Þorsteinn Sigfússon
Þorsteinn Sigfússon

Fulltrúi Íslands fær viðurkenningu í Rússlandi, fyrir starf að vetnismálum

23.2.2006

IPHE (International Partnership for Hydrogen Economy)  er samstarf 15 landa sem hafa það að markmiði að efla alþjóðlegt samstarf og rannsóknir á sviði vetnis og er iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið samstarfsaðili að IPHE fyrir hönd Íslands. Stefna IPHE felst m.a í áherslu á aukið alþjóðlegt samstarf, samræmingu, rannsóknir, kynningu og samstarf á milli einkaaðila og opinberra aðila. Vaxandi umsvif eru á sviði vetnismála hjá flestum aðildarlöndum og auknu fjármagni er varið til málaflokksins. Áherslur á sviði vetnis tengjast stefnumörkun margra landa á sviði umhverfismála og viðleitni til að draga úr mengun og gróðurhúsalofttegundum sem og að treysta öryggi í orkuöflun. Innan IPHE fer Ísland ásamt Þýskalandi með  formennsku í annarri af tveim aðalnefndum IPHE og sinnir Þorsteinn I. Sigfússon því hlutverki fyrir hönd Íslands, en Bandaríkjamenn fara með formennsku í stjórnarnefndinni.

 

Fulltrúi Íslands í IPHE, Þorsteinn I. Sigfússon prófessor, fær viðurkenningu í Moskvu

Í tengslum við fund fjármálaráðherra G8 ríkjanna í Moskvu í Rússlandi,  nýlega, þar sem rædd voru m.a.  orkumál og efnahagsmál heimsins, hélt mennta- og vísindaráðuneyti rússneska sambandsríkisins sérstaka alþjóðlega ráðstefnu um framleiðslu vetnis. Á ráðstefnunni var fjöldi fræðimanna með erindi, m.a. Þorsteinn I. Sigfússon sem talaði sem formaður framkvæmdanefndar IPHE, en vaxandi áhugi er víðsvegar í heiminum á þeim miklu möguleikum sem vetni hefur sem orkuberi framtíðar, ekki síst vegna umhverfismála og aukins öryggis í orkumálum. Á ráðstefnunni voru einnig veittar viðurkenningar ráðuneytisins til þeirra sem skarað hefðu framúr á þessu sviði,  innanlands sem erlendis, fyrir framlag til vetnistækni, til dæmis til frumkvöðla vetnistækni í rússneska geimferða- og flugiðnaðinum.

 

Tvær sérstakar viðurkenningar voru veittar Þorsteini Inga Sigfússyni prófessor við Háskóla Íslands. Annars vegar fyrir framlag hans sem fulltrúa Íslands og formanns framkvæmdanefndar IPHE í viðurkenningarskyni fyrir árangur af starfi IPHE. Hins vegar fyrir framlag hans til vetnismála á Íslandi. Á meðfylgjandi mynd er Þorsteinn Ingi Sigfússon prófessor að þakka fyrir sig  í ræðustól á President hótelinu í Moskvu.

 

 

 

 



 

Fréttir eftir árum...








Stoðval