Ársfundur RARIK, 19. 05. 00

19/5/00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherraÁvarp á ársfundi RARIK
19. maí 2000


Ágætu ársfundarfulltrúar og gestir.

Ég vil í upphafi þakka fyrir að mér skuli vera boðið að flytja hér ávarp við upphaf ársfundar Rafmagnsveitna ríkisins. Starf mitt sem iðnaðarráðherra felur vitaskuld í sér yfirumsjón og ábyrgð á starfsemi þessa fyrirtækis og þar eð ég hef verið stutt í starfi ráðherra er það mikilvægt fyrir mig að kynnast starfseminni og ársfundur er ákjósanlegur vettvangur til þess. Á hinn bóginn hef ég langa og góða reynslu af samskiptum við RARIK og því ber ég vissulega taugar til þessa ágæta fyrirtækis. Starfsemi RARIK kemur einnig mjög inn á annan málaflokk, sem heyrir nú undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, en það er yfirumsjón byggðamála. Enginn, sem til þessara mála þekkir gengur þess dulinn að góður rekstur og þjónusta RARIK er afar mikilvægur þáttur í atvinnulífi landsbyggðarinnar og raunar er árangur skynsamlegrar byggðastefnu einnig mikilvægur fyrir RARIK eins og síðar verður vikið að.

Mörgum þeirra sem ólust upp til sveita eftir miðja öldina er í fersku minni þau gífurlegu umskipti er urðu hjá fólki þegar starfsmenn Rafmagnsveitnanna fóru um héruð og mældu fyrir og reistu þar raflínur. Margir vildu fá flutningslínur sem næst bæjunum til að öruggt yrði að þar kæmi sem fyrst tenging. Meiri aufúsugesti var vart að finna á bæjum landsins og móttökur voru slíkar að engu líkara var en að um héruð færi sigurher að aflokinni styrjöld. Fyrir elstu kynslóðina, sem lifað hafði myrkur og harðindi á sínum yngri árum má vissulega segja að mikill sigur hafi unnist með rafvæðingu sveitanna þegar í híbýli manna kom ljós og hiti í stað myrkurs og kulda fyrri alda.

Þegar lesið er ritið um 50 ára sögu Rafmagnsveitna ríkisins 1947-1997, sem kom út í árslok 1997, er auðséð hversu uppbygging flutningslína á fyrstu áratugum fyrirtækisins var mikil og vandasöm framkvæmd bæði tæknilega en einnig fjárhagslega. Á árunum 1974-1984 var nýtt framfaraspor stigið með byggingu byggðalínu sem stuðlað hefur að mikilli hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins, jafnað aðgengi landsmanna að flutningskerfinu og stuðlað að jöfnun raforkuverðs. Á þessu sviði vorum við að sumu leyti framar mörgum þjóðum í Evrópu, sem nú á síðustu árum hafa unnið við að tengja saman einstök orkuveitusvæði sín. Hin mikla uppbygging flutningslína, orkuvera og hitaveitna hefur góðu heilli leitt til þess að hlutur olíu í húshitun landsmanna á síðustu áratugum hefur lækkað úr um 45% árið 1973 niður í um 2% í dag og notkun olíu við raforkuframleiðslu hefur undanfarin ár nánast engin verið. Þessar tölur sýna að með því að nýta okkur í auknum mæli hina hreinu orkuauðlegð landsins höfum við Íslendingar verið á undan flestum í þeirri viðleitni þjóða heims á síðustu áratugum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Eins og ykkur er kunnugt um hefur að undanförnu verið unnið að endurskoðun á skipan raforkumála. Á árinu 1999 voru fyrstu drög að frumvarpi til nýrra raforkulaga kynnt ýmsum hagsmunaaðilum og óskað eftir athugasemdum við þau. Ný skipan þarf að stuðla að því að við höldum áfram að nýta orkulindir landsins um leið og við virkjum markaðsöflin til að auka hagkvæmi í orkubúskapnum. Með því að tryggja eðlilegan aðgang orkuframleiðenda að flutnings- og dreifikerfum raforku samkvæmt ákveðinni gjaldskrá á að vera unnt að koma á samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Nýlega hefur sérstök nefnd skilað tillögum um framtíðarskipulag raforkuflutnings hér á landi og leggur hún til að stofnað verði sérstakt fyrirtæki í eigu orkuveitnanna til að sjá um megin flutning raforku og það verði sjálfstætt rekið fyrirtæki, stjórnunarlega aðskilið frá eigendum sínum. Unnið er nú að því í ráðuneytinu að ljúka við endanleg drög raforkulagafrumvarpsins. Helstu framkomnar athugasemdir og ábendingar við drögin hafa verið til skoðunar, en einnig hafa helstu tillögur raforkuflutningsnefndarinnar verið teknar inn í drögin. Er stefnt að því að lokið verði við endurskoðun frumvarpsins í sumar og það lagt fyrir Alþingi næsta haust þannig að ný raforkulög verði samþykkt á næsta vetri.

Það er ljóst að gera þarf verulegar breytingar á skipulagi orkufyrirtækja og lögum um þau með breyttu umhverfi raforkumála. Einnig þarf að endurskoða orkulög, sem fjalla m.a. um hlutverk hitaveitna, Orkustofnunar og Rafmagnsveitu ríkisins, enda er eðlilegt að orkufyrirtækin búi við eins lík starfsskilyrði og unnt er. Nú eru að hefjast viðræður eignaraðila Landsvirkjunar um hugsanlegar breytingar á eignarhaldi og formi fyrirtækisins m.a. í ljósi breyttrar skipan raforkumála. Enginn veit enn hvað þær viðræður leiða í ljós, en líklegt má telja að hlutur Reykjavíkurborgar og hugsanlega Akureyrarbæjar mun minnka verulega í fyrirtækinu.

RARIK er langstærsti dreifingaraðili raforku hér á landi utan höfuðborgarsvæðisins. Það er margt sem bendir til þess að í nýju skipulagi orkumála kunni staða RARIK að verða sterkari en hún hefur verið fram til þessa. Ein forsenda fyrir breyttu skipulagi raforkumála er sú að tryggt sé jafnræði og sömu starfsskilyrði milli fyrirtækja er stunda vinnslu, flutning og sölu á raforku og er miðað við að fyrirtækin í greininni verði gerð að hlutafélögum. Í tillögum framangreindrar nefndar um raforkuflutning er gert ráð fyrir því að jöfnun kostnaðar við raforkuflutning svo og framkvæmdir í flutningskerfinu sem flutningsgjöld geta ekki staðið undir, verði gerð með skatttekjum til að jafna samkeppnisaðstöðu fyrirtækja og auka hagkvæmni kerfisins. Um árabil hafa viðskiptavinir RARIK orðið að bera verulegan hluta kostnaðar vegna óarðbærrar rekstrareininga og endurnýjunar dreifikerfa til sveita. Samningur var gerður árið 1995 milli RARIK annars vegar og ríkissjóðs hins vegar um arðgreiðslur, gjaldskrármál og fleira þar sem verulegur hluti arðgreiðslna til ríkissjóðs var felldur niður til að mæta kostnaði við endurnýjun rafdreifikerfa í sveitum. Þær forsendur er þar lágu að baki hafa á ýmsan hátt breyst á síðustu 5 árum og hef ég að höfðu samráði við fjármálaráðherra skipað starfshóp til að endurskoða ofangreindan samning þar sem í eiga sæti fulltrúar ráðuneytanna beggja og fulltrúi RARIK. Með þessu móti tel ég að unnt verði að taka meira tillit til ofangreindra vandamála RARIK meðal annars á grundvelli nýrri og betri upplýsinga og gagna og brúa þannig bilið þar til að ný skipan raforkumála er að fullu komin á.

Í framhaldi af þessu máli er rétt að benda á að nú er nýlega hafin vinna við stefnumörkun um niðurgreiðslu raforku til húshitunar í kjölfar samþykktar Alþingis um að auka þessar niðurgreiðslur verulega eða úr 600 mkr í 760 mkr. Auk ríkissjóðs taka RARIK, Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða þátt í þessum greiðslum. Tvær nefndir hafa verið skipaðar til að vinna að þessu máli, önnur mun aðallega fjalla um framtíðarstefnumörkun en hin um útfærslu á framkvæmd niðurgreiðslna og þá einnig í ljósi hins nýja raforkuumhverfis. Nauðsynlegt er að unnt verði að gera breytingar á skipan þessara mála áður en ný raforkulög hafa tekið að fullu gildi. Þess er vænst að tillögur nefndanna liggi fyrir í haust.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast á eitt mál sem skiptir dreifbýlið miklu máli og vinna er að hefjast við. Þar á ég við ályktun Alþingis um að ríkisstjórnin skipi nefnd til að gera úttekt á því hve mikið vanti af raflínum fyrir þriggja fasa rafmagn á landinu, einnig er nefndinni ætlað að meta þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn og leggja mat á kostnað við að tryggja öllum landsmönnum aðgang að því. Allir sem þekkja til atvinnuhátta á landsbyggðinni vita hve brýnt þetta mál er og eins og málum er háttað í dag er veruleg mismunun á aðstöðu manna eftir svæðum hvað varðar aðgengi að þriggja fasa rafmagni.

Á síðustu misserum hefur nokkuð verið rætt um hugsanlegan flutning höfuðstöðva RARIK til Akureyrar. Þetta mál er í raun 6-7 ára gamalt en á árunum 1993-94 var gerð úttekt á þessu máli. Það mál var aldrei til lykta leitt, en sterkar vísbendingar voru um að með sameiningu yrði til framsækið og öflugt fyrirtæki, sem veitt gæti enn betri þjónustu. Í janúar s.l. óskaði bæjarstjóri Akureyrarbæjar eftir viðræðum við iðnaðarráðuneytið um könnun á hagkvæmni fyrirtækis, sem hugsanlega yrði myndað með eignum RARIK og Orkuveitu Akureyrar. Á fundi ríkisstjórnar 2. febrúar s.l. samþykkti ríkisstjórnin að ganga til samstarfs við Akureyrarbæ um slíka athugun. Í kjölfar þess var fundur haldinn með aðilum Akureyjarbæjar, iðnaðarráðuneyti og stjórnarformanns RARIK og þar var aðallega rætt á hvern hátt staðið yrði að málum við könnun á hagkvæmni samruna eða samstarfs þessara fyrirtækja. Nýlega er lokið útboði á forvali þeirra er bjóða vilja í verkefnið og nú er næsta skref að skilgreina það sem vinna þarf við slíka hagkvæmnikönnun. Ég tel það mjög áhugavert að efna til þessa samstarfs við Akureyrarbæ. Fyrri athuganir bentu til þess að sameining myndi skila verulegri hagræðingu og það er verðugt athugunarefni hvort ekki væri skynsamlegt og hagkvæmt að koma á fót nokkuð öflugu orkufyrirtæki norðanlands til að skapa eitthvað mótvægi við hin sterku orkufyrirtæki, sem eru að eflast á höfuðborgarsvæðinu auk Landsvirkjunar. Líklegt má telja að breytingar á skipan orkumála muni hafa í för með sér sameiningu orkufyrirtækja í stærri heildir til að freista þess að draga úr rekstrarkostnaði. RARIK er raforku- og dreifingarfyrirtæki landsbyggðarinnar og ég tel að það myndi efla og styrkja starfsemi fyrirtækisins ef höfuðstöðvar þess væru á Akureyri. Engar ákvarðarnir verða þó teknar um þetta fyrr en að lokinni úttekt á hagkvæmni og áhrifum hugsanlegs flutnings.

Ágætu ársfundarfulltrúar!
Ég hef hér í máli mínu lagt áherslu á að við þurfum að leita nýrra leiða og aðlaga raforkukerfi okkar að auknum kröfum og síbreytilegu samfélagi. Unnið er að margvíslegum breytingum til að mæta nýjum kröfum og sjónarmiðum notenda og mér finnst að RARIK hafi á undanförnum árum með starfi sínu verðskuldað fengið bætta ímynd í augum raforkunotenda. Því ber vissulega að fagna.
Ég vil að lokum þakka stjórn Rafmagnsveitna ríksins, rafmagnsveitustjóra og starfsliði hans gott samstarf í hvítvetna.

Ég þakka áheyrnina.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval