Fundur um nýtingu jarðvarma við ferðaþjónustu og baðlækningar, 11.05.00. -

11/5/00

Valgerður Sverrisdóttir
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á kynningarfundi Orkusjóðs um niðurstöður verkefnisins:

Nýting jarðvarma við ferðaþjónustu og baðlækningar, 11. maí 2000.


Ágætu ráðstefnugestir,
Yfirskrift og umræðuefni þessa fundar um nýtingu jarðvarma fyrir ferðaþjónustu og baðlækningar er afar áhugavert umfjöllunarefni, en snertir í raun aðeins hluta þess heillandi verkefnis á hvern hátt við Íslendingar getum nýtt okkur í sem ríkasta mæli auðlindir okkar til að laða að ferðamenn til landsins og um leið auka og bæta lífskjör þjóðarinnar. Fundurinn fjallar einnig um möguleika á að nýta jarðvarmann til lækninga, lífsbata og aukinnar vellíðunar þjóðarinnar og erlendra gesta okkar.

Alkunna er að heilsuböð voru iðkuð hér á landi af höfðingjum á fyrstu öldum Íslandssögunnar. Hverjum Íslendingi var kennt að Snorri Sturluson lét gera laug á höfuðbóli sínu, Reykholti, og sat hann í henni löngum. Nóbelsverðlaunaskáldið okkar segir í Alþýðubókinni, í hinni merku ritgerð sinni "Um þrifnað á Íslandi" engan vafa leika á því að hreinir hafi þeir höfðingjar verið á Íslandi, sem sömdu sögurnar. Svo fast kvað skáldið að hann taldi að sálir skítugra manna væru ekki hreinni fyrir sitt leyti en líkamar þeirra. Þó svo að örlað hafi á öfgum og ýkjum í grein Halldórs vakti hún upp sterk viðbrögð meðal þjóðarinnar og telja má víst að hún hafi stuðlað að því að víðtæk samstaða náðist um þá ákvörðun að byggja Sundhöll Reykjavíkur stuttu síðar. Mér finnst hinsvegar rétt að vekja athygli á þessari skoðun Halldórs á samhengi jarðvarmans og bókmenntaarfs þjóðarinnar til að leggja áherslu á í hve víðu samhengi við eigum að skoða gildi þessarar auðlegðar okkar.

Við höfum í dag náð þjóða lengst í því að virkja jarðvarma til húshitunar. Lengi framan af öldinni var varla til þekking og tækni til að nýta jarðhita í verulegum mæli til húshitunar og síðar til raforkuframleiðslu eins og tekist hefur að gera í dag. Sú umbylting hófst fyrir 30-40 árum og er öllum hér kunn. Þessi þróun var vitaskuld mikið átak fyrir þjóðina, en hefur opnað um leið sýn manna á nýtingarmöguleikum jarðvarmans. Hvarvetna, þar sem hitaveitur er að finna um byggðir landsins, hafa risið orlofshús og sumarbústaðir með allskonar heitum pottum, sem nýta frárennsli húsa. Fólk kýs að fjárfesta í þessari aðstöðu til að láta sér líða vel og ber að fagna því að auðlindirnar skuli vera betur nýttar í þessu skyni. Staðreyndin er sú að val manna á sumardvalarstöðum er í dag orðið háð því hvort fyrir hendi sé fullnægjandi baðaðstaða.

Ef við horfum til framtíðar og skoðum nýtingu á háhitasvæðum landsins er nauðsynlegt að menn hafi í huga heildarnýtingu þeirra. Mönnum er tamt að tala um að ódýrt kunni að vera að virkja einhverja jarðgufuborholu hér eða þar og framleiða raforku úr orku hennar. Í þessari umræðu verða menn að horfa til heildarnýtingar orkunnar þar eð raforkuframleiðsla nýtir yfirleitt ekki nema 12-15% af þeirri orku, sem virkjuð er á háhitasvæðum. Þarna er verkefni framtíðarinnar fyrir okkur og alla þjóðina að hugsa um, og er verkefni þessa fundar, á hvern hátt getum við nýtt á sem skynsamlegastan hátt þá gífurlegu auðlind, sem verður til með því að virkja háhitasvæði fyrir raforkuframleiðslu.

Við höfum dæmi um svörin: Virkjun við Svartsengi, hitaveita Suðurnesja og loks Bláa lónið er nærtækt dæmi um þetta og vonandi verður svo lengi enn að mönnum geti hugkvæmst einhverja slíka notkun í stað þess að kalla lónið umhverfisslys. Aðsóknin, heimsfrægðin svo ekki sé talað um lækningamáttinn fyrir psoriasissjúklinga er vitaskuld sú staðreynd sem enginn getur afneitað þegar yfirskrift þessarar ráðstefnu er höfð í huga.

Í ljósi þess sem ég hef sagt, tel ég að okkur muni miða vel fram á við á næstu árum hvað varðar nýtingu jarðvarma fyrir ferðamennsku og vonandi einnig fyrir heilsuböð. Mér finnst framtak og ótrúleg framsýni Náttúrulækningafélags Íslands á sínum tíma við að vekja athygli á lækningamætti náttúrulegra hvera og gufu, og það, að reisa upphaflega af veikum mætti myndarlegt heilsuhæl,i verði til hvatningar og örvunar um að sækja fram. Tíðarandinn er breyttur og nú er lag til að nýta sér reynslu af notkun heilsubaða.

Fleira kemur til. Í ljós hefur komið að hveraörverur kunna að vera dýrmætar. Iðnaðarráðuneytið, Landsvirkjun, Hitaveita Reykjavíkur og fleiri hafa stutt dyggilega við rannsóknir á hveraörverum á háhitsvæðum. Á þessu stigi er ekki unnt að greina frá því á hvern hátt þessar rannsóknir þróast, en ljóst er að þarna er um auðlind að ræða sem við þurfum öll að hugleiða frekar. Þarna er enn einn möguleikinn á því að nýta innlendar orkulindir í sem víðasta samhengi og vera kann að þar leynist mikill vaxtarbroddur iðnaðar, orkunotkunar og heilsu- og lækningaefna.

Góðir fundarmenn.
Ég vonast til þess að þessi fundur auki þekkingu okkar á þeim málefnum, sem til umræðu verða og geri okkur kleift að auka og bæta nýtingu orkulinda okkar og um leið varpa ljósi á möguleika nýrrar aldar á nýtingu þjóðarinnar á þessari auðlind.
Ég þakka fyrir góða áheyrn.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval