Greinargerð verkefnastjórnar um eflingu vitundar um einkaleyfi

Janúar 2002


Hér má einnig nálgast greinargerðina sem word-skjal:

  • Greinargerð verkefnastjórnar um einkaleyfi

Inngangur

Árið 1998 skipaði Iðnaðarráðherra nefnd er skyldi fjalla um á hvern hátt Íslendingar gætu hagnýtt sér alþjóðlegt verndarkerfi hugverka, sérstaklega varðandi einkaleyfi.

Nefndina skipuðu Gunnar Örn Harðarson, sérfræðingur hjá A&P Einkaleyfum ehf., formaður, Dr. Aðalsteinn Emilsson, deildarstjóri hjá Einkaleyfastofunni, ritari, Grímur Kjartansson, verkfræðingur hjá Rannsóknaþjónustu Háskólans, Ólafur Örn Ingólfsson, forstöðumaður hjá Landsbanka Íslands og Dr. Sveinbjörn Gizurarson, dósent við Háskóla Íslands. Nefndin skilaði áliti sínu í júní 1999.


Í kjölfar álits nefndarinnar skipaði Iðnaðarráðherra verkefnisstjórn um eflingu vitundar um einkaleyfi. Verkefnastjórnina skipa Ásta Valdimarsdóttir, lögfræðingur, Baldur Hjaltason, efnafræðingur og Gunnar Örn Harðarson, sérfræðingur hjá A&P Einkaleyfum ehf. Nefndin naut krafta Bjarna Stefáns Konráðssonar, starfsmanns Einkaleyfastofunnar, frá febrúar til júní árið 2000 og vann hann að kynningu og upplýsingasöfnun fyrir nefndina.


Hlutverk verkefnastjórnarinnar var að skilgreina, m.t.t. megintillagna í nefndarálitinu, hvaða aðgerðir væru líklegar til að auka þekkingu og skilning atvinnulífsins á efnahagslegu gildi einkaleyfa og annarra hugverkaréttinda. Þá var verkefnastjórninni falið að gera framkvæmdaáætlun og að leggja meginlínur varðandi störf verkefnisstjóra, svo og að skapa samstöðu um einstaka þætti verkefnisins meðal hagsmunaaðila.

Eftirfarandi er greinargerð er fjallar um þær aðgerðir sem verkefnastjórnin hefur staðið fyrir til að koma hlutverki sínu í framkvæmd.


Lagabreytingar

Lagabreytingar á sviði hugverkaréttar hafa verið örar á síðustu árum. Þar sem um mjög alþjóðlegt umhverfi er að ræða eru flestar lagabreytingar tilkomnar vegna alþjóðasamninga. Ísland hefur fylgt öðrum þjóðum eftir í því að aðlaga löggjöfina að þessum samningum og oft notið góðs af samstarfi við önnur Norðurlönd í þeirri vinnu. Ekki er ástæða til að ætla að breyting verði hér á.

I.
Í greinargerð nefndar iðnaðar – og viðskiptaráðuneytisins er m.a. lagt til að sett verði lög um réttarstöðu uppfinningamanna sem starfa í þjónustu annarra.

Starfsnefndin fundaði með ýmsum aðilum til að kanna stöðu mála á sviði einkaleyfa og til að kanna hvort vilji væri til einhvers konar samvinnu við að aðstoða uppfinningamenn við að koma hugmyndum sínum á framfæri. Á fund starfsnefndarinnar komu forstöðumenn rannsóknarstofnana, fulltrúar frá Háskóla Íslands, fulltrúar frá sjávarútvegs-, iðnaðar-, landbúnaðar- og menntamálaráðuneyti og aðilar frá Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins.

Á þessum fundum var einnig leitað eftir áliti manna á löggjöf um rétt starfsmanna til uppfinninga, hvort þörf væri á slíkum lögum og þá í hvaða formi. Flestir þeirra sem leitað var álits hjá voru á þeirri skoðun að þörf væri á skýrum reglum varðandi rétt launþega og vinnuveitenda til uppfinninga.

Í kjölfar þessara umræðna skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra starfshóp til að kanna þörf á slíkri löggjöf hér á landi. Starfshópinn skipuðu þeir Jón Ögmundur Þormóðsson, skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum, Stefán Baldursson skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu og Árni Vilhjálmsson, hrl.

Í september 2001 skilaði starfshópurinn skýrslu til ráðherra. Í skýrslunni er lagt til að skipuð verði fjölmennari nefnd til að vinna að frumvarpi að lögum um rétt starfsmanna til uppfinninga.

II.
Í fyrrgreindri greinargerð nefndar iðnaðar – og viðskiptaráðuneytisins er einnig lagt til að ákvæði 1. gr. einkaleyfalaga verði endurskoðuð til að skýra frekar hvaða uppfinningar teljist einkaleyfishæfar. Lagt er til að sérstaklega verði litið til upplýsingatækni og lífvísinda og fylgst með þeirri þróun sem á sér stað meðal helstu samkeppnisþjóða Íslendinga.

Ljóst er að þær breytingar sem helst eru til umræðu núna, snerta einkaleyfi á tölvuforritum, viðskiptaaðferðum og uppfinningum á sviði líftækni. Umræðan um þessi mál á sér stað um allan heim. Í þessum málum sem öðrum er mikilvægt að Ísland fylgi þróun mála og gerðar verði þær breytingar sem nauðsynlegar eru hvort sem er á lögum og reglum eða framkvæmd.

Á sviði líftækni snúast hugsanlegar breytingar á löggjöf aðallega um tilskipun ESB um vernd uppfinninga á sviði líftækni( 98/44/EC) og hvort sú tilskipun verði hluti af EES samningnum. Nokkrar deilur hafa staðið um þessa tilskipun og m.a. höfðuðu Hollendingar mál vegna hennar. Dómur í því máli gekk nú í október 2001.

Niðurstaðan varð ESB í vil og er nú ljóst að öllum aðildarríkjum ESB er skylt að lögleiða tilskipunina. Meðal annars vegna þessara málaferla hefur ekki enn verið tekin ákvörðun innan EFTA um hvort tilskipunin geti orðið hluti af EES samningnum. Nú er hinsvegar nokkuð ljóst að svo verði og í kjölfarið mun lögum hér verða breytt til samræmis við tilskipunina.

Hvað varðar einkaleyfi á tölvuforritum og viðskiptaaðferðum er einkum mikilvægt að litið verði til framkvæmdar í nágrannaríkjum og niðurstaðna dómstóla. Mikil þróun hefur átt sér stað í mati á einkaleyfishæfi á þessu sviði og er mikilvægt að Ísland fylgi þeirri þróun til að hefta ekki möguleika á slíkri vernd hér á landi. Jafnframt er mikilvægt að fræðsla um þessi svið verði aukin til muna. Svo virðist sem margir séu á þeirri skoðun að uppfinningar á þessu sviði sé ekki unnt að vernda á nokkurn hátt. Úr því má bæta með fræðslu á þessu sviði.


III.
Þá er í greinargerðinni lagt til að kannað verði hvort ástæða sé til að setja lög um smáeinkaleyfi.

Innan ESB er í vinnslu tilskipun um smáeinkaleyfi. Nokkrar tafir hafa verið á málinu vegna ágreinings, en nú í haust hefur skriður komist á málið á ný. EFTA ríkin hafa verið jákvæð í garð slíkra laga og mun væntanleg tilskipun ESB líklega verða hluti af EES samningnum.

Starfsnefndin telur rétt að bíða með að setja slíka löggjöf uns ESB tilskipunin er tilbúin svo að um samræmda löggjöf verði að ræða.

Einkaleyfastofan
Fjallað var sérstaklega um verkefni Einkaleyfastofunnar og framtíðarhorfur í rekstri hennar.


I.
Lagt er til í greinargerð nefndar iðnaðar – og viðskiptaráðuneytisins að hugað verði að framtíðarhlutverki stofnunarinnar þar sem tekið verði mið af þeirri þróun sem á sér stað og horft til þess hvernig stofnunin geti sem best þjónað íslensku atvinnulífi, sérstaklega með tilliti til fræðslu og miðlunar upplýsinga.

Á síðastliðnu ári var tekin í notkun ný og betri heimasíða fyrir stofnunina. Á síðunni er að finna ýmsar upplýsingar og leiðbeiningar. Meðal annars er unnt að prenta út umsóknareyðublöð og hægt er að leita að tilteknum vörumerkjum í Vörumerkjaskrá. Þar sem þessi miðill er svo mikilvægur í miðlun upplýsinga er brýnt að Einkaleyfastofan færi inn á síðuna sem mestar upplýsingar.

Til að reyna að auka fræðslu á þessu sviði voru atvinnuþróunarfélögum á landsbyggðinni send bréf þar sem kynnt var starfsemi stofnunarinnar. Jafnframt bauðst stofnunin til að koma á fundum eða námskeiðum um hugverkaréttindi og sendi bæklinga til kynningar á starfseminni. Ekki hafa enn komið fram óskir um kynningarfundi eða námskeið.

Starfsnefndin telur mikilvægt að hugað verði enn frekar að hlutverki Einkaleyfastofunnar. Einkaleyfastofan er hvött til að marka skýra áætlun um hvernig hún muni sinna upplýsingar- og fræðsluhlutverki sínu í framtíðinni.


II.
Í greinargerðinni er lagt til að skoðað verði samstarf Einkaleyfastofunnar við Evrópsku einkaleyfastofnunina (EPO) og könnuð verði aðild að Evrópueinkaleyfakerfinu.

Lítil umræða hefur farið fram um aðild Íslands að EPO. Efnið var þó aðeins til umfjöllunar í júní sl. á ráðstefnunni "Hvert stefnir" sem Einkaleyfastofan stóð fyrir. Meðal fyrirlesara var Mogens Kring forstjóri dönsku einkaleyfastofnunarinnar sem ræddi umtalsvert um EPO í erindi sínu.

Á fyrri hluta þessa árs lagði Einkaleyfastofan til við iðnaðarráðuneytið að sett yrði á laggirnar nefnd til að kanna stöðu einkaleyfamála hér á landi og sérstaklega yrði könnuð hugsanleg aðild að EPO.

Í júní sl. skipaði iðnaðarráðuneytið nefnd til að meta stöðu einkaleyfamála hér á landi með hliðsjón af alþjóðlegri og svæðisbundinni þróun á síðustu árum. Sérstaklega var tiltekið að kanna þyrfti möguleika og áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að EPO.
Nefndin er enn að störfum.

Evrópueinkaleyfakerfið sem á að gera aðilum kleift að fá eitt samræmt einkaleyfi fyrir öll aðildarríki ESB er enn í mótun. Nú sér þó loks fyrir endann á þeirri vinnu og er ljóst að EPO verður nýtt sem framkvæmdaraðili í því kerfi. Einnig er nokkuð ljóst að ágreiningsmál muni heyra undir einn sameiginlegan dómstól. Ljóst er að m.a. vegna þessa fyrirkomulags um dómstóla er ekki auðséð hvernig EES ríki geti verið þáttakandi í því kerfi. Slíkt framsal á ákvörðunarvaldi og dómsvaldi gæti vart samræmst stjórnarskrá.

III.
Loks var í greinargerðinni lagt til, að Einkaleyfastofan beitti sér fyrir aukinni fræðslu um hugverkavernd.

Ýmsum menntastofnunum voru sendar upplýsingar um Einkaleyfastofuna og lagt til að hugverkaréttindi væru með einum eða öðrum hætti tekin inn í kennslu.
Í kjölfarið óskaði Tækniskóli Íslands efir kynningu á einkaleyfakerfinu fyrir nemendur í iðnhönnun. Hafa tveir hópar komið í heimsókn á Einkaleyfastofuna í þeim tilgangi. Nánar er fjallað um þetta efni í þeim kafla er varðar fræðslumál.


Fræðsla

Eitt af megin verkefnum nefndarinnar var að boða til funda með þeim aðilum sem fjalla með einum eða öðrum hætti um einkaleyfi. Tilgangur fundanna var sá að gefa yfirsýn yfir þá vinnu sem fram fer á þessu sviði og miðla síðan þeim upplýsingum til viðkomandi.

I.
Fundnir voru haldnir m.a. með:

· Forstöðumönnum Rannsóknastofnunar Landbúnaðarins
Rannsóknastofnun Fiskiðnaðarins
Iðntæknistofnun
Rannsóknastofnun Byggingariðnaðarins

· Fulltrúum frá Sjávarútvegsráðuneytinu
Landbúnaðarráðuneytinu
Menntamálaráðuneytinu
Iðnaðar- og Viðskiptaráðuneytinu

· Fulltrúum frá Háskóla Íslands
Rannsóknarráði Íslands

· Fulltrúum frá Samtökum Atvinnulífsins
Samtökum Iðnaðarins
Nýsköpunarsjóði

Í ljós kom að margir þessara aðila voru að vinna markvisst að stefnumörkun
í hugverkaréttindum ásamt fleiri þáttum tengdum einkaleyfum en vissu hins
vegar mjög takmarkað um hvað aðrir voru að gera. Þessi fundahöld hafa leitt til þess að ósk hefur komið fram um að stofnaður verði samstarfsvettangur þar sem áðurgreindir aðilar gætu hist einu sinni eða tvisvar á ári og borið saman bækur sínar.

Mælst er til þess að Einkaleyfastofan taki að sér að boða til þessara funda ásamt umsjón þeirra.


II.
Nefndin stóð fyrir Ráðstefnu á Grand Hotel, 24. maí árið 2000 sem bar heitið
"Hugvit til Fjár – Stefnumörkun í hugverkaréttindum". (Sjá fylgiskjal 4) Ráðstefnan var haldin í samvinnu við Rannís, Einkaleyfastofuna, Samtök Iðnaðarins, Háskóla Íslands, Iðntæknistofnun, Rannsóknastofnun Byggingariðnaðarins, Samtök Atvinnulífsins, Menntamálaráðuneytið, SVESI og Iðnaðar -og Viðskiparáðuneytið og kynntu þessir aðilar vinnu sína á sviði einkaleyfa.

Þar flutti Svend Valentin, forstjóri NOVI, erindi sem fjallaði um markaðssetningu á uppfinningum ásamt reynslu Dana af nýrri löggöf um uppfinningar háskólamanna.


III.
Nefndin sendi einnig bréf til:

· Skóla þar sem leitað var eftir samvinnu og boðið upp á aðstoð við námskeið eða kynningar.

· Atvinnufulltrúa um allt land þar sem kynnt var starfsemi Einkaleyfastofunnar.

· Rannsókna- og þróunarsjóða, styrktaraðila og áhættufjármögnunarsjóða og til þess mælst að þeir taki fram í ársreikningum sínum eða birti á annan áberandi hátt upplýsingar um það hve mörg verkefni tengd einkaleyfum hafi fengið stuðning eða hafa leytt til einkaleyfis.

Þá beindi nefndin tilmælum til fyrirtækja sem notast mikið við erlenda sérfræðinga á sviði einkaleyfa að þeir stuðli að stuttum fundum um þessi mál, með þessum erlendu gestum, t.d. undir merkjum SVESI.


IV.
Námskeiðahald við HÍ - Endurmenntun

Send voru bréf til æðri menntastofnana ásamt Endurmenntunarstofnun Háskóla
Íslands, þar sem hvatt var til að fræðsla um hugverkavernd verði hluti af náminu.Rannsókna- og Menntastofnanir

Meðan nefndin var að störfum skipaði Háskólarektor nefnd til að koma m.a. fram með tillögur um hvernig fara eigi með eignarrétt starfsmanna á hugverkum og einkaleyfum. Nefndin hélt fund með þessum aðilum og bauð fram aðstoð sína.
Niðurstöður nefndar háskólarektors hafa verið kynntar fyrir Háskólaráði, en í henni felst meðal annars hvatakerfi þar sem starfsmenn fá hlutdeild í þeim hagnaði sem skapast af framsali nýtingarréttar hugverka sem þeir hafa tekið þátt í að þróa.

Rætt var við forstöðumenn Rannsóknastofnunar Landbúnaðarins, Rannsóknastofnunar Fiskiðnaðarins, Iðntæknistofnunar , Rannsóknastofnunar Byggingariðnaðarins ásamt framkvæmdastjóra Rannís.

Í ljós kom að þessir aðilar eru komnir mismunandi langt í mótun vinnureglna um hvernig eigi að fara með þau hugverk sem verða til innan stofnana hjá þeirra starfsmönnum.

Iðntæknistofnun hefur þegar gert samning við sína starfsmenn um nýtingu hugverka þeirra og hvaða umbun þeir muni fá. Einnig kom í ljós að með aukinni sókn í Evrópska sjóði er nauðsynlegt að móta skýrari stefnu hver á hvað í alþjóðlegu samstarfi varðandi einkaleyfi sem koma út úr slíkri samvinnu.

Var Rannís hvatt til þess að halda utan um þessi mál og samræma þennan málaflokk meðal stofnananna.


Hagnýting einkaleyfa

Í skýrslu fyrri nefndar iðnaðarráðherra um einkaleyfi frá í júní 1999 var fjallað nokkuð um hagnýtingu einkaleyfa. Þar voru tilgreindar tvær meginástæður fyrir því hversu lítið hefur verið hugað að hugverkavernd hér á landi og þá sérstaklega vernd með einkaleyfum. Í fyrsta lagi var tilgreint að erfitt hafi verið að fá fjárhagslegan stuðning við að sækja um einkaleyfi. Önnur ástæða var tilgreind sem skortur á stefnumörkun m.t.t. markaðsetningar einkaleyfa sem aflað hefur verið með opinberu stuðningsfé. Settar voru fram ákveðnar tillögur í skýrslunni. Vísað var sérstaklega til leiða sem farnar höfðu verið í Danmörku og í Bandaríkjunum.

Nefndin hélt fundi með fulltrúum ýmissa hagsmunaðila og viðraði þar hugmyndir sínar, en ekki síður hlustuðu nefndarmenn eftir nýjum hugmyndum. Hlutaðeigandi aðilar voru jákvæðir og lýstu ánægju sinni með þetta frumkvæði nefndarinnar og er það ljóst að vilji til samstarfs er fyrir hendi. Þörfin er til staðar og því þarf að leiða hlutaðeigandi aðila saman.

Til fundar við nefndina komu fulltrúar samtaka atvinnulífs, rannsóknastofnana atvinnuveganna, Háskóla Íslands, ráðuneyta menntamála og iðnaðar.

Á grundvelli viðræðna við þessa aðila varð til sú hugmynd að halda ráðstefnu eins og áður hefur komið fram. Ráðstefnan "Hugvit til fjár" var haldin í maí 2000 en að ráðstefnunni stóð breiður hópur hagsmunaaðila. Ráðstefnan tókst í alla staði vel og sótti hana u.þ.b. 100 manns.

Á ráðstefnunni var m.a. kynnt hugmynd um stofnun sérstaks félags eða fyrirtækis sem hefði það að markmiði að fjölga umsóknum um einkaleyfi á Íslandi og um leið tryggja aukinn fjárhagslegan ávinning af einkaleyfum. Nefndin hefur beitt sér fyrir stofnun þessa félags í samstarfi við nokkra áhuga- og hagsmunaaðila. Undir forystu Rannsóknarþjónustu Háskóla Íslands hefur síðan verið unnið að framgangi þessa máls og hafa Rannís, Samtök Iðnaðarins, Samtök Atvinnulífsins, Einkaleyfastofan og Nýsköpunarsjóður komið að stofnun félagsins. Háskóli Íslands hefur verið að skoða þessi mál sérstaklega innan sinna raða.

Nú liggur fyrir tillaga að stofnun félagsins. Þar með má segja að megin tillögum nefndarinnar og í raun aðal áhersluatriði hennar hafi verið hrundið í framkvæmd að svo miklu leyti sem nefndin hefur tök á að hafa áhrif á. Er málið nú komið í þann farveg að nefndin telur ekki ástæðu til að hafa frekari afskipti af framgangi þess.

Hvað varðar tillögu fyrri nefndar um leiðir eða aðgerðir til skattalegra ívilnana þá hefur ekki verið fjallað um slíkt í starfi þessarar nefndar. Þó má nefna að nefndinni er kunnugt um að Rannís hefur haft til umfjöllunar málefni sem tengjast þessu efni.


Mælikvarðar

Nefndin hefur nokkuð fjallað um mælikvarða, sbr. tillögu í áður tilvitnaðri skýrslu. Megin tilgangur slíkra mælikvarða er að fylgjast með framvindu verndunar hugverka og nýtingu þeirra. Einkaleyfastofan birtir nú árlega samantekt yfir fjölda umsókna sem lagðar eru inn hjá stofnuninni. Upplýsingar um fjölda og efni einkaleyfisumsókna og útgefinna einkaleyfa Íslendinga erlendis eru nú að verulegu leyti aðgengilegar t.d. á netinu.

Nefndin beinir þeim tilmælum til Einkaleyfastofunnar og Rannís að þessar stofnanir birti árlega sérstaka samantekt um umsóknir Íslendinga um einkaleyfi, bæði hér á landi og erlendis. Í slíkri samantekt gætu komið fram þær sömu upplýsingar sem birtar eru í auglýsingum í ELS tíðindum, e.t.v. að viðbættu ágripi þar sem tæknilegum þáttum er lýst. Með tiltölulega einföldum aðgerðum sem skv. upplýsingum nefndarinnar er nú þegar hafinn undirbúningur að, má setja fram skýrar og samanburðarhæfar upplýsingar um frammistöðu sem nýta má við alþjóðlegan samanburð.

Almennt má segja að fjármálastofnanir og stuðningsaðilar hafi að undanförnu tekið til umfjöllunar mikilvægi hugverkaréttinda og þá einkum einkaleyfa og gert grein fyrir aðkomu að slíkum verkefnum. Það er þess vegna mat nefndarinnar að í vissum tilfellum þá hafi tillögur fyrri nefndarinnar náð fram að ganga. Þó má segja að enn sé nokkuð í land varðandi þetta atriði. Það er þó niðurstaða okkar, að nái aðrar tillögur nefndarinnar fram að ganga, þá fylgi framkvæmd þeirra aðgerða sem á vantar í kjölfarið án þess að til þurfi að koma sérstakar aðgerðir.


Lokaorð

Þegar verkefnastjórn um eflingu vitundar um einkaleyfi fór að ræða við þá aðila sem þetta málefni varðar, kom í ljós að margir voru að vinna að framgangi þessa máls en hver í sínu horni. Því einbeitti verkefnastjórnin sér að því í upphafi að leiða þessa hópa saman og reyna að samhæfa vinnu þeirra. Þegar vinnu verkefnastjórnar lauk lýstu flestir þessara aðila áhuga á því að vinna áfram saman og mynda samstarfsvettvang.

Annar stór áfangi í starfi verkefnastjórnar var að ýta úr vör vinnu sem á að leiða til þess að stofnað verði fyrirtæki eða sjálfseignarstofnun hagsmunaaðila, sem taki að sér að meta einkaleyfahæfni verkefna, fjármagna þau og ef til vill líka koma þeim í verðmæti. Framhald þessa verkefnis verður í höndum hagsmunaðila.

Ef til vill gefur eftirfarandi tafla besta yfirlitið yfir stöðu mála.
Sjá einnig meðfylgjandi gögn um stöðu einkaleyfisumsókna/-veitinga hér á landi.

Ár
IS
PCT/IS
WO-PCT
EP
US
frumums.
umsóknir
britingar
Umsóknir
einkaleyfi
1990
17
-
-
3
1
1991
34
-
-
2
0
1992
28
-
-
3
3
1993
34
-
-
6
3
1994
22
-
-
2
0
1995
19
1
-
1
2
1996
16
5
-
0
1
1997
23
6
8
1
2
1998
45
10
15
8
2
1999
45
14
16
12
10
2000
51
14
16
9
8
2001
52
25
40
10
12*2001 áætlaðar tölur miðað við stöðu í nóvember.

IS frumumsóknir eru umsóknir sem lagðar eru inn á Íslandi af íslenskum umsækjendum.

IS-PCT umsóknir eru alþjóðlegar PCT umsóknir sem lagðar eru inn á Íslandi þar sem umsækjandi er íslenskur.

EP umsóknir eru umsóknir sem lagðar hafa verið inn hjá EPO og umsækjandi er íslenskur aðili

US einkaleyfi eru einkaleyfi gefin út í nafni íslenskra umsækjandaHér sést að það sem af er árinu 2001 hefur orðið aukning í öllum flokkum einkaleyfisumsókna. Athyglisvert er að mikil aukning hefur verið í alþjóðlegum PCT umsóknum sem lagðar hafa verið inn á Íslandi þar sem umsækjandi er jafnframt íslenskur, jafnt sem í fjölda þeirra umsókna sem birtar hafa verið, þar sem umsækjandi er íslenskur aðili. Þessi aukni fjöldi umsókna sem tengist Íslendingum bendir til þess að verkefnastjórnin hafi amk. að einhverju marki náð því markmiði sínu að efla vitund manna um einkaleyfi.

Einkaleyfisumsóknir 1995-2001


Einkaleyfisumsóknir 2000

Einkaleyfisumsóknir 2000


 

Stoðval