vatnsafli og jarðvarma. Auk þess er nærri 100 % af raforku sem notuð er hér á landi framleidd með þessum orkugjöfum og nærri 98 % húshitunar er mætt með jarðhita og raforku.

Möguleikar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á þessum sviðum hér á landi eru því mjög takmarkaðir. Finnur Ingólfsson minnti á að Íslendingar hefðu á loftslagsráðstefnunni í Kyoto lagt áherslu á þessa sérstöðu og að loftslagssáttmálinn mætti ekki takmarka notkun endurnýjanlegra orkugjafa og þannig hafa öfug áhrif miðað við tilgang samningsins. Það væri raunin ef framleiðsla orkufrekra afurða með endurnýjanlegum orkugjöfum væri takmörkuð vegna losunar gróðurhúsalofttegunda sem ekki er hægt að komast hjá við framleiðsluna. Í anda loftslagssamningsins væri nauðsynlegt að lágmarka heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á framleiðslueiningu, þ.e. samanlögð losun vegna orkuöflunar og framleiðslu afurðanna.

Ákvörðun á þessu sviði var tekin í Kyoto. Íslendingar lögðu fram tillögu í 4. aðildarviðræðunum í Buenos Aires til að mæta þessum vanda. Tillagan var í fullu samræmi við anda samningsins. Vonast er til að tillaga Íslendinga verði samþykkt á 6. aðildaríkjaþinginu samtímis samkomulagi um hvernig sveigjanleikaákvæðum Kyoto bókunarinnar verði framfylgt.

Meginefni ráðstefnu orkuráðherranna í Helsinki var hvernig tryggja mætti sjálfbæra orkuöflun og orkusölu í löndunum umhverfis Eystrasalt en ýmsar leiðir hafa í því sambandi verið í athugun. Stækkun Evrópusambandsins, samstarf um orkusáttmála Evrópu og viðleitni til að auka frjálsræði í viðskiptum með raforku, olíu og jarðgas eru mikilvægar vörður á þeirri leið.

Í lokaályktun ráðstefnunnar var meðal annars ákveðið að samstarfið á þessu sviði yrði framvegis með eftirfarandi hætti:
  • Ráðherrarnir munu hittast þegar þörf krefur undir forsæti formanns Eystrasaltsráðsins.
  • Stofnuð verður samstarfsnefnd embættismanna þátttökuríkja Eystrasaltsráðsins og Evrópusambandsins til að undirbúa og stjórna frekari aðgerðum á þessu sviði í samræmi við það sem ráðherrarnir ákváðu á fundinum.
  • Ákveðið var að ráða einn til tvo starfsmenn til að vinna að þessum málum, sem staðsettir verða á skrifstofu Eystrasaltsráðsins í Stokkhólmi. Kostnaður við þetta verður greiddur af Norrænu ráðherranefndinni og Evrópusambandinu.

Ákveðið var að skipan þessara mála verði tekin til endurskoðunar eigi síðar en eftir þrjú ár eða árið 2002.

Reykjavík, 26. október 1999

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval