Ráðstefna um mat á þekkingarverðmætum, 07.12.00 -

7/12/00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp
á ráðstefnu um mat á þekkingarverðmætum
á Grand Hotel
fimmtudaginn 7. desember 2000Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

Við munum það öll (!) - enda er ekki langt síðan að veð í fasteign var algjör forsenda þess að peningaleg fyrirgreiðsla fengist á fjármagnsmarkaði. Reyndar var fjármagnsmarkaðurinn, til skamms tíma, lítið annað en hefðbundnar bankastofnanir. Áhættufjárfestar voru teljandi á fingrum annarar handar. Fjármagnsmarkaðurinn einkenndist af viðtekinni íhaldssemi og "óáþreifanlegar eignir" voru aðeins til í orði en höfðu enga raunverulega þýðingu - enda mannauðurinn ekki til sem mælanleg stærð.

Þetta hefur blessunarlega breyst á seinustu árum. - Vegna stórstígra framfara í vísindum almennt, en einkum í upplýsinga- og fjarskiptatækni hefur þjóðfélagið gjörbreyst á undraskömmum tíma. Atvinnu- og efnahagslíf, - menntun og menning og - allir aðrir þættir samfélagsins hafa tekið stakkaskiptum vegna nýrrar vísindalegrar þekkingar með þeim afleiðingum að steinsteypan, sem áður var veigamesta verðmætið, skipar nú mun lægri sess en áður. Hinar óáþreifanlegu eignir hafa aftur á móti skapað sér sjálfstæðan sess - enda er vægi þekkingarinnar orðið slíkt að þegar rætt er um stöðu samfélagsins er oft vísað til þess sem "upplýsingasamfélags", þ.e. samfélags sem öðru fremur byggir á öflun og miðlun hverskyns upplýsinga og þekkingar.

Það getur varla dulist nokkrum lengur að samkeppnisstaða Íslands mun í framtíðinni fyrst og fremst háð hagnýtingu þekkingar. Verðmæti mannauðs, þ.e. menntun, færni og reynsla eru sennilega veigamest, en innri gerð fyrirækja eins og stjórnunarhættir og verkferlar eru einnig veigamikil atriði auk viðskiptavildar og tengsla. Þessi þekkingarverðmæti eru hinar óáþreifanlegu eignir sem þekkingariðnaðurinn mun byggjast á.

Það má einnig sjá fyrir, að hinn hefðbundni framleiðsluiðnaður mun ekki geta staðið undir þeim lífskjarabótum sem við óskum okkur. Hann mun ekki til langframa geta skapað þau nýju störf sem við kærum okkur um að sinna - né heldur greitt þau laun sem við gerum kröfu til. Þekkingariðnaðurinn er aftur á móti burðarás hins nýja hagkerfis og mæling og skráning á þekkingarverðmætum er ein af grundvallar forsendum þróunar hans.

Ágætu fundarmenn.
Ég kynntist Nordika verkefninu síðastliðið sumar þegar það var til umræðu á norrænum vettvangi. Norrænu þjóðirnar hafa komið auga á einstakt tækifæri til að skapa sér samkeppnisforskot með því að vera leiðandi í mati og skráningu þekkingarverðmæta. Fyrirtæki sem geta teflt fram þessari óáþreifanlegu eign standa einfaldlega betur að vígi en aðrir gagnvart fjárfestum, lánardrottnum og viðskiptavinum, en inn á við einnig - gagnvart starfsfólki sínu. Norðurlöndin hafa tekið vissa forustu á þessu sviði og er Nordika verkefnið gott dæmi um vel heppnað samstarfsverkefni þessara frændþjóða.

Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vera virkir þátttakendur í verkefninu. Við viljum í engu skapa okkur lakari efnahagslega- og félagslega stöðu en býðst og mun bjóðast á hinum Norðurlöndunum. Við viljum einnig verða virkir þáttakendur í hinu nýja hagkerfi og bæta stöðu okkar á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Mat og skráning þekkingarverðmæta fyrirtækja er þó aðeins fyrsta skrefið - aðalatriðið fylgir í kjölfarið en það er - stjórnun þekkingarinnar.

Ég fagna því að þessi mál hafa komist á skrið hér á landi og vil nota tækifærið hér og nú að óska aðstandendum Nordika verkefnisins góðs árangurs í þessu mikilvæga máli og ykkur öllum velfarnaðar í störfum ykkar hér í dag.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval