Alþjóðlegt málþing um hamfaraflóð, 17.07.00 -

17/7/00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp
við opnun alþjóðlegs málþings um hamfaraflóð
í Reykjavík 17.-19. júlí 2000


Ágætu ráðstefnugestir.

Þetta málþing fjallar um vatnið, þetta merkilega og nauðsynlega efni, sem er forsenda lífs hér á jörðu. Í vatni átti lífið á þessum hnetti upptök sín og ekkert líf þrífst án vatns. Í aldanna rás hafa heilu menningarsamfélög risið og liðið undir lok eftir því hversu góðan aðgang þau höfðu að vatni. En magni og gæðum aðgengilegs vatns hefur verið mjög misskipt meðal íbúa jarðarinnar. Sums staðar hafa heilu þjóðflokkarnir þjáðst öldum saman af vatnsskorti en annars staðar hafa reglubundin stórflóð sökkt fólki og fénaði.

Á síðustu áratugum og öldum hafa þó tækniframfarir gert það kleift að draga nokkuð úr aðstöðumun þjóða á aðgengi að vatni, en um leið hefur oft verið gripið inn í hina náttúrulegu hringrás vatnsins. Slíkt getur vissulega skapað aukna hættu á hamförum ef ekki er farið að öllu með gát. Við vitum einnig að margvísleg starfsemi manna getur valdið margbrotnum og alvarlegum breytingum á loftslagi jarðarinnar. Þar ber helst að nefna sem hæst ber í alþjóðlegri umræðu í dag brennslu á lífrænum efnum eins og olíu, kolum og gasi, en einnig eyðingu frumskóga jarðarinnar. Alkunna er að aukning koltvísýrings í andrúmsloftinu við brennslu lífrænna efna mun valda hækkun hitastigs á jörðinni, hitastig sjávar hækkar og úrkoma eykst og illviðraköflum ásamt flóðum fjölgar. Verður m.a. fjallað um þetta efni hér á málþinginu og öll bindum við vonir við að á 6. loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Haag í nóvember náist samkomulag milli þjóða heims um aðgerðir við að hemja losun gróðurhúsalofttegunda.

Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að hafa aðgang að gnægð vatns og vegna loftslags og legu landsins endurnýjast það sífellt og langvarandi þurrkar og hamfaraflóð eru fátíðari hér en víða annars staðar. Þó ber svo við að hér verða eldgos undir jöklum sem valda miklum flóðum, enda hefur landið verið kallað land elds og ísa. Hér mætast þessar miklu andstæður, sem sitt í hvoru lagi eða sameiginlega hafa valdið miklum búsifjum hér á landi frá landnámstíð. Á þessu málþingi verður sjónum einmitt beint að þætti jökla og eldvirkni í þeim. Það er einkar áhugavert efni miðað við íslenskar aðstæður. Þar á ég við að verulegur hluti berggrunns landsins hefur mótast við þær aðstæður á jökulskeiðum fyrri tíma og enn í dag lifir þjóðin við samspil eldvirkni jarðar og jökla.
Í um 800 ár hafa verið skráðar upplýsingar um gosvirkni undir Vatnajökli, stærsta jökuls í Evrópu. Af þeim má ráða að á þessum 800 árum hafi að jafnaði verið gos með 10 ára millibili. Forfeður okkar, hinir fornu sagnaritunarmenn Norðurlanda, hafa með skrásetningu sinni á þessum atburðum lagt drjúgan skerf til merkra upplýsinga á hegðun náttúrunnar fyrr á tímum. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að á okkar tímum, þegar búast má við auknum flóðum og hamförum vegna eldsumbrota eða veðurfarsbreytinga, að forvarnastarfi vísindamanna vegna hugsanlegra náttúruhamfara sé sinnt með sem bestri gagnasöfnun og upplýsingagjöf þannig að unnt verði að koma í veg fyrir að mannskaði hljótist af og mannvirki verði fyrir óbætanlegu tjóni.

Góðir gestir.
Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands fagna ég því að þessi ráðstefna skuli vera haldin hér á landi því þau vandamál, er hér verða til umfjöllunar, munu brenna á okkur Íslendingum og öðrum þjóðum einnig, þó í öðrum mæli sé, um ókomna tíð.
Með þessum orðum lýsi ég því yfir að alþjóðlegt málþing um hamfaraflóð í Reykjavík 17.-19. júlí 2000 er sett.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval