Ráðstefna viðskiptaráðuneytis og Samkeppnisstofnunar um styrkingu samkeppnisreglna, 17.11.00 -

17/11/00

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar-og viðskiptaráðherra
Ávarp viðskiptaráðherra á
Ráðstefnu viðskiptaráðuneytis
og Samkeppnisstofnunar


Fundarstjóri, ágætu ráðstefnugestir,

Þann 13. maí sl. var lögfest á Alþingi frumvarp sem ég lagði fram til breytinga á samkeppnislögum og taka lögin gildi 6. desember nk. Í þessum lögum felst að gerðar eru veigamiklar og nauðsynlegar breytingar á samkeppnislögunum sem tóku gildi 1. mars 1993. Setning samkeppnislaganna á árinu 1993 var að mínu mati mikið framfaraspor. Þá var horfið frá verðlagsafskiptum og fest í lög sú meginregla að virk samkeppni sé best til þess fallin að efla efnahagslega velferð hér á landi. Hins vegar hefur m.a. túlkun dómstóla og erlend þróun leitt til þess að samkeppnislögin frá 1993 voru orðin ein þau veikustu í hinum vestræna heimi. Því var að mínu mati ákaflega þýðingarmikið að styrkja samkeppnislögin og tryggja það að íslenskir neytendur og atvinnulíf búi við jafngóða samkeppnislöggjöf og best gerist annarsstaðar. Það markmið hefur að mínu mati náðst með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á samkeppnislögunum og er það vel.

Það er mikið ánægjuefni hversu breið pólitísk samstaða var á Alþingi um flest ákvæði frumvarpsins. Hið sama átti sér reyndar einnig stað þegar samkeppnislögin voru samþykkt á Alþingi 1993. Er þetta til vitnis um það hversu mikilvæga Alþingi telur samkeppnislöggjöfina og hlýtur það að vera gott vegarnesti fyrir þá sem hafa það hlutverk að framfylgja hinum nýju lögum þegar þau taka gildi í næsta mánuði.

Ég ætla ekki að lýsa hér í smáatriðum hvað felst í þessum breytingum á samkeppnislögum heldur læt öðrum ræðumönnum hér á ráðstefnunni það eftir. Ég ætla hins vegar að nota tækifærið og fjalla lítillega um mikilvægi samkeppninnar og samkeppnisreglna.

Það hefur lengi verið þekkt að samkeppni milli fyrirtækja skilar neytendum miklum ávinningi. Hún stuðlar að því að neytendur fái sem besta vöru og þjónustu á sem lægsta verði. Hún leiðir einnig til þess að fyrirtæki eru knúin til að þróa vörur sínar og koma með nýjar vörur eða bætta þjónustu á markaðinn. Samkeppnin á þannig að tryggja hagsmuni neytenda og hún er einnig í raun eina vörn þeirra gegn t.d. óeðlilegum verðhækkunum og slæmri þjónustu fyrirtækja. Hér verður einnig að hafa í huga að það eru ekki einungis neytendur sem njóta ávaxtanna af virkri samkeppni. Það gera fyrirtækin einnig ef horft er á heildarhagsmuni atvinnulífsins. Samkeppnin kemur atvinnulífinu til góða, hún agar fyrirtækin, stuðlar að nýsköpun og framförum í rekstri og gerir þeim frekar kleyft að ná t.d. árangri á erlendum mörkuðum. Virk samkeppni er því sameiginlegt hagsmunamál neytenda og fyrirtækja og í raun þjóðfélagsins alls.

Virk samkeppni er því miður ekki sjálfgefin. Sagan sýnir okkur að veruleg hætta er á því að a.m.k einhver fyrirtæki misnoti frelsi markaðshagkerfisins og eyði samkeppni með aðgerðum sínum til þess að hagnast á kostnað neytenda. Að mínu mati er það ólíðandi með öllu að fyrirtæki komist upp með það að svipta almenning þeim ávinningi sem leiðir af samkeppni. Með því móti er beinlínis verið að rýra kjör almennings. Til þess að berjast gegn slíku þarf sterkar samkeppnisreglur og í því sambandi bind ég miklar vonir við breytingarnar á samkeppnislögunum. En það er ekki nóg að hafa skarpar reglur heldur þarf að framfylgja þeim af festu og ákveðni.

Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja samkeppnisyfirvöld til þess að nýta sér ný samkeppnislög og skera upp herör gegn alvarlegum samkeppnishömlum í íslensku atvinnulífi. Slíkt átak er sérstaklega mikilvægt nú um stundir þegar (landsins forni fjandi) verðbólgan er að minna á sig. Það verður að tryggja eins og unnt er að fyrirtæki á öllum mörkuðum keppi sín á milli til að vinna gegn verðhækkunum. Hér eru miklir hagsmunir í húfi.

Því hvet ég samkeppnisyfirvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva ólöglegt samráð milli fyrirtækja um verð og önnur viðskiptamálefni. Ný skýrsla OECD sýnir hversu miklu tjóni samsæri af þessum toga eða sn. kartelar hafa í för með sér og eru aðildarríki OECD hvött til þess að berjast gegn þeim. Kartelar skaða neytendur þar sem samsæri meðlima þeirra leiðir til verðhækkana, þeir hafa í för með sér sóun og óhagræði og draga með alvarlegum hætti úr samkeppnishæfni atvinnulífsins. Mario Monti sem fer með samkeppnismál í framkvæmdastjórn ESB hefur kallað kartela krabbamein hins frjálsa hagkerfis og deili ég þeirri skoðun með honum. Mikilvægt er því að samkeppnisyfirvöld beiti breyttum samkeppnislögum til að uppræta slíka brotastarfsemi hér á landi.

Ég beini því einnig til samkeppnisyfirvalda að fylgjast grannt með því að markaðsráðandi fyrirtæki misnoti ekki stöðu sína. Fyrirtæki í slíkri yfirburðastöðu eru fær um að valda keppinautum, viðskiptavinum og neytendum miklu tjóni og slíkt má ekki líðast. Ég bind miklar vonir við þá nýju reglu samkeppnislaga að misnotkun á markaðsráðandi stöðu verður fyrirfram bönnuð.

Í þriðja lagi hvet ég samkeppnisyfirvöld til að beita hertum samrunareglum samkeppnislaga af festu þegar samruni er líklegur til að hamla samkeppni. Nú er það auðvitað svo að samruni milli fyrirtækja getur verið mjög eðlileg og skynsmaleg aðgerð og í fæstum tilvikum skapar samruni samkeppnisleg vandamál. Hins vegar getur slíkt átt sér stað, sérstaklega þegar um er að ræða öflug fyrirtæki á fákeppnismarkaði. Sökum þessa taldi ég nauðsynlegt að fá álit samkeppnisráðs á sameiningu Búnaðarbanka og Landsbanka áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar í því máli.

Ágætu ráðstefnugestir,

Í þeim breytingum á samkeppnislögum sem taka gildi í næsta mánuði felst mikil réttarbót. Það er trú mín að þessar breytingar örvi samkeppni og komi þannig öllum almenningi og fyrirtækjunum í landinu til góða.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval