Árangursstjórnunarsamningur við Iðntæknistofnun Íslands
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og Iðntæknistofnun Íslands gera með sér svofellt samkomulag
I. Tilgangur
Með samkomulagi þessu er kveðið á um gagnkvæmar skyldur iðnaðarráðuneytis og Iðntæknistofnunar Íslands við útfærslu á lögbundnu hlutverki stofnunarinnar ásamt því að leggja grunn að áætlanagerð og mati á árangri af starfsemi hennar. Með áætlunum, sem samkomulagið kveður á um, er mótuð stefna til næstu ára. Sýna skal fram á árangur af starfseminni í ársskýrslu með samanburði við upphafleg markmið.
Samningurinn breytir í engu ábyrgð ráðherra gagnvart Alþingi á starfsemi stofnunarinnar eða þeim stjórnsýsluskyldum sem ráðherra og stofnun hafa lögum samkvæmt.
II. Hlutverk
Iðntæknistofnun Íslands er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir iðnaðarráðuneytið. Hún starfar samkvæmt lögum nr. 41/1978, með síðari breytingum, og stjórnvaldsfyrirmælum ráðherra.
Hlutverk Iðntæknistofnunar Íslands er í megin atriðum:
2. að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um nýsköpun og tækniþróun fyrir íslenskan iðnað svo og um önnur mál sem teljast til verkefna stofnunarinnar.
III. Áherslur og markmið
Við framtíðarþróun stofnunarinnar er lögð áhersla á aukið faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði og um leið auknar kröfur um árangur og skilvirkni. Sérstök áhersla verði lögð á hagnýtingu vísinda- og tækniþekkingar til afurðasköpunar í íslensku atvinnulífi. Fram komi hvernig vísinda-og rannsóknastarf verður annars vegar nýtt til hæfnisaukningar starfsmanna og hins vegar í þágu atvinnulífsins. Áhersla er lögð á að vera með bestu þekkingu og færni á þeim sviðum sem starfað er á. Stofnunin skal í áætlunum sínum setja fram skýr markmið, meðal annars töluleg, um árangur af starfseminni, leiðir að settu marki og hvernig staðið skuli að mati á árangri. Í áætlunum hennar skal lögð sérstök áhersla á eftirfarandi:
1. Skipulag rekstrar
Iðntæknistofnun mun skipuleggja starfsemi sína þannig að fjárhagslegur og stjórnunarlegur aðskilnaður verði á ríkishluta og samkeppnishluta. Ríkishluti er starfsemi sem rekin er með fé úr ríkissjóði en einnig með styrktar- og verkefnafé, m.a. vegna átaksverkefna. Samkeppnishluti er starfsemi sem getur verið að hluta eða öllu leyti í samkeppni við rekstur á almennum markaði.
Iðntæknistofnun mun áfram starfrækja rannsóknar-og þróunarverkefni sem ekki eru í samkeppni á almennum markaði en eru fjármögnuð með styrkjum úr innlendum og erlendum sjóðum auk þess sem ríkisfé er veitt til þessara verkefna.
Skilið verður milli samkeppnis- og ríkishluta starfseminnar frá 1. janúar 1998 og skal aðskilnaði að fullu lokið fyrir 1. janúar 1999. Markmiði um fjárhagslegan aðskilnað verður því aðeins að fullu náð að hlutdeild Iðntæknistofnunar í sameiginlegum kostnaði vegna reksturs fasteigna á Keldnaholti og skrifstofu rannsóknastofnana atvinnuveganna (SRA) komi fram.
Til þess að efla virka stjórnun og innra eftirlit og til þess að viðhalda tiltrú viðskiptavina Iðntæknistofnunar á starfsemi hennar mun stofnunin taka upp matsaðferðir til að mæla árangur af starfsemi sinni. Matsaðferðirnar verða felldar að gæða- og rekstraráætlunarkerfi stofnunarinnar og niðurstöður kynntar opinberlaga. Jafnframt verði unnið að því að koma á samanburðarmati (Benchmarking) fyrir sambærilegar stofnanir.
2. Nýsköpun og leiðsögn
Áhersla verður lögð á eflingu þeirrar starfsemi er tengist leiðsögn, þekkingarmiðlun og tækniyfirfærslu, sem leiðir til nýsköpunar í atvinnulífinu. Með nýsköpun er átt við það viðfangsefni að breyta þekkingu í markaðshæfa vöru og/eða þjónustu.
Til þess að starfsemi Iðntæknistofnunar Íslands geti nýst sem stærstum hluta íslensks atvinnulífs mun stofnunin og ráðuneytið sameiginlega vinna að því að hjá Iðntæknistofnun verði öflug þverfagleg þekkingarmiðstöð með virkum tengslum við aðra sem stunda rannsóknir, tækniyfirfærslu og þekkingarmiðlun.
Iðnaðarráðuneytið mun í samvinnu við Iðntæknistofnun stuðla að því að nýsköpunar- og leiðsagnarþjónusta fyrir frumkvöðla og LMF verði hluti af starfsemi Iðntæknistofnunar. Iðntæknistofnun mun þróa aðferðir til að meta og mæla ávinning af nýsköpunarstarfi.
Iðnaðarráðuneytið mun beita sér fyrir að Alþingi veiti fé til að efla og styrkja ofangreint hlutverk og að stuðningur við starfið verði sem víðtækastur.
IV. Starfsrammi
Iðnaðarráðuneytið mun vinna að því að skýra hvernig háttað er ráðstöfunarrétti á því húsnæði sem Iðntæknistofnun hefur til umráða. Ráðuneytið mun stuðla að því að stofnunin hafi ásættanlega aðstöðu varðandi húsnæði.
Iðnaðarráðuneytið mun leitast við að auka fjárframlög til stofnunarinnar ef kostnaðarauki hlýst af breyttu hlutverki og starfsemi ríkishluta stofnunarinnar á grundvelli stjórnvaldsfyrirmæla ráðherra.
V. Gagnkvæmar skyldur
Á samningstímanum skulu Iðntæknistofnun Íslands og iðnaðarráðuneytið standa skil á verkefnum sem hér segir:
2. Í kjölfar þess að fjárlagafrumvarp er lagt fram á Alþingi skal stofnun hefja undirbúning að gerð ársáætlunar fyrir komandi ár. Stjórn Iðntæknistofnunar kynnir ráðuneytinu niðurstöður ársáætlunar í febrúar ár hvert, þegar tekið hefur verið tillit til afgreiðslu fjárlaga og greiðslustöðu í upphafi árs, samhliða tillögum til fjárlaga fyrir næsta ár.
3. Í febrúar ár hvert skal stjórn Iðntæknistofnunar, í ársskýrslu fyrir liðið ár, gera grein fyrir árangri af starfi stofnunarinnar með samanburði við sett markmið, í fyrsta sinn í febrúar 1999.
VI. Gildisstími
Samningurinn tekur gildi 1. janúar 1998. Gildistími er þrjú ár en hvor aðili um sig getur óskað eftir endurskoðun innan þess tíma. Vinna við endurnýjun samningsins skal hafin a.m.k. hálfu ári áður en samningstímanum lýkur.
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Forstjóri Iðntæknistofnunar Íslands