Greinargerð nefndar um ytri skilyrði hugbúnariðnaðarins, 9. mars 1998

Mars 1998YTRI SKILYRÐI HUGBÚNAÐARIÐNAÐARINS

GREINARGERÐ NEFNDAR


I. Inngangur


Í Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið er m.a. að finna eftirfarandi markmið:

Upplýsingatæknin verði virkjuð til þess að bæta samkeppnisstöðu íslenskra atvinnuvega, fjölga atvinnukostum og auka framleiðni, fjölbreytni starfa og nýsköpun.

Ljóst má vera að til þess að ná þessu markmiði þarf að stuðla að uppbyggingu öflugs upplýsingaiðnaðar, m.a. til þess að útflutningur á íslensku hugviti verði arðbær atvinnugrein. Í þessu sambandi skiptir miklu máli fyrir upplýsingaiðnaðinn að þau ytri skilyrði sem stjórnvöld skapa greininni séu henni sem hagstæðust.

Í þeim tilgangi að móta tillögur um bætt ytri skilyrði hugbúnaðariðnaðarins skipaði Finnur Ingólfsson iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefnd í desember 1997. Í nefndinni áttu sæti:

Ágúst Guðmundsson Tölvumiðlun hf, Gunnar Ingimundarson Hug hf, Guðmundur Ásmundsson Samtök iðnaðarins, Ingvar Kristinsson Hugvit hf, Magnús Sigurðsson Landssteinum hf og Sveinn Þorgrímsson iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.

Nefndin lauk störfum í febrúar 1998 og eru tillögur hennar í greinargerð þessari.

Helstu úrræði stjórnvalda til þess að bæta stöðu upplýsingatækniiðnaðar og samkeppnishæfni á alþjóðlegum markaði lúta að mikilvægum endurbótum á skattlagningu fyrirtækja, styrkingu menntakerfisins, áframhaldandi uppbyggingu grunnkerfis Landsímans, jafnræði í samkeppnisrekstri síma- og fjarskiptaþjónustu og sértækum stuðningsaðgerðum við útflutning upplýsingatækni. Nánar er fjallað um þetta hér á eftir.

II. Staða hugbúnaðariðnaðarins


Hugbúnaðariðnaður á Íslandi hefur vaxið ört á undanförnum árum. Talsverð sameining og hagræðing hefur átt sér stað innan greinarinnar og teljast nú nokkur upplýsingatæknifyrirtæki meðal öflugustu fyrirtækja landsins. Vöxtur þeirra hefur m.a. byggst á kröfuhörðum heimamarkaði og góðum árangri í útflutningi fullþróaðrar vöru. Útflutningur á hugbúnaði hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár en byggir þó ennþá að mestu á útrás fárra fyrirtækja.

Ein mikilvægasta forsendan fyrir öflugan útflutning á hugbúnaði, eins og hjá öðrum atvinnugreinum, er að viðhalda þeim stöðugleika sem ríkt hefur í efnahagslífi okkar að undanförnu.
Hins vegar þarf fleira að koma til svo útrásarvilji fyrirtækjanna verði almennari og fleiri reyni fyrir sér á þeim vettvangi.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir mikinn vöxt upplýsingaiðnaðarins og margföldun í útflutningstekjum af sölu hugbúnaðarlausna hin síðari ár búi greinin engu að síður við óviðunandi afkomu sem stórlega getur skaðað eðlilegan vöxt hennar.

Talið er að upplýsingatæknin verði í enn ríkari mæli en nú er helsti vaxtabroddur atvinnulífsins. Ef rétt er að málum staðið höfum við mikla möguleika til að skapa öflugan þekkingariðnað, auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi og skapa áhugaverð hálaunastörf fyrir ungt fólk. Upplýsingatæknin byggir á þekkingu og hugviti og munu þær þjóðir bera mest úr býtum sem standa fremst í að nýta þann mannauð.

Það er skoðun nefndarinnar að með réttum aðgerðum megi skapa öflugan útflutningsiðnað byggðan á íslensku hugviti. Ein meginforsenda þess er að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja verði jöfnuð gagnvart erlendum keppinautum.

III. Menntakerfið og þarfir hugbúnaðariðnaðarins.

Nefndin styður þær tillögur sem fram hafa komið í Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið og í stefnumótun menntamálaráðuneytisins Í krafti upplýsinga. Í báðum þessum ritum er sérstök áhersla lögð á mikilvægi símenntunar og haldgóðrar þekkingar í raungreinum og tölvunotkun. Þar kemur einnig skýrt fram að góð menntun á öllum skólastigum er grundvöllur þess að hér á landi þróist og dafni öflugur þekkingariðnaður.

Mikilvægt er að til sé öflugt nám í tölvunarfræði á háskólastigi og að almenn tölvuþekking sé efld á öðrum námsbrautum, t.d. fyrir nemendur sem lokið hafa prófi í öðrum háskólagreinum. Mikilvægi þessa felst m.a. í því að notkun tölva og gerð hugbúnaðar byggir ekki eingöngu á sérþekkingu í tölvunarfræði heldur einnig á haldgóðri þekkingu á viðfangsefninu.

Hugbúnaðariðnaðurinn stendur nú frammi fyrir skorti á framhaldsmenntun fyrir þá tölvunarfræðinga sem útskrifast hafa úr tölvudeildum háskólanna. Þetta hefur leitt til þess að skortur er á faglegri þekkingu á þeim vandasömu úrlausnarefnum sem hugbúnaðariðnaðurinn sér framundan. Afleiðing þessa er sú að hugbúnaðariðnaðurinn óttast faglega stöðnun sem gæti reynst honum alvarlegt fótakefli og staðið eðlilegri framþróun fyrir þrifum. Á grundvelli þessa telur nefndin eitt brýnasta hagsmunamál hugbúnaðariðnaðarins, um þessar mundir, að styrkja enn frekar grunnmenntun í tölvunarfræði og koma á framhaldsnámi til meistaraprófs við Háskóla Íslands, eins og ráðgert er.

Einnig væri áhugvert að koma á fót þróunarsjóði við tölvunarfræðiskor HÍ með það að markmiði að efla menntun í tölvunarfræði við HÍ. Hugsanlega gæti sjóðurinn verið samstarf hugbúnaðarfyrirtækja, rannsóknarsjóða, fjárfestingarfyrirtækja og Nýsköpunarsjóðs.


IV. Fjarskiptakerfið og framtíðarþróun upplýsingatækninnar.

Fyrirkomulag fjarskiptamála hér á landi byggir á samþykktum ESB um samkeppni á fjarskiptamarkaði. Um er að ræða tvenn lög, annarsvegar lög um Póst- og fjarskiptastofnun og hinsvegar lög um fjarskipti.

Meðal hlutverka Póst- og fjarskiptastofnunar er að hafa umsjón og eftirlit með fjarskiptamálum hér á landi, m.a. að hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum leyfishafa, gjaldskrám og bókhaldi, þar sem það á við. Hér er um veigamikið hlutverk að ræða, einkum í ljósi þess að í lögum um fjarskipti er ekki gert ráð fyrir neinni aðgreiningu á rekstri fjarskiptanetsins (grunnkerfisins) og sölu þjónustu um það. Á þessu er aftur á móti tekið í reglugerð þar sem kveðið er á um bókhaldslegan aðskilnað á milli reksturs grunnkerfisins og sölu þjónustu um það. Tilgangur þessa mikilvæga ákvæðis er m.a. að skapa möguleika á samkeppni á sviði fjarskipta.

Með vísan til 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga og til samþykktar ríkisstjórnarinnar um fjárhagslegan aðskilnað í rekstri ríkisstofnana (nóv. 1997) verður ekki annað séð en hér sé of skammt gengið. Í samræmi við íslenska löggjöf og stjórnvaldsfyrirmæli á að gera þá kröfu að fullur fjárhagslegur og stjórnunarlegur aðskilnaður eigi sér stað á milli reksturs grunnkerfisins, sem rekið er í skjóli opinberrar verndar og yfirburðarstöðu, annars vegar og hinsvegar reksturs fjarskiptaþjónustunnar, samkeppnisrekstrarins.

Þrátt fyrir að ekki sé fyrir hendi formleg krafa frá ESB um stjórnunarlegan aðskilnað eins og er í íslenskum rétti er það veigamikið atriði að fjarskiptamarkaðurinn þróist í sátt við viðskiptavini sína. Því er mikilvægt að fullur trúnaður ríki og að ekki sé tortryggt að fullt jafnræði sé á milli samkeppnisaðila. Það næst ekki án þess að hinn stjórnunarlegi aðskilnaður verði alger, þ.e. að stofnað verði sérstakt fyrirtæki um rekstur grunnkerfisins, sem hefur engin tengsl við þjónustusöluna.


Þar sem þjónustusalan er hinn raunverulegi samkeppnisrekstur er litið svo á að þennan hluta Landssímans hf. eigi við fyrsta tækifæri að selja (einkavæða). Aftur á móti ætti að fara hægar í að einkavæða rekstur grunnkerfisins, mikilvægara er að halda áfram og ljúka uppbyggingu þess.

Varðandi áframhaldandi rekstur ríkisins á grunnkerfinu er mikilvægt að gjaldskrá grunnþjónustunnar sé gagnsæ og að hún sé grundvölluð á þeirri pólitísku ákvörðun að verðlagningu verði haldið í lágmarki, eða sem næst kostnaðarverði.

Lögð er áhersla á að uppbygging grunnkerfisins og hófleg gjaldtaka fyrir þjónustu sem fer um kerfið er eitt veigamesta hagsmunamál nýsköpunar atvinnulífsins og ein helsta forsenda þess að hér á landi verði til öflugur upplýsingaiðnaður með bolmagn til vaxtar á ört vaxandi alþjóðlegum samkeppnismarkaði.

Tillaga:

· Landssímanum hf. verði skipt í tvö sjálfstæð fyrirtæki. Annarsvegar fyrirtæki sem á og rekur grunnkerfið, þ.e. dreifikerfið ásamt nauðsynlegum búnaði, og hinsvegar fyrirtæki sem annast almenna síma- og fjarskiptaþjónustu.

· Gjaldskrá fyrir grunnþjónustuna verði ákvörðuð af stjórnvöldum, t.d. samgönguráðuneytinu að fengnum tillögum frá Póst- og fjarskiptastofnun. Gjaldskráin verði byggð á þeim lágmarkskostnaði sem nauðsynlegur er til reksturs og viðhalds kerfisins.

V. Skattalegt umhverfi fyrirtækja

Starfsumhverfi fyrirtækja markast af fjölmörgum þáttum. Fyrirtæki á Íslandi verða að geta treyst því að atvinnulífinu séu settar skýrar leikreglur, réttarfar sé öruggt og að skattalegt umhverfi setji ekki þrengri skorður en í helstu samkeppnislöndum okkar. Sérstaklega þarf skattkerfið að styðja við nýsköpun og útrás á erlenda markaði og vera hvati til fjárfestinga. Skattareglur verða jafnframt að tryggja jafnræði milli fjárfestingarvalkosta.

Sem dæmi um farsæla uppbyggingu atvinnulífs, þar sem stefna í skattamálum hefur vegið þungt, má nefna að Írar hafa náð mjög góðum árangri í uppbyggingu atvinnulífs og hefur hagvöxtur á síðustu 3 árum verið 7% að meðaltali þar í landi. Erlendar fjárfestingar á Írlandi eru miklar og koma t.d. 2/3 allra tölva sem seldar eru í Evrópu, frá Írlandi og um 40% fjárfestinga Bandaríkjamanna í tölvu- og rafeindaiðnaði í Evrópu hafna á Írlandi. Ríkisstjórn Írlands hefur sagt að ekkert eitt svið sé eins mikilvægt og bjóði upp á jafnmikla möguleika til þess að skapa blómlegt efnahags- og atvinnulíf, eins og skattamálin.

Eftirfarandi tillögur lúta að skattamálum fyrirtækja sem stunda öfluga nýsköpun og útflutning. Upplýsingatæknifyrirtæki tilheyra þeim hópi þar sem öflugt þróunarstarf er ein meginforsenda framgangs þeirra. Þessi fyrirtæki hafa auk þess í auknum mæli reynt fyrir sér með útflutning og hafa nokkur þeirra náð mjög góðum árangri í þeim efnum. Útflutningstekjur Íslendinga af hugbúnaði hafa u.þ.b. tvöfaldast á ári hverju undanfarin 4 - 5 ár og voru þær áætlaðar um 1.700 milljónir árið 1996.

Tillögurnar beinast að því markmiði að auka útflutning afurða er tengjast upplýsingatækni og ýta undir áhuga á kröftugu nýsköpunar- og þróunarstarfi innan fyrirtækja. Verði það að veruleika mun það stuðla að öflugum útflutningi á íslensku hugviti, aukinni fjölbreytni í íslensku atvinnulífi, skapa áhugaverð hálaunastörf fyrir ungt fólk í framtíðinni og þar með auka skatttekjur íslenska ríkisins af útflutningi þegar til lengri tíma er litið.

Gjaldfærsla rannsóknar- og þróunarkostnaðar

Íslensku atvinnulífi er nauðsynlegt að auka framleiðni. Það verður best gert með verðmætari og eftirsóttari vöru. Með því styrkist staða á heimamarkaði, innflutningur minnkar og útflutningur eykst. Það hefur í för með sér bætta afkomu fyrirtækjanna og hærri laun starfsmanna.

Nauðsynleg forsenda þess að íslensk framleiðsla verði verðmætari er að stórefla rannsókna- og þróunarstarf, ekki síst beina þátttöku fyrirtækjanna sjálfra. Ein þeirra leiða sem getur virkað mjög hvetjandi til þess að fyrirtækin treysti sér til þess að leggja í þetta mikilvæga starf er að veita þeim skattalegt hagræði vegna rannsókna og þróunar. Enda þótt ætla megi að þessi ráðstöfun leiði til eitthvað minni skatttekna ríkissjóðs til skamms tíma litið má fullyrða að skatttekjurnar muni aukast þegar til lengri tíma er litið.

Samkvæmt b. lið 31. gr. A. laga nr. 75/1981 má færa niður kostnað við tilraunavinnslu, markaðsleit, rannsóknir og öflun einkaleyfis og vörumerkja á því ári sem slíkur kostnaður myndast (eða með jöfnum fjárhæðum á fimm árum).

Til viðbótar þessum gjaldfærslum er lagt til að fyrirtækjum verði, að danskri fyrirmynd, heimilaður sérstakur auka frádráttur sem geti numið allt að helmingi þess kostnaðar sem þau hafa haft af rannsókna- og þróunarstarfi. Til þess að veita aðhald verði það skilyrði sett að RANNÍS hafi fyrirfram viðurkennt verkefnið sem raunverulegt rannsókna- og þróunarverkefni og að frádrátturinn geti aldrei orðið meiri en helmingurinn af þeirri kostnaðaráætlun sem lá til grundvallar samþykktinni. Þá er einnig gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin samþykki fyrir hvert ár hámark sem RANNÍS er bundið af þegar það samþykkir verkefni. Þetta hámark er samanlagður heildarkostnaður við þau verkefni sem samþykkt eru. Í Danmörku er þessi upphæð fyrir árið 1995 300 milljónir DKR eða um 3,5 milljarðar ÍKR. Eðlilegt væri að samsvarandi upphæð hérlendis væri 250 - 400 milljónir ÍKR.

Tillaga

· Við 31. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt bætist nýr töluliður svohljóðandi:

Fjárhæð sem svarar til 50% af frádráttarbærum kostnaði (útgjöldum eða afskriftum) í tengslum við rannsóknar- eða þróunarverkefni. Það er skilyrði þessa frádráttar að rannsóknar- eða þróunarverkefni hafi fyrirfram verið samþykkt af Rannsóknaráði Íslands, sbr. 2. gr. l. nr. 61/1994, og kostnaður við verkefnið sé innan þess ramma sem viðurkenningin byggðist á.

· Við 2. gr. laga nr. 61/1994 um Rannsóknaráð Íslands bætist nýr töluliður svohljóðandi:
Meta hvort rannsókna- og þróunarverkefni sem fyrirtæki hyggst eiga aðild að teljist þess eðlis að þau geti notið sérstaks frádráttar sbr. 31. gr. l. nr. 75/1981. Fyrir hvert starfsár ákveður ríkisstjórnin hámarksupphæð fyrir rannsókna- og þróunarverkefni sem má samþykkja.

Virðisaukaskattur

Margvísleg vandamál hafa skapast í viðskiptum upplýsingatæknifyrirtækja og fyrirtækja, opinberra og hálfopinberra stofnana sem eru undanþegnar greiðslu virðisaukaskatts af starfsemi sinni. Undanþágan frá greiðslu virðisaukaskatts felur í sér að þeim er óheimilt að draga frá innskatt af keyptri þjónustu og fá endurgreiðslu. Það hefur aftur leitt til þess að þessir aðilar hafa hag af að byggja upp eigin þjónustudeildir í stað þess að kaupa þjónustuna að. Sérstaklega er þetta áberandi þegar í hlut á hvers konar tölvuþjónusta og hugbúnaðargerð.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er hugbúnaðargerð, þjónusta vegna hugbúnaðargerðar og önnur tölvuvinnsla ekki undanþegin virðisaukaskatti. Gildir þá einu þótt þjónustan sé innt af hendi af aðilum sem að öðru leyti reka óskattskylda starfsemi, sbr. 3. gr. laganna.

Bankar, sparisjóðir, tryggingarfélög, lífeyrissjóðir og heilbrigðisstofnanir eru dæmi um þá sem reka óskattskylda starfsemi, og eiga því að skila virðisaukaskatti til ríkissjóðs af innri þjónustu sem rekin er í samkeppni við einkaaðila. Vísast til 3. gr. 1., 2. og 4. tölul. 1. mgr. ákvæðisins í því sambandi.

Meginmarkmiðið með þessu ákvæði er að hindra röskun á samkeppni vegna þeirra sem ekki eru skattskyldir skv. 2. gr. laganna. Þessu markmiði er þjónað enn frekar í 2. mgr. 3. gr. með heimild til fjármálaráðherra til að ákveða með hliðsjón af samkeppnisákvæðum að atvinnufyrirtæki, félög, stofnanir og aðrir aðilar greiði virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota.

Bankar, sparisjóðir, tryggingarfélög og lífeyrissjóðir ættu, ef allt væri með felldu, að vera meðal stærstu viðskiptavina íslenskra upplýsingatæknifyrirtækja en eru það ekki meðal annars vegna þessarar skekktu samkeppnisstöðu.

Það hefur um alllangt skeið verið skoðun upplýsingatæknifyrirtækja og hagsmunaaðila þeirra að virðisaukaskattskil ofangreindra aðila sé ábótavant. Það er ófært að samkeppnisstaðan sé skert með þessum hætti og að lögum sé ekki framfylgt.

Það er skoðun nefndarinnar að herða þurfi til muna eftirlit með virðisaukaskattskilum af vörum og þjónustu sem rekin er á vegum þeirra sem að öðru leyti eru undanþegnir greiðslu virðisaukaskatts.
Hins vegar er einnig bent á að meðan undanþágur vegna greiðslu virðisaukaskatts eru við lýði þá munu ýmis vafaatriði vegna samkeppnismála koma upp. Það þarf því að endurskoða virðisaukaskattkerfið í heild sinni með það að markmiði að undanþágur verði afnumdar sem leiða ætti til lægra virðisaukaskatthlutfalls.

Tillaga

· Herða þarf til muna eftirlit með virðisaukaskattskilum af vörum og þjónustu sem rekin er á vegum þeirra sem að öðru leyti eru undanþegnir greiðslu virðisaukaskatts.
· Endurskoða þarf virðisaukaskattkerfið í heild sinni með það að markmiði að undanþágur verði afnumdar sem leiða ætti til lægra virðisaukaskatthlutfalls.


Tvísköttun arðs

Útborgaður arður af hlutafjáreign telst að fullu til tekna hjá þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem taka við arðgreiðslum en er aðeins að takmörkuðu leyti viðurkenndur sem rekstrargjöld hjá því fyrirtæki sem arðinn greiðir.

Samkvæmt skattalögum er veittur frádráttur vegna greiðslu arðs upp að 7% af nafnvirði hlutafjár í því félagi sem greiðir út arðinn. Arðurinn er svo skattlagður innan ákveðinna marka, um 10% hjá einstaklingum og 33% hjá fyrirtækjum sem við honum taka.

Víðast erlendis er þessu öfugt farið þ.e. arður hlutafjár er ekki frádráttarbær hjá því félagi sem arðinn greiðir og greiðir félagið þar með tekjuskatt af óskertum stofni. Til að koma í veg fyrir tvísköttun er arðurinn ekki skattskyldur hjá þeim hluthöfum sem fá hann greiddan.

Vegna þessa misræmis milli íslenskra og erlendra skattalaga kemur skattlagning hart niður á íslensku fyrirtæki sem fjárfestir í erlendu félagi eða er með starfsemi erlendis. Arðgreiðslan er ekki frádráttarbær hjá erlenda félaginu en er að fullu skattlögð við greiðslu til íslenska félagsins. Arðurinn er svo aftur skattlagður við greiðslu arðs til hluthafa íslenska félagsins.

Þetta fyrirkomulag er mjög bagalegt fyrir íslensk fyrirtæki með starfsemi erlendis og hindrar mjög frumkvæði þeirra til útrásar. Skattlagning þessa arðs veldur því að hann skilar sér ekki til íslenskra fyrirtækja og nýtist ekki við þróun og uppbyggingu þeirra.

Í raun er þetta líka vandamál þegar íslenskt félag kaupir í öðru íslensku félagi og torveldar þátttöku fyrirtækja sem vilja efla starfsemi sína með uppbyggingu nýrra fyrirtækja. Þar veldur mestu þessi skattalega meðferð á arðgreiðslum sem lýst er að ofan og einnig takmarkanir á heimildum til að gjaldfæra tapað hlutafé og færa fjármuni úr einu eignarformi í annað án skattalegra áhrifa.

Til að leysa þetta er lagt til að skattalögum verði breytt í líkingu við það sem tíðkast víða erlendis þ.e. að arður af hlutafé sé ekki frádráttarbær hjá því félagi sem arðinn greiðir, en á móti verði arðurinn ekki skattskyldur hjá þeim hluthöfum sem fá hann greiddan.

Tillaga

· Við 28. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt bætist nýr töluliður svohljóðandi:


Móttekinn arður af hlutdeild í atvinnurekstri, enda hafi hagnaður félagsins sem arðurinn er greiddur af verið skattlagður hjá því félagi.

· Vegna ofangreindra lagabreytinga þarf jafnframt að gera eftirfarandi breytingar:

a) Felldur verði út 8. tölul. 31. gr. um frádrátt frá tekjum, lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri, sem nemur allt að 7% af nafnvirði hlutafjár.
b) Felldur verði út tölul. C.4. í 7. gr. er kveður á um að arður af hlutabréfum í félögum, sbr. 9. gr. teljist til skattskyldra tekna.
c) Felld verði niður 1. mgr. 9. gr. sem kveður á um að auk venjulegra arðgreiðslna teljist sérhver afhending verðmæta til hlutaðeiganda eða hluthafa sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.
d) Til að jafna þann mismun sem kann að myndast vegna afnáms laga um gjaldfærslu sem nemur allt að 7% af nafnvirði hlutafjár, þarf að lækka eignarskatt eða tekjuskatt fyrirtækja til að skattbyrði verði óbreitt.

Umbreyting hugverks í hlutafé

Samkvæmt lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994 má ekki skrá félag fyrr en allt hlutafé er greitt. Ef um hlutafélag er að ræða má ekki, samkvæmt lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, skrá félag fyrr en áskrift er komin fyrir öllu hlutafé og a.m.k. helmingur hlutafjár hefur verið greiddur.

Aðilar sem búa yfir ákveðinni þekkingu og vilja stofna fyrirtæki um hugmyndina með öflun utanaðkomandi hlutafjár geta í mörgum tilfellum ekkert lagt til félagsins annað en þekkinguna (hugverkið) sjálfa. Til að hugverkið verði tekið gilt sem hlutafé þarf að liggja fyrir sérfræðiskýrsla þar sem fram kemur að um fjárhagsleg verðmæti sé að ræða, og mat á þeim. Hugmyndasmiðurinn þarf þá að leggja fram reikning vegna hugverksins sem hann leggur til sem hlutafé. Sú skattalega eignaaukning sem á sér stað þegar hugverkið verður að verðmætum í formi hlutafjár verður skattskylt hjá hugmyndasmiðnum samkvæmt 7. grein laga um tekju- og eignaskatt. Á móti kemur þó að bókfærður rekstrarkostnaður vegna vinnu við hugmyndina er frádráttarbær frá tekjum.

Þetta skattalega óhagræði hefur latt frumkvöðla til að stofna fyrirtæki um þær hugmyndir og þekkingu sem þeir búa yfir og getur það eitt og sér orðið góðum hugmyndum að falli.

Tillaga

· Við 28. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt bætist nýr töluliður svohljóðandi:

Hlutafé sem orðið hefur til vegna umbreytingar þekkingar í hlutafé.
VI. Stuðningur við útflutning hugbúnaðar


Mikilvægt er að opinberir sjóðir, stjórnvöld og aðrir sem stuðlað geta að framgangi atvinnulífsins greini stöðugt og með markvissum hætti þær greinar atvinnulífsins sem líklegastar eru til þess að ná árangri á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Þessum greinum verði síðan veittur sérstakur stuðningur m.a. vegna þess að fjárfestingar í þeim eru líklegastar til að skila hámarksarðsemi.

Hugbúnaðariðnaðurinn er vafalaust meðal helstu vaxtargreina atvinnulífsins og í fararbroddi nýsköpunar. Þörf er á eflingu almennra stuðningsaðgerðir við greinina, einkum á eftirfarandi þrem sviðum: Ráðgjöf við útflutning, stuðningi við sýningar- og kynningarstarfsemi erlendis og fjármögnun útrásar. Á grundvelli þessa eru eftirfarandi tillögur gerðar:

1. Útflutningsráð efli ennfrekar stuðning sinn við hugbúnaðariðnaðinn með sérhæfðri ráðgjöf. Starfsmaður með haldgóða þekkingu á hugbúnaðariðnaði aðstoði við gerð ítarlegra markaðsathugana. Ráðið veiti upplýsingar um lög og reglur og höfundarétt á erlendum mörkuðum. Komið verði á sambandi við líklega kaupendur og samstarfsaðila og því haldið við.

Meðal þess sem athuga mætti er að fá reynda stjórnendur og sérfræðinga, sem er að láta af störfum eftir langt ævistarf, til að ráðleggja og miðla þeirri dýrmætu þekkingu og visku sem það hefur á útflutningsmálum.

2. Útflutningsráð og Átak til atvinnusköpunar veiti sérstakan stuðning við útrás íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja, m.a. með því að styrkja þátttöku þeirra í viðurkenndum sýningum erlendis. Þátttaka í sýningum og annarskonar kynningarstarfsemi verði unnin undir leiðsögn sérfróðs starfsmanns Útflutningsráðs, sbr. 1. tölul.

Samantekt á tillögum um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt nr. 75/1981:

1. Við 28. gr. laga bætast við tveir töluliðir.

Hvað ekki telst til tekna.

28. gr. Þrátt fyrir ákvæði þessa kafla telst ekki til tekna:

i. Mótekinn arður af hlutdeild í atvinnurekstri, enda hafi hagnaður félagsins sem arðurinn er greiddur af verið skattlagður hjá því félagi.
ii. Hlutafé sem orðið hefur til vegna umbreytingar þekkingar í hlutafé.

Í i. tölulið felst að eftirfarandi breytingar þarf jafnframt að gera:

a) Felldur verði út 8. tölul. 31. gr. um frádrátt frá tekjum, lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri, sem nemur allt að 7% af nafnvirði hlutafjár.
b) Felldur verði út tölul. C.4. í 7. gr. er kveður á um að arður af hlutabréfum í félögum, sbr. 9.gr. teljist til skattskyldra tekna.
c) Felld verði niður 1. mgr. 9. gr. sem kveður á um að auk venjulegra arðgreiðslna teljist sérhver afhending verðmæta til hlutaðeiganda eða hluthafa sem tekjur af hlutareign þeirra í félaginu.
d) Til að jafna þann mismun sem kann að myndast vegna afnáms laga um gjaldfærslu sem nemur allt að 7% af nafnvirði hlutafjár, þarf að lækka eignarskatt eða tekjuskatt fyrirtækja til að skattbyrði verði óbreitt.

2. Við 31. gr. laga um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 bætist nýr tölul.:

Frádráttur frá tekjum af atvinnustarfsemi.

31. gr. Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga:

i. Fjárhæð sem svarar til 50% af frádráttarbærum kostnaði (útgjöldum eða afskriftum) í tengslum við rannsóknir- eða þróunarverkefni. Það er skilyrði þessa frádráttar að rannsóknar- eða þróunarverkefni hafi fyrirfram verið samþykkt af Rannsóknarráði Íslands, sbr. 2. gr. l. nr. 61/1994, og kostnaður við verkefnið sé innan þess ramma sem viðurkenningin byggist á.

3. Við 2. gr. laga nr. 61/1994 um Rannsóknarráð Íslands bætist nýr tölul.:

2. gr. Rannsóknarráð Íslands skal:

i. Meta hvort rannsókna- og þróunarverkefni sem fyrirtæki hyggjast eiga aðild að teljist þess eðlis að þau geti notið sérstaks frádráttar sbr. 31. gr. l. nr. 75/1981. Fyrir hvert starfsár ákveður ríkisstjórnin hámarksupphæð fyrir rannsókna- og þróunarverkefni sem má samþykkja.
 Stoðval