Árangursstjórnunarsamningur við Orkustofnun
Samningur um árangursstjórnun milli
iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Orkustofnunar
I. Tilgangur
Með samkomulagi þessu er kveðið á um gagnkvæmar skyldur iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar við útfærslu á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar ásamt því að leggja grunn að áætlanagerð og mati á árangri af starfsemi hennar. Með áætlunum, sem samkomulagið kveður á um, er mótuð stefna til næstu ára. Sýna skal fram á árangur af starfseminni í ársskýrslu með samanburði við upphafleg markmið.
Samningurinn breytir í engu ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi á starfsemi stofnunarinnar eða þeim stjórnsýsluskyldum sem ráðherra og stofnun hafa lögum samkvæmt.
II. Hlutverk
Orkustofnun er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið. Hún starfar samkvæmt lögum nr. 58/1967 með síðari breytingum. Hlutverki stofnunarinnar er lýst í reglugerð nr. 632/1996. Skipurit hennar var staðfest af ráðherra í febrúar 1997.
III. Áherslur í starfi
Orkustofnun stuðlar að nýsköpun og eflingu atvinnulífs með rannsóknum og hagnýtingu á orkulindum. Auk fastra langtímaverkefna verður eftir því sem fjárveitingar leyfa lögð áhersla á eftirfarandi verkefni:
1. Áætlun um rannsóknir og nýtingu innlendra orkulinda.
2. Umhverfi og orkunýting.
3. Hagkvæm orkuvinnsla og orkunotkun.
4. Gagnagrunnur um orkumál.
5. Orkuspár.
6. Kennsla, þróunaraðstoð.
7. Upplýsingamál.
Árlega verði gefnar út skýrslur um orkuverð á Íslandi og gerður samanburður við orkuverð í öðrum löndum. Ennfremur gefi stofnunin út upplýsingarit um orkumál, hagkvæma orkunotkun o.fl. eftir því sem ástæða er til.
Iðnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir að Alþingi veiti fé til að efla og styrkja meginverkefni stofnunarinnar, einkum ný áhersluatriði, og að stuðningur við starfið verði sem víðtækastur. Keppt verður að samfellu í fjárveitingum til þess að langtímamarkmiðum verði náð.
IV. Starfsrammi
Stofnunin og ráðuneytið munu stuðla að því að treysta þá starfshætti og það starfsumhverfi sem sett er með reglugerð og skipuriti því sem nú gildir um stofnunina. M.a. skal huga að eftirfarandi:
2. Að haldið verði áfram að þróa þá starfshætti sem ný reglugerð og skipurit mæla fyrir um. Uppgjör rekstrareininga verði sundurgreint og formfesta aukin við samningagerð um orkurannsóknir. Leitað verði hagstæðustu leiða til að sinna rannsóknarverkefnum, m.a. með útboði verkefna. Verksamningar um öll helstu verkefni á viðkomandi ári liggi að jafnaði fyrir 15. mars. Í samningum verði m.a. kveðið á um árangursmarkmið.
3. Að starfshættir Orkustofnunar taki mið af þeirri þróun að orkufyrirtæki munu í vaxandi mæli keppa innbyrðis m.a. um aðgengi að auðlindum og upplýsingum um þær.
4. Að eflt verði samstarf við háskóla og aðrar rannsóknarstofnanir bæði til að auka gæði og árangur en einnig til hagræðingar í opinberum rekstri. Sérstaklega verði hugað að samvinnu við aðrar rannsóknarstofnanir sem heyra undir iðnaðarráðuneytið. Áætlun þar að lútandi liggi fyrir á árinu.
5. Að iðnaðarráðuneytið leitist við að tryggja nægilegt fé til stofnunarinnar vegna aukinna verkefna sem henni kunna að vera falin með nýjum lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum ráðherra.
6. Að meðferð ferðaheimilda verði færð til stofnunarinnar. Jafnframt fái stofnunin vald til nauðsynlegra kaupa á bifreiðum og tækjum, eftir því sem fjárhagur hennar leyfir.
7. Að Orkustofnun hafi skýra starfsmannastefnu m.a. með árangursmati í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um nýskipan í ríkisrekstri. Á samningstímanum verði hugað að því á hvern hátt ávinningur af bættum árangri stofnunarinnar geti skilað sér með viðunandi hætti til starfsmanna.
V. Gagnkvæmar skyldur
Á samningstímanum skulu Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið standa skil á verkefnum sem hér segir:
2. Í kjölfar þess að fjárlagafrumvarp er lagt fram á Alþingi skal stofnunin hefja undirbúning að gerð ársáætlunar fyrir komandi ár, sem kynnt skal ráðuneytinu sem fyrst eftir samþykkt fjárlaga og eigi síðar en í lok janúar ár hvert. Ráðuneytið skal innan mánaðar koma sjónarmiðum sínum á framfæri við stofnunina.
3. Á hverju vori skal gera grein fyrir framkvæmd þessa samnings með skýrslu um árangur af starfi stofnunarinnar með samanburði við sett markmið. Ágrip af skýrslunni skal birt í ársskýrslu stofnunarinnar.
4. Samningur þessi tekur gildi 1. október 1998. Gildistími hans er þrjú ár, en hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun innan þess tíma. Vinna við endurskoðun samningsins skal hefjast eigi síðar en hálfu ári fyrir lok samningstíma.
Reykjavík, 5. október 1998
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Orkumálastjóri