Ræða á Tórrek, kaupstefnu í Færeyjum, 28.02.00.

28/4/00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Erindi á TÓRREK 2000, föstudaginn 28. apríl 2000.


1. Inngangur
Kæru kaupstefnugestir. Það er mér mikill heiður og ánægja að fá tækifæri til að ávarpa þessa kaupstefnu sem hefur það að meginmarkmiði að efla viðskiptatengsl Íslands og Færeyja.

Færeyingar standa Íslendingum mjög nærri og mikil hlýja einkennir samskipti þjóðanna. Sögur þjóðanna eru á margan hátt svipaðar. Íslendingasögur greina ekki jafn glöggt frá landnámi Færeyja og Íslands enda byggðust Færeyjar nokkuð fyrr. Færeyja er oft getið í Íslendingasögunum og ein þeirra, Færeyingasaga, fjallar um þá atburði sem gerðust þar fystu aldirnar eftir að Norðmenn námu eyjarnar. Víkingatímabilið er á margan hátt glæsilegt tímabil í sögu beggja þjóða. Í framhaldi þess tímabils kom margra alda tímabil örbirgðar og fátæktar. Það var ekki fyrr en seint á síðustu öld og þessari sem verulegar breytingar til batnaðar áttu sér stað.

Rótin að þessum breytingum var vélvæðing fiskiskipa. Á 20. öldinni hefur sjávarútvegur verið aflvaki þeirra gríðarlegu þjóðfélagsbreytinga sem fært hafa bæði Íslendingum og Færeyingum lífskjör sem jafnast á við það besta sem þekkist. Breytingarnar síðustu eitt hundrað árin hafa stöðugt verið með vaxandi hraða og þær hafa fært atvinnulífinu og þjóðunum ný tækifæri, en um leið verið ógnun við hefðbundnar venjur og rótgróin gildi.

Ísland og Færeyjar hafa um langt árabil átt mjög gott samstarf á sviði sjávarútvegsmála. Okkur hefur ávallt borið gæfa til að leysa úr öllum ágreiningsefnum okkar á þessu sviði og gert samninga um nýtingu sameiginlegra auðlinda. Gott dæmi um þetta er þegar okkur bar gæfa til að ná tvíhliða samningi um norsk-íslensku síldina sem síðan varð til þess að heildarsamkomulag náðist á milli allra þjóða sem hagsmuna hafa af nýtingu þessa stærsta fiskistofns í Norður Atlandshafi. Þá hafa Færeyingar einir landa enn rétt til veiða innan íslenskrar lögsögu á grundvelli þeirra samninga sem gerðir voru þegar Íslendingar færðu út fiskveiðilögsöguna í 200 sjómílur. Loks má geta þess að samstarf landanna í alþjóðlegum stofnunum sem fjalla um nýtingu lifandi auðlinda hafsins hefur ávalt verið einstaklega gott enda liggja hagsmunir okkar yfirleitt alltaf saman.

2. Viðskipti Íslands og Færeyja.
Nú hin síðari ár hefur samstarf Íslendinga og Færeyinga verið að aukast á öðrum sviðum. Mörg íslensk fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl í Færeyjum og færeyskir athafnamenn hafa tekið til hendinni á Íslandi. Vegna nálægðar Færeyja og Íslands og vegna þess hve líkur færeyski neytendamarkaðurinn er þeim íslenska, er á vissan hátt hægt að segja að hann sé framhald af heimamarkaði okkar. Með sama hætti ætti íslenski markaðurinn að vera eðlileg framlenging af heimamarkaði fyrir færeysk fyrirtæki. Með öflugum viðskiptatengslum geta bæði löndin stækkað sinn heimamarkað. Það er æskileg þróun og okkar fámennu þjóðum mikilvægt.

Glöggt er gests augað segir máltækið. Mikilvægi þess að auka viðskiptaleg tengsl Færeyja og Íslands er ein af meginniðurstöðum skýrslu nýsjálensku sérfræðinganna undir stjórn Dr. Patrick Caragata, sem í fyrra skiluðu skýrslu til færeysku landsstjórnarinnar um efnahagslega uppbyggingu Færeyja. Í skýrslunni er eindregið hvatt til aukinnar viðskiptalegrar samvinnu á milli landanna.

Ein athyglisverð hugmynd í skýrslu sérfræðinganna er að hvatt er til nánari samvinnu landanna á sviði fjármálaþjónustu. Fjármagnsmarkaðurinn hefur tekið stakkaskiptum á Íslandi á undanförnum árum. Á árfáum árum hefur markaður með hlutabréf fest rætur og viðskipti aukist ár frá ári. Nú eru 75 félög skráð í íslensku kauphöllinni. Verðbréfamarkaður hefur hins vegar ekki þróast jafn hratt hér í Færeyjum. Hér er því tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld og fjármálafyrirtæki til að bjóða fram aðstoð sína og hjálpa til við uppbyggingu færeyska markaðarins. Einnig væri mjög áhugavert ef færeysk fyrirtæki skráðu félög sín í íslensku kauphöllinni, eins og lagt er til í skýrslu Caragata-hópsins.

Viðskipti Íslendinga við Færeyinga jukust talsvert á síðasta ári. Ef miðað er við fyrstu ellefu mánuði ársins fór útflutningur Íslendinga til Færeyja úr tæpum 600 milljónum króna árið 1998 í rúmar 1100 milljónir króna í fyrra. Útflutningurinn er töluvert fjölbreyttur, t.d. egg, kartöflur, svaladrykkir, fóðurvörur og byggingarefni að ógleymdum margvíslegum tækjum og búnaði fyrir sjávarútveginn. Útflutningur Færeyinga til Íslands hefur verið nokkuð sveiflukenndur í gegnum árin. Þó er það ánægjuleg þróun að hann hefur aukist nokkuð hin síðari ár.

Viðskipti landanna geta ekki talist mikil þegar litið er á tölur um innflutning og útflutning og þær bornar saman við heildarviðskipti við útlönd. Færeyski útflutningsmarkaðurinn nemur innan við einum af hundraði af heildarútflutningi Íslands og innflutningurinn sömuleiðis. Þetta segir þó ekki alla söguna því á bak við þessi viðskipti eru lítil og meðalstór fyrirtæki sem skipta þessi viðskipti miklu og eru þeim afar mikilvæg.

Bein þátttaka íslenskra fyrirtækja í færeysku atvinnulífi hefur ekki verið mikil í gegnum tíðina þó hún hafi aukist mjög síðustu misserin. Þar má nefna að íslenskt flutningafélag og verslunarkeðja hafa umfangsmikla starfsemi í Færeyjum og íslenskt fjármálafyrirtæki er að setja hér upp útibú. Einnig hefur verið samstarf á sviði fisksölu og fiskvinnslu milli íslenskra og færeyskra fyrirtækja. Þá er mikilvægt að geta þeirrar staðreyndar að Norræna, ferjan sem siglir reglulega milli Íslands og Færeyja á sumrin, hefur átt mikinn þátt í að auka ferðaþjónustu á Íslandi.

Ein athyglisverðasta útflutningsvara Færeyinga til Íslands um þessar mundir eru fótboltamenn. All margir slíkir stunda nú sína íþrótt á Íslandi. Þar verð ég að telja fremstan meðal jafningja náfrænda Finnboga Arge landstýrismanns, Uni Arge, sem spilar með Leiftri á Ólafsfirði. Ólafsfjörður er lítill staður á Norðurlandi í mínu kjördæmi. Þeir hafa vakið athygli fyrir góða frammistöðu á síðustu árum og þá sérstaklega framherjinn hættulegi, Uni Arge. Ég óska hér með sérstaklega eftir því að Finnbogi sendi fleiri ættmenni sín til Ólafsfjarðar svo Leiftur nái loksins að vinna Íslandsmeistaratitilinn.


3. Ný tækni á nýrri öld.
Kæru gestir. Það sem einkennir tíðaranda líðandi stundar eru hraðfara framfarir og umfram annað framfarir á sviði upplýsinga- og fjarskiptatækni. Við höfum orðið vitni að því að fjarlægðir til nærliggjandi landa og viðskiptavina okkar verða smátt og smátt minni og minni – og í sumum tilfellum er ekki unnt að tala um fjarlægðir – þar sem hinn landfræðilegi veruleiki hefur í raun enga þýðingu lengur.

Hér eru svo sannarlega sóknarfæri fyrir fámennar og velmenntaðar þjóðir. Ef við nýtum okkur ekki þessi tækifæri sem tæknin skapar þá munum við dragast aftur úr og ungir og vel menntaðir Íslendingar og Færeyingar munu kjósa að setjast að annars staðar. Upplýsingatæknin byggir á þekkingu og hugviti og munu þær þjóðir bera mest úr býtum sem standa fremst í því að nýta þann mannauð. Talið er að upplýsingatæknin verði í enn ríkari mæli en nú er helsti vaxtarbroddur atvinnulífsins. Ef rétt er að málum staðið höfum við mikla möguleika til að skapa öflugan þekkingariðnað, auka fjölbreytni í atvinnulífi og skapa áhugaverð hálaunastörf fyrir ungt fólk.

Efnahagslegt umhverfi bæði Færeyinga og Íslendinga er afar hagstætt um þessar mundir og bjartsýni ríkjandi. Hvarvetna eru menn tilbúnir til að takast á við nýja tíma. Aðstæður til fjárfestinga og viðskipta hafa því sennilega aldrei verið betri. Í stjórnarsáttmála íslensku ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að auka fjölbreytni atvinnulífs og útflutningsgreina, ekki síst með eflingu þeirra vaxtarsprota sem byggjast á menntun og þekkingu. Jafnframt er lögð áhersla á að örva starfsemi lítilla og meðalstórra fyrirtækja og styðja frumkvöðla í atvinnulífinu. Ég tel að á þessu byggi velgegni okkar á nýrri öld.

4. Lokaorð.
Góðir gestir. Kaupstefna sú sem hér er í gangi, TORREK, er mikilvægur vettvangur til að efla viðskipti milli landanna og er henni ætlað að sýna frændum okkar Færeyingum sumt af því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. Fyrsta kaupstefnan, sem haldin var fyrir tveimur árum, tókst vonum framar og þá ekki síður kaupstefnan í Reykjavík í fyrra. Alþjóðavæðing íslensks atvinnulífs er orðin að veruleika sem lýsir sér í sífellt virkari þátttöku íslenskra fyrirtækja í fyrirtækjarekstri erlendis. Íslensk fyrirtæki hafa haslað sér völl um allan heim og á öllum helstu mörkuðum heims.

Ég trúi því að samvinna milli færeyskra og íslenskra fyrirtækja geti verið veigamikill þáttur í aukinni velgegni beggja þjóða á komandi árum. Þar sem góð samvinna tekst milli fyrirtækja er það tvímælalaust beggja hagur.

Tengsl milli Færeyja og Íslands eru byggð á vináttu og trausti. Íslendingar hafa því fylgst af miklum áhuga með umræðum um sjálfstæði Færeyja að undanförnu. Þessi umræða snertir okkur djúpt enda ekki nema örfáir áratugir síðan við Íslendingar vorum í sömu sporum og Færeyingar nú. Það er einlæg von mín að Færeyingum og Dönum takist að leiða sjálfstæðismálið farsællega til lykta og enginn sitji sár eftir. Ég þakka fyrir. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval