Samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 20/2001Með undirritun samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga er vonast til að takast megi að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda. Að samkomulaginu standa Samtök banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda.

Samkomulag þetta byggir á samkomulagi sem gert var um sama efni árið 1998, en kveðið var á um endurskoðun á því með reglulegu millibili. Meginbreytingin sem gerð er nú er upplýsingagjöf til ábyrgðarmanna eftir að til skuldaábyrgðar eða veðsetningar er stofnað.

Samkomulagið tekur til allra skuldaábyrgða, þ.e. sjálfskuldarábyrgða og einfaldra ábyrgða, á skuldabréfalánum, víxlum og öðrum skuldaskjölum, á yfirdráttarheimildum á tékkareikningum og á úttektum með kreditkortum nema annað sé tekið fram í einstökum ákvæðum þess. Einnig tekur samkomulagið til þess er einstaklingur hefur gefið út leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings.

Fjármálafyrirtækjum ber að gefa út upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar. Í bæklingunum komi m.a. fram hvaða skyldur felast í ábyrgðinni, heimild ábyrgðarmanns til að segja ábyrgðinni upp, heimild hans til að óska eftir að greiðslumat verði ekki framkvæmt og heimild hans til að bera ágreiningsmál vegna ábyrgðarinnar undir Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki náist ekki sátt milli hans og fjármálafyrirtækisins. Ábyrgðarmaður skal geta kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgð og skal greiðandi hafa samþykkt það. Samkvæmt samkomulaginu er skylda til greiðslumats gerð afdráttarlausari. Í eldra samkomulagi fór greiðslumat einungis fram ef ábyrgðarmaður óskaði þess en samkvæmt nýja samkomulaginu fer greiðslumat ávallt fram nema ábyrgðarmaður óski þess sérstaklega að það fari ekki fram.

Eins og áður segir felst meginbreytingin frá fyrra samkomulagi í því að nú skal tilkynna ábyrgðarmanni um hver áramót hvaða kröfum hann er í ábyrgð fyrir, hverjar eftirstöðvar eru, hvort þær eru í vanskilum og þá hversu miklum. Samkvæmt samkomulaginu ber fjármálafyrirtæki að tilkynna ábyrgðarmanni, helst innan 30 daga frá greiðslufalli, um vanskil á skuldbindingu sem hann er í ábyrgð fyrir. Óheimilt er að breyta skilmálum láns sem tryggt er með skuldaábyrgð eða veði nema með samþykki ábyrgðarmanns.

Einstaklingur sem er í ábyrgð fyrir yfirdráttarláni eða kreditkorti er heimilt að segja upp ábyrgð sinni og skal það gert skriflega. Miðast þá ábyrgð hans við stöðu skuldara við lok uppsagnardags, sem skal þá ekki vera hærri en hámarksfjárhæð ábyrgðar.
Reykjavík, 1. nóvember 2001.

Samkomulag

 

Stoðval