Stóriðja - úrvinnsluiðnaður, ávarp á ráðstefnu VFÍ og TFÍ 18.02.00.

18/2/00

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á ráðstefnu VFÍ og TFÍ um Stóriðju - úrvinnsluiðnað.
Grand Hótel Reykjavík föstudaginn, 18. febrúar 2000, kl.: 13:00

Ágætu ráðstefnugestir,
I.
Frá þeim árum er stóriðjan var að hasla sér völl hér á landi, og áhugi minn á þjóðmálaumræðunni var að vakna - er mér minnisstæðar tíðar umræður um úrvinnsluiðnað í tengslum við framleiðslu áls. Þá voru m.a. kannaðir möguleikar á að framleiða vélarhluta fyrir erlenda bílaframleiðendur og framleiðslu áldósa, og útflutningur vatns var til skoðunar - svo tvö dæmi séu tekin frá þessum tíma. Einhver lægð varð í umræðunni um úrvinnsluiðnað um árabil en hún varð áberandi aftur í tengslum við nýlegar áætlanir um framleiðslu á magnesíum málmi á Reykjanesi.

Þótt ég kunni ekki að rekja þessa sögu í neinum smáatriðum er mér ljóst að notkun léttmálma í hverskonar framleiðsluiðnaði fer ört vaxandi. Má í því tilefni nefna aukna markaðshlutdeild léttmálma í byggingariðnaði, skipasmíðum, bílaiðnaði og umbúðaiðnaði, auk þess sem notkun léttmálma fer vaxandi í hvers kyns iðnhönnun.

Þrátt fyrir að úrvinnsla áls sé ekki stunduð hér á landi í stórum stíl eru engu að síður starfandi úrvinnslufyrirtæki sem búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu. Í mínu heimahéraði hefur verið starfandi fyrirtækið DNG- sjóvélar, sem m.a. naut stuðnings frá ÍSAL í uppvexti sínum og fékk hráefni þaðan. Þá er mér kunnugt um margvíslegan tæknibúnað sem málmsteypan Hella hefur framleitt fyrir sjávarútveginn, að ógleymdum pönnunum frá fyrirtækinu Alpan í Þorlákshöfn.

Sá úrvinnsluiðnaður léttmálma sem þegar hefur náð fótfestu og sú tækniþekking sem við búum yfir, er vissulega vaxtarbroddur sem huga þarf að. Líklegt má telja að ál, magnesíum og blöndur úr þessum málmum verði mikilvægustu málmar framtíðarinnar. Orka og hátækniþekking er talin vera allt að helmingur af andvirði léttmálmanna, og allar aðstæður til að framleiða þá eru fyrir hendi. Af þessu má draga þá ályktun að úrvinnsluiðnaður léttmálma eigi umtalsverða sóknarmöguleika hér á landi.
II.
Jarðhitinn er orkugjafi sem vafalítið á eftir að skila okkur miklu í iðnaðaruppbyggingu í framtíðinni. Margskonar iðnferlar byggja á jarðgufu, háum hita og miklum þrýstingi. Möguleikar okkar á þessu sviði eru ekki að fullu þekktir enda eru rannsóknir á háhitasvæðum okkar víða skammt á veg komnar. Notkun jarðhita og jarðgufu til iðnaðarnota er tiltölulega umhverfisvæn orkunýting og mikilvægt að huga sérstaklega að notkun orkunnar til umhverfisvænnar iðnaðarframleiðslu. Það á við um þær forathuganir sem nú eru í gangi varðandi framleiðslu á POLYOL sem iðnaðarráðuneytið hefur tekið þátt í um tveggja ára skeið.

Polyol er lífrænt efni sem notað er sem grunnefni í margskonar efnaiðnaði. Hefðbundið hráefni til þeirrar framleiðslu er olía en sú framleiðsluaðferð sem til skoðunar er fyrir Ísland notar plöntur, t.d. sykur eða korn sem hráefni. Það sem e.t.v. er áhugaverðast við þessa framleiðslu er að við hvert framleitt tonn af Polyoli bindast um 6 tonn af CO2 við ræktun sykursins sem notaður er við framleiðsluna. Unnið hefur verið að forathugun á hagkvæmni þess að reisa 100 þúsund tonna verksmiðju hér á landi sem myndi nota um 120 þúsund tonn af sykri eða sterkju. Frá umhverfislegu sjónarmiði virðist um mjög áhugaverðan kost að ræða.
III.
Vetni hefur verið í kastljósi umræðunnar síðustu misseri. Bent hefur verið á að kostir vetnisins felast m.a. í því að það er algjörlega hreint vistvænt eldsneyti. Vetnið er framleitt úr vatni - við rafgreiningu og við brennsluna myndast einnig vatn. Það er vissulega áhugavert viðfangsefni ef tækist að leysa þá kolefnismengandi orkugjafa af hólmi sem við nú notum á farartæki okkar og það er einnig einstætt að hafa þann möguleika að geta framleitt vetnið án CO2 mengunar.

Umhverfisrökin fyrir vetnisvæðingunni eru veigamikil, efnahagsrökin eru ljós og á sama hátt má færa rök fyrir því að sú tækniþekking sem af mögulegri vetnisvæðingu leiddi hefði veruleg margfeldisáhrif á vísindasamfélagið og þann framleiðsluiðnað sem það getur skapað.
IV.
Ágætu ráðstefnugestir.
Ég fagna því að Verkfræðingafélagið og Tæknifræðingafélagið hafa tekið af skarið með því að halda ráðstefnu um þetta málefni. Ég tel það mikilvægt að gaumgæfilega sé hugað að því með hvaða hætti við getum eflt íslenskan iðnað sem byggir á innlendri orku og hvernig við getum stuðlað að fullvinnslu afurða okkar umfram það sem þegar er.

Að lokum óska ég ykkur velfarnaðar í störfum ykkar hér í dag. Ég get því miður ekki verið hér með ykkur öllu lengur en myndi fagna því að heyra af niðurstöðum ykkar síðar.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval