Verkefnabanki fyrir neytendafræðslu í grunnskólum

26.11.1998

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 20/1998



Á árlegum fundi norrænna ráðherra á sviði neytendamála sem haldinn var 24. janúar 1996 var samþykkt framkvæmdaáætlun um neytendafræðslu í skólum. Voru ráðherrarnir sammála um að auka beri þekkingu norrænna ungmenna á málefnum neytenda og gera þau hæfari til þess að taka ábyrgð á málum sínum og fjölskyldna í velferðarsamfélagi nútímans. Rannsóknir annars staðar á Norðurlöndum hafa sýnt að almenn þekking ungs fólks á fjárhagsmálefnum heimila er ekki nægjanleg. Þrátt fyrir það gerir þjóðfélagið sífellt meiri kröfur til ungs fólks að þessu leyti. Markmiðið með framkvæmdaáætluninni er einmitt að stuðla að aukinni þekkingu norrænna ungmenna á málefnum heimilanna í velferðarsamfélagi nútímans.
Til að fylgja áætluninni eftir var skipaður samráðshópur með fulltrúum viðskiptaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og Neytendasamtakanna en viðskiptaráðherra fer með neytendamál í stjórnsýslunni hér á landi. Hefur hópurinn ásamt fulltrúa frá Kennslumiðstöð Kennaraháskóla Íslands unnið að því að koma með tillögur til að fylgja eftir ákvæðum framkvæmdaáætlunarinnar. Niðurstaða þeirra vinnu er útgáfa verkefna sem nú er verið að dreifa í alla grunnskóla landsins. Verkefnin er að finna á geisladiski sem ráðuneytið gefur út en einnig var útbúin mappa þar sem hægt er að geyma verkefnin á prentformi. Að auki er hægt að nálgast verkefnin á vefsíðu kennslumiðstöðvar Kennaraháskóla Íslands og heimasíðu ráðuneytisins.
Verkefnamöppunni er skipt í þrjá hluta sem fjalla um markmið neytendafræðslu, verkefni í neytendafræðslu og stærðfræði í neytendafræðslu. Á eftir inngangsorðum iðnaðar- og viðskiptaráðherra koma markmið fyrir neytendafræðslu á sex sviðum, þ.e. fjármál einstaklinga, réttindi og skyldur neytenda, áhrif auglýsinga, neysla og umhverfi, matvæli og matreiðsla og öryggismál. Markmiðin eru samin af norrænum starfshópi og leggja þau grunnin að norrænu framkvæmdaáætluninnni um neytendafræðslu í skólum.
Í öðrum hlutanum er að finna verkefni sem samin voru á námskeiði sem Kennaraháskóli Íslands hélt vorið 1996 með styrk frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti til að stuðla að neytendafræðslu á grunn- og framhaldsskólastigi. Þátttakendur á námskeiðinu voru 38 af báðum skólastigum og urðu verkefnin alls 20. Hluta þeirra er að finna í verkefnamöppunni og henta þau vel til kennslu í yngri bekkjum grunnskólans. Að auki er safn fróðleiksmola og stuttra verkefna eða hugmynda til notkunar á mið- og unglingastigi sem starfsmenn kennslumiðstöðvar KHÍ hafa unnið.
Þriðji hlutinn byggist á verkefnum sem efla eiga skilning á fjármálum barna og unglinga, fjármálum fjölskyldunnar, eigin lífsstíl, fjárhagslegum áhættum sem leynast í samskiptum fólks og mikilvægum þáttum sem tengjast rekstri heimilis. Einnig er að finna verkefni sem ætluð eru að gera nemendur meðvitaða um stöðu sína sem neytendur á jörðinni, lífsskilyrði, mannfjölda og auðlindir auk verkefna sem miða að því að gera nemendur betur læsa á umhverfi sitt, t.d. sem þátttakendur í umferðinni og ábyrga neytendur á því sviði. Verkefnin eru talin við hæfi nemenda í efri árgöngum grunnskólans, allt frá 6. bekk upp í 10. bekk.

Reykjavík, 26. nóvember 1998

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval