Samráðsfundur Landsvirkunar, 07.04.00.-

7/4/00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á samráðsfundi Landsvirkjunar
7. apríl 2000


Ágætu fundarmenn og gestir.

Það er mikið ánægjuefni fyrir mig sem iðnaðarráðherra að koma hingað í dag og fá tækifæri til að ávarpa þennan samráðsfund Landsvirkjunar. Ég hef eins og aðrir landsmenn sem láta sér hag og velferð þjóðar okkar einhverju varða fylgst með vexti og viðgangi fyrirtækisins á þeim 35 árum, sem senn eru liðin frá stofnun þess. Er ástæða til að óska fyrirtækinu til hamingju með afmælið og þá áfanga, sem náðst hafa á æviskeiði þess.

Hugsjónarmenn í upphafi aldarinnar sáu fyrir sér mikla möguleika fyrir komandi kynslóðir. Einar Benediktsson segir m.a svo í kvæði sínu Dettifoss:
Ég þykist skynja hér sem djúpt í draum,
við dagsbrún tímans nýja magnsins straum,
þá aflið, sem í heilans þráðum þýtur,
af þekking æðri verður lagt í taum.

Svo sannarlega hefur draumsýn skáldsins ræst hvað varðar virkjun þess hugarafls og þekkingar er þarf til að nýta okkur orkulindir landsins.

Það er umhugsunarefni að það skuli aðeins vera örfáir áratugir síðan menn hófu að einhverju marki að hita húsakynni hér á landi með jarðvarma og rafmagni. Sú bylting er orðið hefur í nýtingu þessara náttúrulegu auðlinda okkar til húshitunar s.l. 25 ár er í raun ótrúleg. Nýting orkulindanna hefur skapað mikla velsæld fyrir þjóðina og stuðlað að þeirri hreinu ímynd sem landið hefur. Á sama tímabili hefur allt raforkukerfi landsins verið samtengt sem stuðlað hefur að mikilli hagræðingu í rekstri flutningskerfisins. Hin mikla uppbygging hitaveitna og raforkufyrirtækja hefur góðu heilli leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna hefur lækkað úr um 45% árið 1973 niður í um 2% í dag. Þessar tölur sýna okkur að við Íslendingar höfum verið á undan flestum þjóðum í þeirri viðleitni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á síðustu árum með því að nýta okkur í auknum mæli hina hreinu orkuauðlegð landsins. Jafnframt hefur stóriðjufyrirtækjum hér á landi tekist að draga verulega úr losun mengandi lofttegunda á síðustu árum og því ber að fagna.

Fáir virðast í dag muna aðstæður í raforkumálum er hér ríktu fyrir 35 árum áður er Landsvirkjun var stofnuð. Á þeim tíma var rafvæðing sveitanna vel á veg komin en þó hvergi nærri lokið, orkuskortur var víða og vanmáttugar héraðsveitur voru óburðugar til allra nýrra átaka. Raforkuframleiðsla orkuveitna var þetta ár innan við 700 gígawattstundir á ári en var í árslok 1999 komin upp í 7200 gígawattstundir á ári. Þetta er bylting, sem fáar þjóðir geta stært sig af. Í ljósi þess að umræða um nýtingu orkulinda okkar hefur oft verið heldur neikvæð undanfarið má spyrja hvort við höfum vanrækt að kynna nýrri kynslóð þær umbyltingar sem hér hafa orðið í nýtingu orkulinda landsins á örfáum áratugum. Við þurfum að auka fræðslu yngri kynslóða á þessari auðlegð hennar og hvaða þýðingu nýting hreinna endurnýjanlegra orkulinda í víðu samhengi muni hafa til heilla fyrir afkomendur okkar.

Eins og ykkur er kunnugt um hefur á undanförnum árum verið unnið að endurskoðun á skipan raforkumála. Á árinu 1999 voru fyrstu drög að frumvarpi til nýrra raforkulaga kynnt ýmsum hagsmunaaðilum og óskað eftir athugasemdum við þau. Endurskoðunin þarf að taka mið af sérstöðu okkar í þessu efni, m.a. þeirri staðreynd að við eigum miklar endurnýjanlegar orkulindir sem ekki hafa verið nýttar nema að litlu leyti. Ný skipan þarf að stuðla að því að við höldum áfram að nýta orkulindirnar um leið og við virkjum markaðsöflin til að auka hagkvæmi í orkubúskapnum.

Skilja þarf í lögunum á milli þátta eftir því hvort samkeppni verður við komið eða ekki. Með því að tryggja eðlilegan aðgang orkuframleiðenda að flutnings- og dreifikerfum raforku samkvæmt ákveðinni gjaldskrá á að vera unnt að koma á samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Forveri minn skipaði á s.l. ári sérstaka nefnd er fjalla skyldi um framtíðarskipulag raforkuflutnings hér á landi. Nefndin hefur nýlega skilað því áliti sínu að stofnað verði sérstakt fyrirtæki í eigu orkuveitnanna til að sjá um flutning raforku og það verði sjálfstætt rekið fyrirtæki, stjórnunarlega aðskilið frá eigendum sínum.

Nú er hafin vinna í ráðuneytinu við að ljúka við gerð frumvarpsins til raforkulaga þar sem tekið verður tillit til ofangreindra sjónarmiða nefndarinnar en að auki verða skoðaðar helstu athugasemdir og sjónarmið er bárust við kynningu á frumvarpsdrögunum á s.l. ári. Ég vonast til að unnt verði að endurskoða frumvarpið næsta sumar í ljósi umræðu innan þings og utan með það að markmiði að hægt verði að leggja fullmótað frumvarp fyrir Alþingi næsta haust og að ný lög verði samþykkt á næsta vetri.

Í framhaldi af endurskoðun laga um raforkumál er gert ráð fyrir að endurskoða orkulögin, sem fjalla m.a. um hlutverk hitaveitna, Orkustofnunar og Rafmagnsveitu ríkisins enda er eðlilegt að orkufyrirtækin búi við eins lík starfsskilyrði og unnt er. Í þessu samhengi er rétt að benda á eitt afar mikilvægt atriði fyrir orkufyrirtækin við nýtingu orkulinda á næstu árum, en það er hinn flókni og tímafreki ferill leyfa, sem fyrir hendi þurfa að vera allt frá fyrstu rannsóknum til reksturs orkuveranna. Því miður hefur vinna við undirbúning virkjana á síðustu árum orðið sífellt flóknari og tímafrekari og fleiri aðilar koma að leyfisveitingum en áður. Brýn nauðsyn er orðin á því að skoða á hvern hátt væri unnt að einfalda þetta ferli án þess þó að slá af kröfum um vandaðan undirbúning.

En að fleiru er unnið á vegum iðnaðarráðuneytisins, sem áhugavert er í ljósi framtíðarhagsmuna þjóðarinnar. Fyrir ári hófst vinna við svokallaða rammaáætlun um nýtingu náttúruauðlinda landsins í samvinnu við umhverfisráðuneytið. Þessi vinna hefur farið vel af stað og þess er vænst að hún stuðli að almennri sátt um sambýli manns og náttúru við nýtingu auðlinda okkar. Kjörorð verkefnisins er því: Maður-Nýting-Náttúra. Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Markmið áætlunarinnar er að flokka virkjunarkosti með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis en jafnframt að meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar og menningarminjar svo og aðra hagsmuni með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Með þessari vinnu verður unnt á næstu árum að leggja grunn að ákveðinni stefnumörkun varðandi nýtingu einstakra virkjunarkosta og friðun ákveðinna svæða fyrir mannvirkjagerð. Nauðsynlegt er hinsvegar að sá tímarammi er menn hafa sett sér við fyrsta hluta þessa verks geti staðist, þannig að við árslok 2002 hafi verkefnisstjórn áætlunarinnar skilað fyrstu niðurstöðum til stjórnvalda um þær virkjunarhugmyndir, sem nú eru til umfjöllunar.

Eins og kunnugt er hafa fjárfestar í fyrirhuguðu álveri óskað eftir viðræðum um að breyta áætlunum um byggingu fyrirhugaðs álvers á Reyðarfirði á þann veg að byrjunaráfanginn verði 240 þúsund tonn í stað 120 þúsund tonna áfanga eins og ráðgert hafði verið. Í framhaldi af byrjunaráfanga yrði álverið stækkað fljótlega um 120 þúsund tonn og yrði þannig 360 þúsund tonn. Þessar hugmyndir verða kannaðar á næstu vikum með það fyrir augum að endurskoða Hallormsstaðayfirlýsinguna og fella hana að þessum kosti ef í ljós kemur að hann verður hagstæðari. Þetta þýðir verulegar breytingar á virkjunarröð og tilhögun virkjunarkosta og mun væntanlega leiða til þess að ekki væri þörf fyrir miðlunarlón á Eyjabökkum. Eins og gefur að skilja gerir þessi breytta staða það að verkum að hefja þarf umfangsmikla undirbúningsvinnu, bæði við virkjunarundirbúning og einnig samninga milli fjárfesta. Þeir hafa lagt áherslu á að reynt verði að hraða eins og kostur er allri undirbúningsvinnu til að unnt verði að taka álverið í notkun eins fljótt og mögulegt er. Hér mun því reyna á marga aðila á næstu misserum en leggja verður þó mikla áherslu á vandaða vinnu við undirbúning og mat á umhverfisáhrifum virkjunar og álversins.Góðir fundarmenn.
Það ríkir góðæri í landinu. Á slíkum tímum hættir mönnum til að trúa því að svo muni ávallt verða og ekkert þurfi fyrir slíku ástandi að hafa. Reynslan hefur kennt okkur annað. Velferð þjóðarinnar er í verulegum mæli fólgin í skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda landsins, nýting orkulindanna til atvinnuuppbyggingar ásamt skynsamlegri nýtingu sjávarfangs er einn megin grundvöllur bættra lífskjara þjóðarinnar. Það er ljóst að raforkukerfi landsins í dag er meðal þeirra bestu í heiminum hvað varðar gæði raforku og öryggi. Þetta mikla öryggi skapar því öruggt umhverfi fyrir m.a. líftækniiðnað, sem byggist m.a. á notkun hátækni er aftur krefst stöðugleika og gæða raforkunnar. Allar hugmyndir um að aukin atvinnutækifæri þjóðarinnar geti í framtíðinni byggst nánast eingöngu á hugviti, hugbúnaðariðnaði, þekkingariðnaði eða einhverju öðru en nýtingu náttúrulegra auðlinda eru því algjörlega óraunhæfar, uppbygging slíkra atvinnugreina er vitaskuld háð undirstöðuþáttum nútíma þjóðfélags eins og raforkunni. Við eigum ekki og megum ekki í umræðum um uppbyggingu atvinnulífs og framtíðarheill þjóðarinnar segja annað hvort eða, nútíma- og framtíðarþjóðfélagið krefst þess að við hugsum, segjum og framkvæmum: bæði og. Við þurfum að byggja á öllum möguleikum, sem þjóðin hefur yfir að ráða til að skapa henni bjarta framtíð.


Ég vil að lokum þakka stjórn Landsvirkjunar og starfsmönnum fyrirtækisins gott og ánægjulegt samstarf það sem af er nýbyrjuðu ári og vænti góðs samstarfs við ykkur í þeim miklu verkefnum, sem framundan eru.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval