Viðskiptaverðlaunin og verðlaun til frumkvöðuls ársins 2000, 19.12.00 -

20/12/00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Afhending viðskiptaverðlaunanna
og verðlauna til frumkvöðuls ársins 2000


Viðskiptaverðlaunin 2000


Síðustu tvö ár hafa verið viðburðarrík hjá Össuri hf. Árið 1999 var Össur hf. opnað fyrir almennum fjárfestum og hlutabréf félagsins voru skráð á Aðallista Verðbréfaþings Íslands í október 1999. Síðan þá hefur verið skammt stórra högga á milli hjá félaginu. Í mars keypti Össur hf. bandaríska stoðtækjafyrirtækið Flex-Foot. Í október síðastliðnum keypti Össur hf. tvö sænsk fyrirtæki og í lok nóvember bandaríska stoðtækjafyrirtækið Century XXII Innovations, Inc.

Með kaupum á þessum fjórum fyrirtækjum hefur Össur hf. vaxið mjög ört. Á síðasta ári nam velta Össurar hf. um 1,3 milljarði króna og hafði þá vaxið um rúm 22% frá árinu á undan, á næsta ári er áætluð velta 6,5 milljarðar króna. Gangi sú áætlun eftir hefur velta fyrirtækisins meira en sexfaldast á aðeins þremur árum.

Í þessu sambandi skiptir þó ekki síður máli að kaupin á erlendu fyrirtækjunum og vöxtur félagsins byggir á skýrri stefnumótun og markmiðasetningu.

Jón Sigurðsson tók við starfi forstjóra Össurar hf. vorið 1996 og hefur leitt fyrirtækið í gegnum miklar breytingar- og uppbyggingarskeið. Undir hans forystu er Össur hf. orðið að leiðandi fyrirtæki á sínu sviði á heimsmarkaði. Jón Sigurðsson er því vel að því kominn að hljóta Viðskiptaverðlaunin árið 2000.

Frumkvöðull ársins 2000

Jákup Jacobsen og meðeigandi hans Jákup Purkhús opnuðu sína fyrstu verslun í Færeyjum árið 1987 undir nafninu Rúmfatalagerinn. Skömmu síðar opnuðu þeir tvær slíkar verslanir hér á landi, í Reykjavík og á Akureyri. Rúmfatalagerinn vakti strax athygli neytenda enda voru verslanirnar í hópi brautryðjenda í svokölluðum lágvöruverðsverslunum hér á landi.

Á þeim þrettán árum sem liðin eru frá opnun fyrstu Rúmfatalagersverslunarinnar hefur Jákup Jacobsen í samstarfi við meðeiganda sinn, Jákup Purkhús, byggt upp öflugt og gott fyrirtæki.

Segja má að útrásin hafi stöðugt haldið áfram, frá Færeyjum til Íslands og þaðan til Kanada, en þar opnaði Rúmfatalagerinn sína fyrstu verslun árið 1996. Verslunum Rúmfatalagersins hefur þannig fjölgað ár frá ári og eru þær nú tíu talsins, fimm á Íslandi, ein í Færeyjum og fjórar í Kanada.
Nú síðast vakti Jákup eftirtekt í íslensku viðskiptalífi með þátttöku sinni í uppbyggingu Smáratorgs í Kópavogi þar sem enn eru metnaðarfullar fyrirætlanir um frekari uppbyggingu. Með svipuðum stórhug var ráðist í byggingu Glerártorgs á Akureyri, glæsilegrar verslunarmiðstöðvar sem opnuð var nú í haust.

Það er því óhætt að segja að hvar sem Jákup Jacobsen kemur að atvinnurekstri má sjá merki um stórhug, frumkvæði og óbilandi drifkraft til uppbyggingar og framfara. Jákup Jacobsen er því sannkallaður frumkvöðull.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval