Leyfi til leitar að olíu og gasi innan íslensku efnahagslögsögunnar

Norska fyrirtækið InSeis

19.7.2001

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 14/2001







Iðnaðarráðherra hefur veitt norska fyrirtækinu InSeis leyfi til leitar að olíu og gasi innan íslensku efnahagslögsögunnar. Þetta er í fyrsta skipti sem leitarleyfi af þessu tagi er veitt á íslensku hafsvæði samkvæmt heimild í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, sem samþykkt voru á Alþingi 6. mars s.l. Í lögunum er gerður greinarmunur á leit að olíu og gasi annars vegar og rannsóknum og vinnslu olíu og gass hinsvegar. Leit, sem leyfið til Inseis heimilar, er í eðli sínu fjarkönnun án borana. Leyfið veitir InSeis engan rétt til borana eða vinnslu kolvetnis. Leyfið var veitt að fenginni umsögn sjávarútvegsráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins. Leyfið er veitt til þriggja ára og tekur til rúmlega 42 þúsund ferkílómetra svæðis í norðausturhluta efnahagslögsögunnar.

Fyrirtækið hyggst stunda umfangsmiklar hljóðendurvarpsmælingar á suðurhluta Jan Mayen-hryggjar næstu þrjú árin og beita til þess fullkominni rannsóknatækni. Jan Mayen-hryggur er talinn vera úr meginlandsbergi af svipaðri gerð og það berg sem er til staðar yst á landgrunni Grænlands og Noregs. Fyrirtækið gerir ráð fyrir að niðurstöður mælinganna muni vekja áhuga annarra olíufyrirtækja, enda hefur það samkvæmt leyfinu heimild til að selja öðrum aðgang að niðurstöðunum.

Reykjavík, 19. júlí 2001.

 

Fréttir eftir árum...








Stoðval