Samkomulag um samstarf Íslands og Nova Scotia

28.1.1998

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 2/1998




Í kjölfar heimsóknar Finns Ingólfssonar, iðnaðar- og viðskiptaráðherra til Nova Scotia í Kanada fyrr í þessum mánuði, hafa átt sér stað viðræður milli ráðuneyta hans og efnahags- og viðskiptaráðuneyta Nova Scotia um frekara samstarf. Í yfirstandandi heimsókn Manning MacDonalds, efnahags- og viðskiptaráðherra Nova Scotia til Íslands hefur þeim viðræðum verið fram haldið. Viðræðunum lyktaði í morgun með undirritun samkomulags milli ráðu-neytanna um nána samvinnu til að greiða fyrir viðskiptum, fjárfestingum og þróun milli fyrirtækja og í opinberri stjórnsýslu. Samkomulagið undirrituðu ráðherrarnir Finnur Ingólfsson og Manning MacDonald, í Reykjavík.

Með undirrituninni hafa ráðherrarnir lýst yfir vilja sínum til náinnar samvinnu á ofangreindum sviðum. Nánar tiltekið lýsa ráðherrarnir yfir vilja til gagnkvæmra upplýsinga um tækifæri til viðskipta og fjárfestinga og vilja til að stuðla að samvinnu fyrirtækja og opinberra aðila, bæði í löndunum tveimur en einnig í þriðja ríki. Af Íslands hálfu hefur í þessu ljósi verið lögð áhersla á tollfrjálsan aðgang íslenskrar framleiðslu að Evrópumarkaði og þeim möguleikum sem í honum kann að felast við fullvinnslu á framleiðslu fyrirtækja frá Nova Scotia hér á landi.

Í samkomulaginu er sérstaklega getið um eftirfarandi;
· Samvinnu á sviði orkuuppbyggingar og nýtingar.
· Matvælavinnslu, tækni til vinnslunnar og markaðssetningu.
· Samvinnu um framleiðslu og þjónustu á sviði umhverfisverndar og umhverfisstjórnunar.
· Samvinnu í hugbúnaðariðnaði og upplýsingatækni.
· Stjórnun, þjálfun og menntun í opinberri stjórnsýslu og einkarekstri.

Til að tryggja framkvæmd samkomulagsins hefur verið ákveðið að nefnd fjögurra manna, tveggja frá hvorum aðila, beri ábyrgð á framkvæmdinni.

Reykjavík, 28. janúar 1998.


 

Fréttir eftir árum...








Stoðval