Sögulegt yfirlit - Viðskiptaráðuneyti


Viðskiptaráðuneytið var stofnað 17. apríl 1939. Á starfstíma ráðuneytisins hafa viðskiptahættir í heiminum tekið stakkaskiptum og hafa verkefni ráðuneytisins í gegnum tíðina dregið dám af þeim breytingum.

Á fyrstu starfsárum ráðuneytisins í seinni heimsstyrjöldinni sinnti það aðallega verkefnum á sviði innflutnings- og gjaldeyrismála. Ráðuneytið sá um úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, en hvorttveggja var bundið höftum á þessum tíma. Að stríðinu loknu fór ráðuneytið í auknum mæli að sinna því alþjóðastarfi á sviði efnahags- og viðskiptamála sem smám saman var komið á fót í kjölfar styrjaldarinnar og á árunum 1948-1953 var ýmis konar umsýsla vegna Marshallaðstoðarinnar eitt höfuðverkefni viðskiptaráðuneytisins. Næstu árin voru helstu verkefni ráðuneytisins
framkvæmd viðskiptasamninga við önnur ríki. Allt fram á miðjan níunda áratuginn voru í gildi hérlendis víðtæk verðlagsákvæði og var verðlagseftirlit á verksviði ráðuneytisins. Þá sá ráðuneytið fram til ársins 1992 um niðurgreiðslur til afurðarstöðva á landbúnaðarvörum.

Á alþjóðlegum vettvangi sinnti viðskiptaráðuneytið frá því snemma á sjöunda áratugnum samstarfi við Efnahags- og þróunarstofnunina, OECD, sem og verkefnum vegna aðildar Íslands að tolla- og viðskiptasamtökunum, GATT. Þá hafði viðskiptaráðuneytið umsjón með samningaviðræðum um aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, en Ísland varð aðili að samtökunum árið 1970. Ráðuneytið tók virkan þátt í samningagerð um evrópska efnahagssvæðið og gegndi mikilvægu samræmingarhlutverki við þá samningagerð, s.s. varðandi stefnumótun um erlendar fjárfestingar á Íslandi.

Við inngöngu Íslands í EFTA, var frelsi til innflutnings aukið til muna, gjalderyisshöft voru og smám saman rýmkuð og gjaldeyrisviðskipti að öllu leyti gefin frjáls frá og með1. janúar 1994.

Eftir að frelsi í verslun og viðskiptum hefur verið aukið og leyfi af ýmsu tagi aflögð, hefur meginverkefni ráðuneytisins verið að setja almennar leikreglur á sviði viðskipta. Ýmsir mikilvægir málaflokkar falla undir verkefnasvið þess, t.d. samkeppnismál, málefni fjármagnsmarkaðarins (banka- og verðbréfaviðskipti), félagaréttar, samninga- og kauparéttur, neytendamál og málefni verslunarinnar almennt. (sjá: Helstu verkefnasvið ráðuneytisins).

 

Stoðval