Ráðstefna Félags löggiltra endurskoðenda,10.11.00 -

20/11/00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við opnun ráðstefnu Félags löggiltra endurskoðenda,
föstudaginn 10. nóvember 2000.
(flutt af ráðuneytisstjóra).

I.
Ágætu ráðstefnugestir. Ég vil byrja á því að flytja ykkur góðar kveðjur viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, sem þurfti að leggja land undir fót og getur því ekki opnað ráðstefnuna hér í dag. Ég mun því flytja ávarp ráðherra í hennar stað.
Öflugur fjármagnsmarkaður hefur vaxið hér á landi á mun skemmri tíma en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Fyrir áratug síðan var Verðbréfaþing nánast nafnið eitt og löggjöf um fjármagnsmarkaðinn ófullkomin. Viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði voru lítil og þá aðallega með skuldabréf gefin út eða með ábyrgð ríkisins. Samkeppni á milli fjármálafyrirtækja var líka minni en hún er í dag. Þótt vel hafi tekist til með þróun fjármagnsmarkaðarins eigum við ennþá langt í land á ýmsum sviðum markaðarins en á öðrum sviðum stöndumst við fyllilega samkeppni.
Þróunin á vestrænum bankamarkaði hefur verið geysilega hröð á þessum áratug. Aukin samkeppni, alþjóðavæðing, opnun hólfa á milli einstakra tegunda fjármálafyrirtækja, lægri vaxtamunur og aukið framboð af nýrri þjónustu hefur verið einkennandi fyrir markaðinn. Ekkert lát virðist vera á þessari þróun. Bankar búa sig undir enn harðnandi samkeppni með samrunum. Ástæður samrunabylgjunnar má ekki hvað síst rekja til tækniþróunar og alþjóðavæðingar. Til að bankar standist samkeppni við nýja keppinauta er nauðsynlegt að leggja í mikinn kostnað við innleiðingu upplýsingakerfa. Einnig hefur staðbundin vernd banka minnkað. Sú vernd mun hverfa eftir því sem viðskiptavinir læra að nýta sér upplýsingar og samanburð á Netinu. Sá banki sem ekki getur boðið kjör sem standast alþjóðlegan samanburð verður á endanum undir í samkeppninni.
Íslendingar þurfa að átta sig á þessum staðreyndum. Samanburður við kennitölur erlendra banka er íslenskum bönkum að flestu leyti óhagstæður. Vaxtamunur er meiri hér á landi en í löndunum í kringum okkur þó reyndar hafi gengið vel að minnka vaxtamun á síðustu misserum. Kostnaður sem hlutfall af tekjum er sömuleiðis hærri en í samkeppnisríkjum. Við Íslendingar hljótum að vilja eiga öfluga banka sem geta staðist samkeppni við erlenda keppinauta í hinu gerbreytta alþjóðlega landslagi á fjármagnsmarkaði.
II.
Góðir ráðstefnugestir. Á svo ungum markaði sem hinum íslenska er ekki óeðlilegt að upp komi ýmis siðferðileg álitamál sem krefjast almennrar umræðu, svo sem hér hefur ítrekað gerst á undanförnum misserum. Umræðan er þroskandi og gagnleg, enda erum við öll enn að læra. Eitt af meginumfjöllunarefnum ráðstefnunnar hér í dag eru innherjaviðskipti en umræða um ólögleg innherjaviðskipti hefur einmitt verið mjög til umfjöllunar síðustu misserin. Ég vil því nota tækifærið og greina hér frá þeim breytingum sem lagðar eru til á innherjaákvæðum verðbréfaviðskiptalaga í frumvarpi því sem viðskiptaráðherra hefur lagt fram á Alþingi.
Markmiðið með þessum breytingum er að auka aðhald með innherjum og kröfur til þeirra um að þeir gæti öðrum fremur að stöðu sinni í verðbréfaviðskiptum hverju sinni. Jafnframt má ætla að breytingarnar séu til þess fallnar að auka traust á fjármálamarkaði og trúverðugleika markaðarins almennt.
Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér varðandi innherjaviðskipti eru:
1. Að hugtakið innherji er nú skilgreint sérstaklega í lögunum og greint á milli einstakra flokka innherja (fruminnherja og annarra innherja) sem ekki hefur verið gert í lögum fram að þessu.
2. Gert er ráð fyrir að ákvæði laganna um innherjaviðskipti taki einungis til viðskipta með skráð verðbréf.
3. Gert er ráð fyrir að kauphöll eða skipulegur tilboðsmarkaður skuli birta opinberlega með viðurkenndum hætti upplýsingar um viðskipti fruminnherja sem eru tilkynningarskyld, enda uppfylli viðskiptin ákveðin skilyrði.
4. Gert er ráð fyrir sérstakri rannsóknarskyldu innherja í tengslum við viðskipti með verðbréf. Þannig skulu fruminnherjar forðast að eiga viðskipti með verðbréf félagsins á tímabilum þegar ætla má að fyrir liggi trúnaðarupplýsingar hjá útgefanda, t.d. skömmu fyrir birtingu ársreiknings, milliuppgjörs eða mikilvægra ákvarðana eða atvika sem varða útgefanda verðbréfanna.
5. Komið verður á fót sérstakri innherjaskrá og verða upplýsingar úr henni opinberar að ákveðnu leyti. Fjármálaeftirlitið skal halda skrá yfir fruminnherja og aðra innherja sem vegna starfs síns, stöðu eða skyldna hafa tímabundinn aðgang að trúnaðarupplýsingum.
6. Í sjötta lagi er kveðið á um að stjórn félags, sem skráð er á skipulegum verðbréfamarkaði, eða óskað hefur eftir skráningu á slíkum markaði, skuli setja reglur um meðferð trúnðarupplýsinga og viðskipti innherja. Í reglunum skal m.a. kveðið á um með hvaða hætti skuli komið í veg fyrir að trúnaðarupplýsingar berist til annarra en þarfnast þeirra vegna starfa sinna, hvernig viðskiptum innherja skuli háttað, hver beri ábyrgð innan félagsins á að reglunum sé framfylgt og skráningu samskipta sem fram fara á grundvelli reglnanna.
7. Skerpt er á kröfum gagnvart útgefendum verðbréfa, stjórnvöldum og öðrum aðilum, sem fá reglulega trúnaðarupplýsingar í starfsemi sinni, varðandi setningu reglna um meðferð trúnaðarupplýsinga og viðskipti innherja.

Góðir ráðstefnugestir. Ég vil hvetja ykkur til að kynna ykkur þær breytingar sem felast í frumvarpinu um verðbréfaviðskipti. Að endingu vil ég þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa ráðstefnuna og læt þá ósk í ljós að hún megi hún verða ánægjuleg og lærdómsrík.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval