Ársfundur Byggðastofnunar 07.06.00

7/6/00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp
á fyrsta ársfundi Byggðastofnunar á Akureyri 7. júní 2000Góðir fundarmenn,

Það er mér sönn ánægja að ávarpa þennan fyrsta ársfund Byggðastofnunar sem haldinn er í samræmi við hin nýju lög um stofnunina sem tóku gildi um síðustu áramót. Ég vona að þetta fyrirkomulag, þ.e. að halda sérstakan ársfund Byggðastofnunar verði til þess að efla faglega umræðu um byggðamál í landinu.

Að þessu sinni verða m.a. teknar til umræðu þær aðgerðir sem norsk stjórnvöld beita til að byggja upp ný atvinnutækifæri þar í landi. Ég tel að við getum ýmislegt lært af Norðmönnum sem og öðrum þjóðum í þessum efnum því ég hef orðið vör við m.a. í viðræðum mínum við starfsbróður minn frá Nýfundnalandi sem var hér á ferð nýlega að úrlausnarefnin eru meira og minna þau sömu. Við sem berum ábyrgð á þessum málaflokki hvort sem það er á Nýfundnalandi, Noregi, Íslandi eða innan Evrópusambandsins erum öll að reyna að skapa meiri fjölbreytni í atvinnulífinu á landsbyggðinni og bæta búsetuskilyrði þeirra sem þar búa.

Víða í Evrópu er varið miklu af opinberu fé til að laða að fjárfestingu og skapa ný atvinnutækifæri. Slíkar ráðstafanir geta skekkt samkeppnisstöðu milli landa en við höfum nýlegt dæmi um slíkt þegar ákveðið var að reisa tilraunaverksmiðju sem vinnur kísilduft í Norður Noregi en ekki við Mývatn eins og rætt hafði verið um. Megin ástæða þess að Norður Noregur varð fyrir valinu var sú að fjárfestarnir - sem voru a.m.k. að hluta til íslenskir - gátu fengið sérstaka fjárfestingarstyrki og aðra fyrirgreiðslu í Noregi sem þeir áttu ekki kost á hér á landi. Þessar aðgerðir Norðmanna að veita styrki til stofnunar fyrirtækja á tilteknum svæðum eru sambærilegar við aðgerðir sem beitt er innan Evrópusambandsins og eru þær viðurkenndar af Eftirlitsstofnun EFTA og brjóta því ekki í bága við EES-samninginn.

Umræðan um styrki Evrópusambandsins hefur oft komið upp hér á landi í tengslum við styrki til sjávarútvegs og skipasmíða. Við höfum barist gegn þessum styrkjum þar sem við höfum talið þá veikja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Nú höfum við dæmi um að slíkir styrkir skekkja samkeppnisstöðu okkar gagnvart Noregi á sviði iðnaðar. Þetta er alvarlegt mál og við þurfum að kanna með hvaða hætti við getum brugðist við og örvað fjárfestingar í nýjum atvinnutækifærum - sérstaklega á landsbyggðinni.

Stjórn Byggðastofnunar hefur lagt til við mig að höfuðstöðvar stofnunarinnar verði fluttar á Sauðárkrók og verði þannig undir sama þaki og Þróunarsvið stofnunarinnar sem hefur verið staðsett þar í tæplega tvö ár. Þessi tillaga stjórnar stofnunarinnar þarf ekki að koma neinum á óvart enda er í stefnumótandi byggðaáætlun Alþingis, sem að mestu var unnin af Byggðastofnun, lögð mikil áhersla á fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni. Ég styð þessa tillögu stjórnar Byggðastofnunar og mun á næstu dögum taka ákvörðun í þessu máli. Við þá ákvörðun mun ég gæta hagsmuna starfsfólks stofnunarinnar eftir því sem hægt er. Meðal þess sem þarf að hafa í huga er að starfsfólk fái hæfilegan fyrirvara þannig að þeir sem ekki geta af einhverjum ástæðum þegið áframhaldandi starf við stofnunina á Sauðárkróki fái tíma til að leita að nýju starfi við sitt hæfi. Þá mun ég leita eftir áliti hlutlauss aðila á hagkvæmni þess að flytja höfuðstöðvar stofnunarinnar til Sauðárkróks.

Það sem af er þessu ári hefur starfsemi Byggðastofnunar verið settar þröngar skorður vegna fjárskorts sem m.a. stafaði af því að á síðasta ári voru gefin út lánsloforð af heimildum stofnunarinnar á þessu ári. Nú hefur verið ráðin bót á þessum vanda stofnunarinnar því í síðustu viku samþykkti ríkisstjórnin að beita sér fyrir því að Byggðastofnun fengi 100 millj. kr. aukafjárveitingu á þessu ári. Þessi sérstaka fjárveiting nú hefur það í för með sér að stofnunin getur aukið útlán sín á yfirstandandi ári um 500-1.000 millj. kr.

Ég tel nauðsynlegt að í tengslum við breytingar á staðsetningu Byggðastofnunar fari fram umræður og stefnumótun á vettvangi stofnunarinnar með hvaða hætti kraftar hennar verði sem best nýttir til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Í þeirri umræðu þarf að hafa í huga að það fjármagn sem stofnunin hefur til ráðstöfunar er takmarkað og því þarf að nýta það eins vel og kostur er. Við þurfum því að spyrja okkur áleitinna spurninga. Eitt af því sem þarf að ræða er hvort rétt sé að minnka starfssvæði stofnunarinnar frá því sem nú er. Skilin milli þéttbýlis á Suð-Vestur horninu hafa sem betur fer verið að færast út. Við heyrum af uppgangi á fasteignamarkaði í Borgarnesi og Selfossi og nágrannabyggðarlögum. Það kann að vera ástæða til að minnka starfssvæði Byggðastofnunar þannig að meiri fjármunir verði til ráðstöfunar fyrir önnur svæði á landinu. Jafnframt því þurfum við að taka til umræðu hvort það sé skynsamlegt að Byggðastofnun sé að lána í hefðbundnar atvinnugreinar eins og sjávarútveg. Eru bankarnir ekki færir um að sjá um höfuðatvinnuveg þjóðarinnar eða þarf opinberan sjóð eins og Byggðastofnun til að fjármagna hluta af þessari atvinnugrein?

Ég held að flestir geti verið sammála um að við munum sjá fyrir okkur áframhaldandi fækkun á störfum í sjávarútvegi á næstu árum – sérstaklega þó í fiskvinnslu. Við getum því ekki treyst á að frekari uppbygging í sjávarútvegi geti tekið við öllu því nýja vinnuafli sem við viljum að setjist að á landsbyggðinni. Það er líklegra að ungt fólk muni í vaxandi mæli sækjast eftir annarskonar störfum en þeim sem í dag eru meginuppistaðan í avinnulífinu. Við þurfum að huga að þessu og það er að mínu viti verkefni Byggðastofnunar að benda á leiðir sem að gagni geta komið í þessum efnum. Mér er þó jafnljóst og öllum hér inni að það eru engar töfralausnir til í þessum efnum frekar en öðrum.

Við þurfum að yfirfara vandlega hvort það hafi verið rétt ákvörðun að verja 300 millj. kr. árlega á árunum 1998 til 2001 til stofnunar eignarhaldsfélaga á landsbyggðinni. Í störfum mínum hef ég fram til þessa lítið orðið vör við starfsemi þessara félaga en við samþykkt stefnumótandi byggðaáætlunar í mars 1999 voru miklar vonir bundnar við stofnun þeirra. Loks þurfum við að huga að því hvort rétt sé að fela atvinnuþróunarfélögunum stærra hlutverk en nú er. Gætum við t.d. látið atvinnuþróunarfélögin búa til verkefni sem henta þeirra starfssvæðum og tryggt þeim fjármuni til að framfylgja þeim - ef þau þykja álitleg og falla að stefnumörkun stofnunarinnar? Getum við stuðlað að meiri sérhæfingu á milli atvinnuþróunarfélaganna? Er hægt að fá þeim ný verkefni og svo mætti lengi telja.

Í desember sl. skilaði Rannsóknarráð ríkisins skýrslu til menntamálaráðherra sem ber heitið:
"Samstarf til sóknar". Í skýrslunni er að finna tillögur um samvinnu á milli rannsóknastofnana og háskóla. Eins og fram kemur í skýrslunni er núverandi skipulag á rannsóknastarfsemi atvinnuveganna meira og minna frá 7. áratugnum. Ég hef sagt það áður og segi það enn að hið opinbera þarf af og til að endurskoða starfsemi stofnana sem starfa á þess vegum. Stofnanir eru settar á fót og síðan líða í mörgum tilvikum mörg ár án þess að hugað sé að hlutverki þeirra í nýju umhverfi.

Skýrsla Rannsóknarráðs er góður grundvöllur til að hefja umræður um skipulag rannsóknarstarfsemi atvinnuveganna. Þegar sú vinna hefst þá tel ég mikilvægt að sérstaklega verði hugað að því með hvaða hætti hægt verði að efla starfsemi rannsóknastofnana atvinnuveganna við Háskólann á Akureyri. Í því sambandi minni ég á nýstofnað Matvælasetur við háskólann hér og þá möguleika sem það getur skapað hér á svæðinu. Þá er þess getið í skýrslunni að komið skuli á fót sérstökum byggðasetrum þar sem m.a. starfsmenn rannsóknastofnana og háskóla hefðu starfsaðstöðu. Þetta er að mörgu leyti athyglisverð tillaga sem þarf að skoða nánar í tengslum við endurskoðun byggðaáætlunar. Í þeirri vinnu þurfum við þó að hafa í huga að aðstæður eru mismunandi og mikilvægt er að einstök svæði hafi eitthvað um það að segja hvernig yrði staðið að uppsetningu slíkra byggðasetra. Grundvallaratriðið er þó það að við þurfum að stuðla að yfirfærslu þekkingar til landsbyggðarinnar því eins og ég sagði áðan þá þurfa að koma til nýjar atvinnugreinar ef okkur á að takast að fá ungt fólk til starfa þar. Þá hefur rektor Háskólans á Akureyri sett fram tillögu um sérstaka byggðarannsóknarstofnun við Háskólann á Akureyri. Hér er um mjög athyglisverða tillögu að ræða sem ég vil beita mér fyrir að nái fram að ganga.

Af og til koma fram hugmyndir um að hið opinbera eigi að standa fyrir því að leggja niður ákveðnar byggðir. Þá er væntanlega átt við að fólki verði greiddur styrkur til þess að flytja frá viðkomandi byggðarlagi. Að mínu áliti eru slíkar aðgerðir dæmdar til að mistakast og hafa hvergi skilað árangri svo ég viti. Við verðum hins vegar að gera okkur grein fyrir því að það er einfaldlega ekki hægt að bjóða uppá sömu þjónustu af hálfu hins opinbera á öllum stöðum á landinu. Þetta á m.a. við í mennta- og heilbrigðismálum. Við þurfum því að forgangsraða hér eins og á öllum þeim sviðum þar sem við erum að ráðstafa opinberu fé.

Ég hef sagt að við þurfum að efla byggðakjarna. Með því á ég við að það þurfi að skilgreina hversu mikla opinbera þjónustu við ætlum að byggja upp á tilteknum stöðum á landinu. Hér þarf að vera um langtímastefnumörkun að ræða þannig að fólk viti við hverju megi búast. Í þessum efnum sem öðrum þá eru kröfur fólks mismiklar. Sumir sækjast eftir því að búa í minni byggðarlögum þrátt fyrir að ekki sé hægt að bjóða upp á alla þá þjónustu sem er að finna í stærri byggðarlögum. Aðrir sækjast eftir sem bestri þjónustu og vilja því búa á stöðum sem geta boðið uppá þjónustu í samræmi við þeirra væntingar. Við eigum því alls ekki að dæma byggðarlög úr leik með opinberum ákvörðunum. Þvert á móti eigum við að hafa frelsi í þessum efnum sem öðrum en á sama tíma þurfum við að vera raunsæ varðandi það hvaða opinberra þjónusta er í boði.

Góðir fundargestir.
Ég hef ákeðið að endurskipa stjórn Byggðastofnunar sem skipuð var fyrr á þessu ári. Ég vil þakka stjórn og starfsfólki fyrir það ágæta samstarf sem við höfum átt frá því að málaflokkurinn – byggðamál - og ég komum samtímis í iðnaðarráðuneytið um síðustu áramót. Rúmlega 5 mánuðir er ekki langur tími og við erum enn að átta okkur á ýmsum hliðum málsins. Við getum þó sagt að hér er um spennandi málaflokk að ræða sem snertir flesta þætti samfélagsins. Við sem erum hér samankomin eigum okkur sameiginlegan draum. Drauminn um að efla landsbyggðina. Látum drauminn rætast.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval