Ráðuneytið

Jafnréttisáætlun iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta


1.    gr.
Inngangur
Skv. 13. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og rétt kvenna og karla, eru atvinnurekendum og stéttarfélögum sett þau markmið að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.


2. gr.
Umfang
Jafnréttisáætlun þessi nær til starfsmanna iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.


3. gr.

Jafnréttisstarf
Í ráðuneytinu starfar jafnréttisfulltrúi, sem tilnefndur er af ráðuneytisstjóra Með honum starfar jafnréttisnefnd, sem skipuð er þremur starfsmönnum, auk jafnréttisfulltrúa.  Jafnréttisnefnd er skipuð  af ráðuneytisstjóra án tilnefningar  til tveggja ára í senn.

Jafnréttisfulltrúinn fjallar um og hefur eftirlit með stöðu jafnréttismála á málasviði ráðuneytisins.  Í því felst m.a. að:

1.      Vera tengiliður við Jafnréttisstofu og skila þangað árlega greinargerð um framgang jafnréttismála í ráðuneytinu.

2.      Fylgjast með að jafnréttissjónarmiða sé gætt í faglegri stefnu og starfi ráðuneytisins og undirstofnana þess og í starfsmannastefnu og framkvæmd hennar.

3.      Sækja og veita sérfræðiráðgjöf er varðar samþættingu jafnréttis- og kynjasjónarmiða.

4.      Fylgjast vel með jafnréttisumræðunni og sækja aukna þekkingu, m.a. með þátttöku í verkefnum, ráðstefnum og námskeiðum.

5.      Fá reglubundið fræðslufundi/námskeið og sérfræðihandleiðslu fyrir starfsmenn ráðuneytisins og stofnana þess.

6.      Taka þátt í samstarfi milli jafnréttisfulltrúa annarra ráðuneyta og sækja samstarfsfundi þeirra.

7.      Hafa tengsl við forstöðumenn eða jafnréttisfulltrúa stofnana sem undir ráðuneytið heyra.

 

4. gr.

Verksvið Jafnréttisnefndar.

Jafnréttisnefnd skal hafa yfirsýn yfir lög og reglur stjórnvalda um jafnréttismál kynjanna og fylgjast með breytingum á þeim. Þá skal hún fylgjast með framkvæmd jafnréttisáætlunar iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og kanna réttmæti ábendinga um að ekki sé farið að lögum eða reglum um jafnrétti í ráðuneytinu. Skal nefndin vera ráðgefandi fyrir yfirstjórn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í málefnum er varða jafnrétti. Jafnréttisfulltrúi sér um að kalla nefndina saman til fundar.


5. gr.

Stefnumörkun
Launastefna, aðbúnaður og umhverfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis skal vera hið sama fyrir konur og karla. Kynjunum skal ekki mismunað hvorki við ákvörðun launa og fríðinda né við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum og uppsagnir, né með öðrum hætti. Hlutur kynjanna í störfum í ráðuneytinu skal jafnaður eins og kostur er. Þess skal jafnan gætt að sá umsækjandi sé ráðinn sem talinn er hæfastur til þess að gegna starfi, að teknu tilliti til menntunar og hæfni en án tillits til kynferðis. Séu tveir eða fleiri umsækjendur af báðum kynjum taldir jafn hæfir til ráðningar í auglýst starf skal að jafnaði ráðinn umsækjandi af því kyni sem er í minnihluta á viðkomandi sviði.


Leitast verður við að jafna möguleika kynjanna til þess að axla ábyrgð, m.a. með setu í vinnuhópum og nefndum innan iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.

Við skipan í ráð og nefndir á vegum ráðuneytisins skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum.  Við tilnefningar í nefndir eru það vinsamleg tilmæli ráðuneytisins að óska eftir tilnefningum af báðum kynjum í samræmi við 20. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000.

Starfsmönnum af báðum kynjum skal gert kleift að sinna tímabundinni fjölskylduábyrgð sem skapast af veikindum barna, maka eða foreldra. Í því skyni skal leitast við að gefa starfsfólki iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis kost á sveigjanlegum vinnutíma eða annarri tímabundinni hagræðingu þar sem því verður við komið. Ekki skal líta á það sem mismunun að taka verður tillit til kvenna vegna barnsburðar.


Við símenntun og þróun í starfi skal þess gætt að karlar og konur njóti sömu möguleika til náms og fræðslu.

 

Ráðuneytisstjóri og skrifstofustjórar bera ábyrgð á að einstökum ákvæðum jafnréttisáætlunar sé framfylgt.

Ráðuneytisstjóri skal, eftir því sem við á,  gera starfsmönnum grein fyrir starfskjörum starfsmanna m.t.t. kynferðis. Til hliðsjónar verði jafnlaunakönnun, sem unnin skal reglulega.

 

6. gr.
Kynning og endurskoðun
Jafnréttisáætlunin skal kynnt starfsmönnum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis.

Áætlunin skal endurskoðuð reglulega.

 

16. maí 2006.

 

Valgerður Sverrisdóttir/ 

Kristján Skarphéðinsson

(sign.)

 Stoðval