Allar nefndir
Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki.
Viðræðum á milli ráðuneytisins, Neytendasamtakanna og fyrirtækja á fjármálamarkaði um endurskoðun samþykkta og samkomulags um Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, lauk með því að skrifað var undir nýjar samþykktir og samkomulag í júní 2000.
Nefndin var upphaflega sett á laggirnar 1995 en síðan bættust Samtök verðbréfafyrirtækja og Samband lánastofnana í hóp þeirra sem aðild eiga að nefndinni, auk þess sem töluverðar breytingar voru gerðar á samþykktunum. Einnig kemur Fjármálaeftirlitið að nefndinni sem vistunaraðili hennar ..
Stórt skref hefur verið stigið með þessum nýju samþykktum og er helstu nýmæli þau að nú eiga allir viðskiptamenn, einstaklingar sem lögaðilar, málsskotsrétt til nefndarinnar. Áður áttu einstaklingar einir málskotsrétt. Jafnframt varðar það viðskiptamenn fjármálafyrirtækja miklu að nú eiga öll fyrirtæki á fjármálamarkaði aðild að úrskurðarnefndinni.
Vistun nefndarinnar er hjá Fjármálaeftirliti, eins og áður segir, og er vistun beggja úrskurðarnefnda á fjármálamarkaði nú á sömu hendi, en stofnunin vistar einnig úrskurðarnefnd í vátryggingamálum. Mikilvægt er fyrir Fjármálaeftirlitið að vera í beinum tengslum við viðskiptamenn eftirlitsskyldra aðila og fá þannig frá fyrstu hendi upplýsingar um það sem kann að vera ábótavant í rekstri viðkomandi fjármálafyrirtækja.
Nefndin úrskurðar einnig um ágreining sem kann að rísa og varðar yfirfærslur fjármuna á milli viðskiptareikninga á milli landa í samræmi við ákvæði laga um gjaldeyrismál.
Hinn 7. júlí 2000 skipaði viðskiptaráðherra Guðjón Ó. Jónsson, hdl, formann nefndarinnar. Varamaður hans var skipuð Ragnheiður Bragadóttir, héraðsdómari. Skipanir þessar gilda þangað til annað verður tilkynnt.
Um úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins