Rammasamningur milli iðnaðarráðuneytis og Einkaleyfastofunnar.

1. gr.

Tilgangur með samningnum

Í samningi þessum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur iðnaðarráðuneytisins og Einkaleyfastofunnar viðvíkjandi útfærslu á hlutverki stofnunarinnar sammkvæmt lögum og reglum um starfsemina og með hliðsjón af erindisbréfi forstjóra. Samningurinn fjallar um samskipti ráðuneytisins og stofnunarinnar og leggur m.a. grunn að gerð stefnumarkandi áætlana til lengri og skemmri tíma og skýrslna þar sem m.a. verður lagt mat á árangur með hliðsjón af markmiðum, sbr. 5. gr. samningsins.

Samningurinn breytir í engu ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi á starfsemi stofnunarinnar eða þeim stjórnsýsluskyldum sem ráðherrann og stofnunin hafa lögum samkvæmt.

2. gr.

Hlutverk og störf Einkaleyfastofunnar

Einkaleyfastofan er ríkisstofnun, sem heyrir undir iðnaðarráðherra, og er hlutverk hennar einkum:

1. að fara með málefni varðandi vernd einkaleyfa, vörumerkja, hönnunar, byggðarmerkja og annarra hliðstæðra réttinda sem kveðið er á um í lögum, reglum og alþjóðasamningum um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar;

2. að veita einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf um hugverkaréttindi í iðnaði og

3. að stuðla að því að ný tækni og þekking, sem felst í skráðum hugverkaréttindum, verði aðgengileg almenningi, m.a. í riti sem Einkaleyfastofan gefur út (ELS-tíðindum).

Einkaleyfastofan starfar samkvæmt lögum um hugverkaréttindi í iðnaði, öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og sér hún um framkvæmd skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningum um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar og tekur þátt í samstarfi Norðurlandanna á þessu sviði.

3. gr.

Markmið og áherslur

Einkaleyfastofan skal í áætlunum sínum setja fram:

1. markmið varðandi æskilega þróun hugverkaréttinda í iðnaði, m.a. til að tryggja viðskiptavinum sem besta vernd á réttindum sínum;

2. hvaða leiðir skuli fara til að ná markmiðunum og

3. hvernig meta skuli árangur.

Í áætlunum og við framkvæmd þeirra skal lögð áhersla á eftirfarandi:

1. að starfsemin og löggjöf um hugverkaréttindi í iðnaði fylgi alþjóðlegri þróun með tilliti til þarfa íslensks atvinnulífs;

2. að einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir verði hvattar til að hagnýta sér þjónustu, upplýsingar og ráðgjöf sem stofnunin getur látið í té, m.a. upplýsingar í rafrænu formi;

3. að stefna að því, með hliðsjón af alþjóðlegri þróun, að hugverkavernd hér á landi ýti undir rannsóknir, þróun og nýsköpun í atvinnulífi;

4. að stuðla að sem bestum tengslum stofnunarinnar og þeirra aðila sem fást m.a. við nýsköpun, rannsóknir og þróun;

5. að tryggja sem nánast samstarf við norrænar einkaleyfastofnanir og alþjóðastofnanir á sviði hugverkaréttinda í iðnaði;

6. að auka þekkingu og færni starfsmanna, með gæði þjónustunnar og aukna skilvirkni í huga;

7. að stefna að því að sjálfsaflafé stofnunarinnar, þ.e. einkum gjöld fyrir einkaleyfi, vörumerki og hönnun, standi undir starfsemi hennar og

8. að hlúð sé að faglegu og rekstrarlegu sjálfstæði stofnunarinnar og gætt verði hagkvæmni í rekstri.

Iðnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir því að fjárhagsgrundvöllur stofnunarinnar sé sem traustastur þannig að hún geti sem best rækt hlutverk sitt og náð markmiðum sínum.

4. gr.

Þáttaka í norrænu og alþjóðlegu samstarfi

Einkaleyfastofan annast samskipti við hin Norðurlöndin og Alþjóðahugverkastofnunina (WIPO) á sviði hugverkaréttinda í iðnaði. Jafnframt annast hún í umboði iðnaðarráðuneytisins samskipti við EFTA/ESB á grundvelli EES-samningsins og samskipti við Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) á grundvelli samningsins um hugverkarétt í viðskiptum (GATT/TRIPS-samningsins). Stofnunin tekur þátt í samstarfi aðildarríkja samninganna, fylgist með þróun mála og metur þau í ljósi íslenskra hagsmuna. Þegar um er að ræða stefnumótun í mikilvægum málum skal stofnunin bera málin undir ráðuneytið sem tekur endanlegar ákvarðanir og ber ábyrgð á þeim.

5. gr.

Áætlana- og ársskýrslugerð

Eftirfarandi áætlanir og skýrslur skulu vera liður í samskiptum iðnaðarráðuneytisins og Einkaleyfastofunnar:

1. Einkaleyfastofan skal á 3-5 ára fresti leggja fram langtímaáætlun þar sem mótuð er stefna í starfseminni. Næsta áætlun skal lögð fram fyrir árslok 2001 og má endurskoða hana hvenær sem er á áætlunartímabilinu, m.a. í tengslum við gerð áætlana. Drög að langtímaáætlun skulu kynnt ráðuneytinu.

2. Eftir framlagningu fjárlagafrumvarps að hausti til skal Einkaleyfastofan hefja undirbúning að gerð áætlunar um starfsemi stofnunarinnar á komandi ári (ársáætlunar). Stofnunin kynnir ráðuneytinu niðurstöður og markmið áætlunarinnar í febrúar ár hvert þegar tekið hefur verið tillit til afgreiðslu fjárlaga og greiðslustöðu stofnunarinnar. Ársáætlun myndar grunn undir fjárlagatillögur fyrir næsta ár.

3. Í mars ár hvert skal Einkaleyfastofan ljúka gerð ársskýrslu fyrir liðið ár og skal þar gerð grein fyrir árangri af starfi stofnunarinnar á því ári með hliðsjón af settum markmiðum.

Ráðuneytið skal innan tveggja mánaða frá því að drög að áætlunum eru dagsett koma athugasemdum sínum, ef einhverjar eru, á framfæri við stofnunina.

6. Gildistími

Samningur þessi öðlast gildi við undirritun og gildir í þrjú ár. Hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun á samningstímanum. Stefnt skal að því að vinna við endurnýjun samningsins hefjist þremur mánuðum fyrir lok samningstímans. Sé nýr samningur ekki gerður fyrir lok samningstímans framlengist gildistíminn þar til nýr samningur öðlast gildi.

Reykjavík, 12. september 2001.

Valgerður Sverrisdóttir , iðnaðarráðherra

Gunnar Guttormsson, forstjóri Einkaleyfastofunnar



 





Stoðval