Fjarvinnslufundur á Hótel Sögu, 04.05.00 .

4/5/00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherraÁvarp á fundi með forstöðumönnum ráðuneyta og ríkisstofnana um fjarvinnslu,
Hótel Sögu, fimmtudaginn 4. maí 2000.Góðir fundarmenn,

Ég vil bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til þessa fundar með okkur hér í dag.

Það hefur e.t.v. vakið athygli ykkar að bréfið þar sem ég boða ykkur til fundarins er dagsett 25. apríl á Ísafirði. Ég verð að viðurkenna að ég var ekki stödd á Ísafirði þennan dag heldur má segja að þessi framsetning sé einskonar tákn fyrir það sem við ætlum að ræða hér í dag.

Þegar við í ráðuneytinu tókum endanlega ákvörðun um að halda fundinn á þessum degi fórum við að velta því fyrir okkur hvernig við ættum að standa að fundarboði. Við vildum nýta okkur sem best nútímatækni upplýsingasamfélagsins og því höfðum við - rafrænt - samband við upplýsingatæknifyrirtækið Snerpu á Ísafirði og báðum þá um hugmynd að einblöðungi til að senda út með fundarboðinu. Snerpa brást við með snörpum hætti, hannaði og prentaði einblöðunginn. Jafnframt var þeim falið að ganga frá boðsbréfi, setja það í umslag og koma því í póst. Bréfhausinn var sendur rafrænt frá Prentsmiðjunni Odda og undirskrift mín skönnuð og send með tölvupósti. Ég veit ekki hvort þetta fyrirkomulag stenst að öllu leyti - allra strangasta form eins og skipan mála er nú - en okkur fannst þetta a.m.k. við hæfi að þessu sinni. Þá fengum við fyrirtækið Íslenska Miðlun til að hringja og kanna þátttöku á fundinn. Þær hringingar fóru fram á Raufarhöfn. Við höfum því við undirbúning þessa fundar nýtt okkur þessa tækni til hins ýtrasta og við erum mjög ánægð með þá þjónustu sem við fengum.

Ég boða til þessa fundar hér í dag sem ráðherra byggðamála en sá málaflokkur fluttist til iðnaðarráðuneytisins um síðustu áramót. Það er því hlutverk mitt að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum en sú stefna sem við störfum eftir í þessum mikilvæga málaflokki var samþykkt á Alþingi í mars á síðasta ári. Í áætluninni er lögð rík áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði á fyrst og fremst að ná með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hin opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Hverju ráðuneyti fyrir sig er - samkvæmt áætluninni - falið að leggja fram tillögur um verkefni sem hægt er að sinna á landsbyggðinni. Í því sambandi er í áætluninni sérstök áhersla lögð á að nýta möguleika upplýsingatækninnar til hins ýtrasta. Sú mikla áhersla sem lögð er á fjölgun opinberra starfa og verkefna í byggðaáætluninni þarf ekki að koma neinum á óvart sem til þekkir á landsbyggðinni. Þar eru að verða miklar breytingar í atvinnuháttum sem stafa af mikilli hagræðingu í sjávarútvegi annars vegar og rekstrarvanda í landbúnaði hins vegar. Margt fólk á landsbyggðinni býr því við óöryggi í atvinnumálum og gerir því kröfu til réttlátari skiptingar starfa og verkefna sem kostuð eru með opinberu fé. Þá er gríðarlega mikilvægt að reyna að stuðla að fjölbreyttari atvinnustarfsemi á landsbyggðinni en það er frumforsenda fyrir því að okkur takist að snúa við þeirri þróun búferlaflutninga sem við höfum séð á síðustu árum. Mun fleiri eru nú farnir að sjá að þetta er óheillavænleg þróun sem setur mikla pressu á þennan hluta landsins. Að mörgu leyti eru þverstæður í þessari þróun sem þó er ekki einskorðuð við Ísland. Mér finnst stundum sjálfri að fleiri sækist eftir því en áður að njóta ýmissa þeirra gæða sem landsbyggðin hefur uppá að bjóða umfram höfðuborgarsvæðið. Við sjáum t.d. að landar okkar sem hafa verið að gera það gott úti í hinum stóra heima sækjast eftir að koma sér upp aðstöðu á landsbyggðinni m.a. til að sinna þeim hluta vinnu sinnar sem hægt er að stunda án tillits til búsetu. Ég held reyndar að þessi nýja tækni sem við erum að fara að ræða hér á eftir muni hafa miklar breytingar í för með sér á næstu árum. Sum ykkar eru reyndar farin að taka eftir því sjálf að viðvera ykkar á vinnustað skiptir minna máli nú en fyrir 10 árum síðan. Þið megið ekki skilja þetta svo að ég sé að segja ykkur að hætta að mæta í vinnuna. Það sem ég á við eru þeir möguleikar sem GSM símar bjóða uppá (þ.e. sími tengdur persónu en ekki stað), tölvutengingar, fjarfundabúnaður osfrv. Hver veit nema stór hluti stjórnsýslunnar geti í raun valið sér búsetu án tillits til vinnustaðar eftir 10 til 20 ár. Það gæti sparað mikinn kostnað sem ríkið hefur af rekstri fasteigna.

Þegar við ræðum þessi mál við starfsmenn ráðuneyta og stofnana þá er því oft haldið fram að flutningur verkefna kalli á auknar fjárveitingar. Stofnanir og ráðuneyti geti því ekki framfylgt þeirri stefnu sem sett er fram í byggðaáætlun ríkisstjórnar og Alþingis. Það er rétt að í mörgum tilvikum þá kostar það meiri fjármuni að flytja verkefni út úr ráðuneytum og stofnunum. Ég tel hins vegar að í sumum tilvikum þá geti það verið hagkvæmt. Við höfum t.d. séð að einkafyrirtæki eru í auknum mæli að nýta sér upplýsingatæknina til að láta vinna verkefni utan sinna eigin veggja. Nýlega var ég t.d. viðstödd þegar Landsbanki Íslands opnaði nýtt þjónustuver á Akureyri. Bankinn sá sér hag í því að gera þetta í stað þess að stækka þjónustuverið í Reykjavík. Opinberar stofnanir hafa líka verið að gera svipaða hluti en við munum heyra meira af því hér á eftir þegar nokkrir aðilar munu skýra okkur frá reynslu sinni af slíkum verkefnum.

Að undanförnu hefur iðnaðarráðuneytið í samvinnu við Byggðastofnun og Iðntæknistofnun unnið að því að skilgreina verkefni sem henta til fjarvinnslu. Var ákveðið að velja 10 verkefni og vinna að gerð viðskiptaáætlunar fyrir hvert og eitt þeirra. Fyrsta verkefnið gengur út á að nýta netið til að miðla vinnu læknaritara frá heilbrigðisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu til læknaritara á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við ríkisspítalana og embætti landlæknis. Annað verkefnið er símsvörun fyrir stjórnarráðið en það er unnið í samvinnu við forsætis- og fjármálaráðuneytið. Þriðja verkefnið er gagnagrunnur fyrir verkfræðinga, arkitekta og aðra sem koma að mannvirkjagerð. Þegar lokið verður við gerð viðskiptaáætlana kemur í ljós hvort það sé hagkvæmt að vinna þessi verkefni með öðrum hætti en nú er gert. Í framhaldi af því geta þeir sem málið varðar tekið ákvarðanir.

Ég vil að lokum þakka ykkur fyrir að koma til þessa fundar með okkur í dag og vona að það sem hér kemur fram eigi eftir komi að gagni í störfum ykkar.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval