Sögulegt yfirlit - Iðnaðarráðuneyti


Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið skiptist í tvö ráðuneyti hinn 1. júlí 1947 og voru þá útnefndir skrifstofustjórar fyrir bæði ráðuneytin, atvinnumálaráðuneytið og samgöngumálaráðuneytið. Var aðalmálaflokkum skipt þannig að samgöngumálaráðuneytið fékk í sinn hlut öll samgöngumál á landi, sjó og í lofti, svo og iðnaðarmál. Þótt iðnaðarmálin kæmu þannig undir ráðuneytið frá upphafi skiptingarinnar var nafn þess fyrstu árin eingöngu tengt við samgöngumálin. En þar kom þó, í líkingu við það sem tíðkast hafði um skeið í öðrum ráðuneytum, að farið var að nefna ráðuneytið
iðnaðarmálaráðuneyti og ráðherrann iðnaðarmálaráðherra þegar sérstaklega var um þann flokk mála að ræða. Um eða upp úr árinu 1956 mun svo hafa verið farið að nefna samgöngumálaráðuneytið samgöngu- og iðnaðarmálaráðuneyti.

Sumarið 1957 ákvað ráðherra, sem þá fór með iðnaðarmál, að þau bréf, reglugerðir og auglýsingar, sem frá ráðuneytinu færu, og fjölluðu um iðnaðarmál, skyldu rituð í nafni iðnaðarmálaráðuneytis. Var sá háttur hafður á til ársloka 1969 en þá voru orkumál sem heyrt höfðu undir landbúnaðarráðuneyti flutt til iðnaðarráðuneytisins. Formleg stofnun iðnaðarráðuneytisins miðast síðan við 1. janúar 1970, en þann dag öðluðust gildi lög nr. 73 28. maí 1969, um Stjórnarráð Íslands.

 





Stoðval