Ráðstefna norrænna verk- og tæknifræðinga, 05.06.00

5/6/00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á ráðstefnu norrænna verk- og tæknifræðinga
5. júní 2000

(Ávarpið var flutt á norsku).

Ágætu norrænu verk- og tæknifræðingar.

Þessi síðasti áratugur aldarinnar hefur umfram þá fyrri einkennst af mjög stórstígum framförum í vísindum og tækni. Þær breytingar má að stórum hluta til rekja til umbyltingar í upplýsinga- og fjarskiptatækni sem hefur haft áfrif langt út fyrir hefðbundin mörk sín. Þessar breytingar hafa gjörbreytt öllum atvinnuháttum okkar og í raun þjóðfélaginu öllu.

Efnahagslegar framfarir hafa á sama hátt verið miklar og byggjast þær nú fyrst og fremst á mannauði og þekkingu. Það er af sem áður var að verðmætin væru í réttu hlutfalli við magnið. Fyrir okkur Íslendinga mótaðist afkoma okkar hér áður fyrr fyrst og fremst á því hversu mörg hundruð þúsundir tonna af sjávarafla við gátum dregið úr sjó á ári hverju. Nú er magnið - eða hráefnið - aðeins lítill hlutur af verðmætinu sem byggist aftur á móti að mestu leyti á þekkingu. Það sagði mér hagfræðingur fyrir skömmu að nærri lægi að aðeins um 20% af verðmæti sjávarafurða okkar væri vegna hráefnis en 80 % væri þekking sem sem skapaði hið raunverulega verðmæti vörunnar.

Það er einnig löngu liðin tíð að auðlindir hafsins dugi til að viðhalda nauðsynlegum hagvexti, til að mæta kröfum okkar um aukin efnahagsleg og félagsleg gæði. Þess er heldur ekki þörf enda hafa stoðir efnahagslífsins styrkst hægt og sígandi með því að atvinnulífið hefur orðið fjölbreyttara með efldri vísinda- og tækniþekkingu. Þessu hafa fylgt óteljandi möguleikar til vaxtar á fagsviðum sem jafnvel voru ekki til fyrir einni kynslóð síðan. Það leiðir því af sjálfu sér að tækifærunum fylgja ógnir fyrir suma sem ekki treysta sér til að takast á við ný og framandi verkefni.

Þessi samfélagsbreyting hefur leitt til þess að menntun er ekki lengur bundin við uppvaxtarárin - og hversu góð sem hún var í upphafi - þá dugar hún ekki lengur sem vegarnesti starfsævina til enda. Í stað þess þarf nú hver og einn að kappkosta að bæta við þekkingu sína alla starfsævina svo hún sé í samræmi við þarfir þjóðfélagsins og einstaklingsins sjálfs á hverjum tíma. Því miður er það svo að fólk á misauðvelt með að stíga fyrstu sporin á menntabrautinni á fullorðinsárum og því þarf að auka meðvitund allra um að ævilangt nám er aðeins hluti af daglegri tilvist okkar, bæði í leik og í starfi.

Hér á Íslandi er þessi vandi sennilega auðsæjastur í þeim sjávarplássum á landsbyggðinni þar sem veiðirétturinn hefur horfið á brott úr byggðarlaginu. Veiðirétturinn úr gjöfulum fiskimiðum okkar er því miður takmarkaður. Hann hefur á síðustu árum gengið kaupum og sölum samkvæmt lögmáli markaðarins og því hafa stærri og hagkvæmari fyrirtæki getað keypt til sín veiðiheimildir þeirra veikari. Nú er svo komið að til að byggð haldist á þessum stöðum þurfa að verða þar til ný störf - á nýjum fagsviðum - sem geta lítið eða ekki byggt á þeirri hefðbundnu þekkingu sem þar er að finna. Í þeim efnum er nú mikið horft til framsækinna tæknimanna sem eru einna líklegastir til að koma fram með nýjar hugmyndir sem duga til frambúðar.

Grundvöllur hins nýja samfélags sem við sjáum nú móta fyrir hefur verið nefnt "nýja hagkerfið". Það byggir á vísindalegri þekkingu og afurðum hennar í margskonar formi vöru og þjónustu. Íslandi hefur óneitanlega vegnað vel í að feta sig inn á þessar nýju brautir enda byggjast efnahagslegar framfarir okkar á því að vel takist til í þeim efnum. Þekkingin er alþjóðlegt viðfangsefni enda eru það gangkvæmir hagsmunir þjóða að miðlun hennar sé sem greiðust. Nærtækast er fyrir okkur Íslendinga að minnast þess að bókmenntaarfur okkar er ekki einskorðaður við áhuga eða hagsmuni okkar einna heldur hefur hann að geyma veigamikinn grundvöll að sameiginlegri menningalegri- og sögulegri arflegð Norðurlandanna allra.

Ágætu verk- og tæknifræðingar.
Norrænt samstarf er einkar mikilvægt fyrir okkur öll og mér er það ánægjuefni að norrænir tæknimenn sameinist á þessari metnaðarfullu ráðstefnu til að fjalla um menntun verk- og tæknifræðinga á nýrri öld. Tæknimenn hafa verið áhrifavaldar í samfélagsþróuninni á öldinni sem er að líða og víst er að hlutur þeirra verður ekki minni á þeirri næstu.

Um leið og ég óska Tæknifræðingafélagi Íslands með 40 ára afmælið lýsi ég því yfir að ráðstefnan um stöðu verk- og tæknifræði á nýrri öld er hér með sett.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval