Ávarp við opnun Skrín ehf. á Akureyri, 13.10.00-

13/10/00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við opnun Skrín ehf á Akureyri
13. október 2000


Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að vera viðstödd opnun Skrín ehf hér á Akureyri.

Fyrir skömmu buðu forsvarsmenn SKÝRR mér í heimsókn til fyrirtækisins í Reykjavík og kynntu starfsemi þess. Við það tækifæri skýrðu þeir mér frá þeim breytingum sem orðið hafa á fyrirtækinu á síðustu árum eða frá því að það var í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar. Jafnframt skýrðu þeir mér frá stofnun Skrín ehf og þeim áformum sem hér eru uppi varðandi uppbyggingu þess fyrirtækis. Ég vona svo sannarlega að þau áform gangi eftir.

Ég tel að það sé engin tilviljun að þetta fyrirtæki er stofnað á Akureyri. Hér er mikið af hæfu ungu fólki sem býr yfir menntun og færni til að takast á við jafn flókin verkefni sem fyrirtæki eins og Skrín þurfa að glíma við. Það stafar m.a. af því öfluga menntakerfi sem hefur verið byggt upp hér á Akureyri m.a. með starfsemi Háskólans. Þá eru hér stór og öflug fyrirtæki á ýmsum sviðum sem vilja í auknum mæli beina kröftum sínum að því sem þau eru best til að sinna en eftirláta önnur verkefni eins og upplýsingaverkefni til þeirra sem kunna það best. Ég tel að í raun eigi sömu rök við um stofnanir í eigu ríkisins. En við verðum þó að hafa í huga að tilflutningur verkefna frá ríki til einkaaðila er háður reglum um útboð sem þarf að virða enda eru slíkar reglur settar til að tryggja hag hins almenna skattgreiðanda og jafnræði fyrirtækja. Ég tel þó að fyrr eða síðar muni ríkið í auknum mæli láta einkaaðila vinna verkefni sem annars hefðu verið unnin á vegum stofnana þess.

Fram hefur komið að forsvarsmenn Skrín hafa áhuga á að setja upp samskiptasetur sem byggir á nýrri tækni og leysir af hólmi þá tækni sem t.d. Byggðastofnun hefur byggt á varðandi starfsemi hinnar svokölluðu Byggðabrúar. Verði slíkt samskiptasetur sett á laggirnar myndi það gegna lykilhlutverki í þróun fjarkennslu en eins og við vitum þá hafa bæði Háskólinn á Akureyri og Verkmenntaskólinn haft veigamiklu hlutverki að gegna á því sviði. Það færi því vel á því að hafa slíkt samskiptasetur staðsett hér á Akureyri.

Ég vek athygli á því að 50% hlutafjár er í eigu tveggja sjóða þ.e. Framtakssjóðs Norðurlands og Tækifæris. Þessir sjóðir voru stofnaðir með framlögum frá Nýsköpunarsjóði og Byggðastofnun. Okkur stjórnmálamönnum hefur stundum fundist sem fjárfestingar þessara sjóða hafi gengið nokkuð hægt fyrir sig og hef ég m.a. gagnrýnt það opinberlega. Það er því sérstök ánægja fyrir mig að sjá hér í dag að þeir eru að taka myndarlega þátt í uppbyggingu þessa fyrirtækis.

Ég vil að lokum óska eigendum og starfsfólki Skrín ehf til hamingju með daginn.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval