Erindisbréf forstjóra Einkaleyfastofu - -
Erindisbréf
fyrir Ástu Valdimarsdóttur, forstjóra Einkaleyfastofu.
Einkaleyfastofan er ríkisstofnun sem heyrir undir iðnaðarráðherra.
Hlutverk stofnunarinnar er einkum:
1. að fara með málefni varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd og önnur hliðstæð réttindi sem kveðið er á um í lögum, reglum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar;
2. að veita einstaklingum, stofnunum og atvinnufyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði og
3. að stuðla að því að ný tækni og þekking, sem felst í skráðum hugverkaréttindum, verði aðgengileg almenningi.
Í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefur iðnaðarráðherra með bréfi, dags. 18. október 2002, skipað yður forstjóra Einkaleyfastofu til fimm ára frá og með 1. nóvember 2002 að telja. Forstjóri ber ábyrgð á að starfsemi stofnunarinnar sé í samræmi við lög um hugverkaréttindi í iðnaði, m.a. einkaleyfi, vörumerki og hönnunarvernd, auk stjórnvaldsfyrirmæla og erindisbréfs þessa. Þá skal starfsemin vera í samræmi við önnur gildandi lög, m.a. stjórnsýslulög, upplýsingalög, lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og lög um fjárreiður ríkisins.
Forstjóri hefur á hendi yfirstjórn stofnunarinnar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar, eignum, skipulagi og starfsmannamálum.
Í verkahring forstjóra er m.a.:
1. að hafa frumkvæði að mótun stefnu með það að leiðarljósi að starfsemin sé í sem fyllstu samræmi við ákvæði viðeigandi laga, reglna og alþjóðlegra hugverkaréttarsamninga sem Ísland er aðili að, svo og ákvarðanir stjórnvalda um stjórnunarhætti í ríkisrekstri er tengjast m.a. áætlunum og markmiðum til lengri og skemmri tíma;
2. að gera tillögur að breytingu á lögum og reglum er snerta stofnunina;
3. að gera fjárlagatillögur og tillögur um gjaldskrár og
4. að bera ábyrgð á að rekstrarútgjöld séu innan ramma fjárlaga og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
Auk þess eru eftirtalin verkefni hluti af starfi forstjóra:
1. samskipti við ráðuneyti og aðra stjórnsýsluaðila, aðila utan stjórnkerfisins og norrænar og alþjóðlegar stofnanir á sviði hugverkaréttinda, m.a. Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO) í Genf og Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) vegna samningsins um hugverkarétt í viðskiptum, auk verkefna á grundvelli EES-samningsins;
2. skipulag starfseminnar, þar með talið gerð skipurits í samræmi við skiptingu stofnunarinnar í deildir og fagsvið;
3. starfsmannahald, þar með talin ráðning starfsmanna, gerð starfslýsinga og samningar við starfsmenn um launakjör innan ramma kjarasamninga;
4. ákvarðanir, í samráði við ríkisbókhald og ríkisendurskoðun, um tilhögun bókhalds og innra eftirlits varðandi meðferð fjármuna;
5. hagræðingaraðgerðir í því skyni að auka skilvirkni í rekstri og gæði þeirrar þjónustu sem viðskiptamönnum er látin í té, m.a. með upplýsingum á alnetinu;
6. önnur stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, m.a. útgáfu rita, og
7. ýmis ótalin verkefni er lúta að daglegri stjórn stofnunarinnar.
Í framhaldi af framlagningu fjárlagafrumvarps í október ár hvert skal forstjóri hefja undirbúning að gerð ársáætlunar fyrir komandi ár. Við gerð hennar, sem lokið skal við í síðasta lagi í febrúar, skal höfð hliðsjón af langtímaáætlun, svo og afgreiðslu fjárlaga og greiðslustöðu í byrjun árs. Í ársáætlun skal gerð grein fyrir helstu starfsmarkmiðum ársins. Í fjárlagatillögum fyrir næsta ár skal tekið nauðsynlegt tillit til ársáætlunar.
Forstjóri skal í síðasta lagi í mars ár hvert taka saman og senda ráðuneytinu skýrslu um starfsemi s.l. árs (ársskýrslu).
Forstjóri gerir ráðuneytinu grein fyrir ábendingum sem stofnuninni berast frá hagsmunasamtökum og öðrum aðilum, svo sem varðandi endurskoðun gildandi laga og reglna um starfsemina.
Forstjóri skal bera undir iðnaðarráðuneytið þær ákvarðanir eða ráðstafanir sem telja má óvenjulegar eða mikils háttar.
Erindisbréf þetta, sem sett er samkvæmt 38. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildir þar til öðruvísi verður ákveðið. Forstjóri og iðnaðarráðherra geta óskað eftir endurskoðun á erindisbréfinu.