Vorfundur atvinnuþróunarfélaganna í Reykjanesbæ 10.04.00.

10/4/00

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp iðnaðarráðherra
á vorfundi atvinnuþróunarfélaganna í Reykjanesbæ 10. apríl 2000
haldið í Eldborg, Orkuveitu Suðurnesja


Góðir fundarmenn,

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa vorfund atvinnuþróunarfélaganna. Það má ráða af dagskrá fundarins að það eru mörg áhugaverð viðfangsefni sem atvinnuþróunarfélögin eru að vinna að um þessar mundir.

Frá því að við í iðnaðarráðuneytinu tókum við byggðamálunum fyrir rúmlega þremur mánuðum síðan höfðum við að sjálfsögðu velt fyrir okkur með hvaða hætti hægt sé að nýta sem best þá fjármuni og mannafla sem ríkið ráðstafar til atvinnuþróunarstarfsemi í víðum skilningi þess orðs. Það fyrirkomulag sem við búum við í þessum efnum er að stofni til komið til ára sinna.

Frá því að Byggðastofnun var sett á laggirnar árið 1985 hafa ekki verið gerðar umtalsverðar breytingar á lögum um stofnunina nema þá þegar ný lög komu til framkvæmda um síðustu áramót. Á næstu dögum verður gefin út reglugerð um starfsemi Byggðastofnunar í samræmi við hin nýju lög. Það verður síðan hlutverk stofnunarinnar og stjórnar hennar að aðlaga starfsemi sína að hinum breyttu lögum.

Í hinum nýju lögum er lögð mikil áhersla á að Byggðastofnun hafi frumkvæði að því að auka samstarf sitt við allt stoðkerfi atvinnulífsins og að stofnunin taki virkan þátt í að þjóna þörfum þeirra fjölmörgu sem til hennar leita. Ég er þeirrar skoðunar að allt of mikið af kröftum stofnunarinnar hafi fyrr á árum farið í að sinna lánamálum. Nú hefur stjórn stofnunarinnar ákveðið að fela forstjóra að sinna hluta af lánastarfseminni þannig að meiri tími ætti að gefast fyrir stjórn hennar til að efla starfsemina á öðrum sviðum. Tíminn einn leiðir í ljós hvernig til tekst í þeim efnum.

Starfsemi stofnunar eins og Byggðastofnunar þarf í raun að vera í stöðugri endurskoðun og við eigum að vera opin fyrir því að gera breytingar ef við teljum að þær geti betur þjónað kröfum nútímans. Nýlega fór einn starfsmaður ráðuneytisins og annar frá Byggðastofnun til Noregs til að kynna sér skipan byggðamála þar í landi. Þeir kynntu sér m.a. starfsemi Atvinnu- og byggðaþróunarsjóðs Noregs en hann var stofnaður í upphafi árs 1993. Þessi sjóður var stofnaður á grundvelli sérstaks byggðasjóðs sem var starfræktur þar í landi. Auk þess hafa fjármunir sem áður voru nýttir til atvinnuþróunastarfsemi á vegum einstakra ráðuneyta vegna einstakra atvinnugreina verið fluttir til Atvinnu- og byggðaþróunarsjóð. Þannig er í raun safnað á einn stað öllu því fé sem norska ríkið ver til atvinnuþróunarstarfsemi þar í landi. Þeir sem óska eftir þjónustu þurfa því einungis að fara á einn stað en ekki á marga - eins og þið þekkið vel að tíðkast hér. Þetta fyrirkomulag getur því annars vegar tryggt betri þjónustu og hins vegar betri yfirsýn varðandi þær ráðstafanir sem í boði eru.

Starfssvæði Atvinnu- og byggðaþróunarsjóðs Noregs er allt landið og allar atvinnugreinar. Noregi hefur verið skipt upp í þrjú svæði með tilliti til byggðastyrkja. Á þessum svæðum geta fjárfestingarstyrkir til stofnunar fyrirtækja numið frá 15 til 50% af fjárfestingarkostnaði en hlutfallið fer eftir því á hvaða landsvæði fyrirtækið er stofnað og eftir stærð þess. Hæstu styrkirnir eru í Norður-Noregi. Hið almenna skilyrði fyrir veitingu styrks er að stofnun fyrirtækisins sé þjóðhagslega hagkvæm og að rekstrargrundvöllur sé tryggur eftir að tekið hefur verið tillit til aðstoðar SND. Áherslan í styrkveitingum á síðustu árum hefur verið að færast yfir í fjárfestingar í mannauði í stað fjárfestinga í framleiðslutækjum. Þeir styrkir eru almennt í ákveðnum farvegum, t.d. styrkir vegna stofnunar fyrirtækja, vöruþróunar, hagnýtingar rannsókna, stjórnunar og stefnumótunar.

Ein deild í Atvinnuþróunarsjóði Noregs, með um 8 starfsmenn vinnur við það sem kallað er "omstilling" eða umbreyting. Hún tekur á vandamálum í sveitarfélögum þar sem stór vinnuveitandi er í þann mund að leggja upp laupana. Þá er unnið eftir ákveðnum ferlum þar sem m.a. er reynt að virkja íbúana sem mest. Sjóðurinn leggur tillögur sínar um aðgerðir fyrir byggðamálaráðuneytið sem hefur yfir tilteknum fjármunum að ráða til að bregðast við vanda einstakra byggðarlaga. Ég tel að við gætum ýmislegt lært af þessari starfsemi í þeirri glímu sem kemur upp hér hjá okkur þegar mikill atvinnuvandi steðjar að ákveðnum byggðarlögum.

Ég er ekki að segja frá þessu hér og nú vegna þess að ég telji endilega að við eigum að taka upp þetta norska kerfi. Ég vil hins vegar vekja athygli á nauðsyn þess að við lítum í kringum okkur og hugleiðum hvort einhvert annað fyrirkomulag henti betur en það sem við höfum í dag. Slíkar hugleiðingar hafa t.d. orðið til þess að menn ákváðu á sínum tíma að stofna atvinnuþróunarfélög og Byggðastofnun ákvað á sínum tíma að styrkja og styðja við bakið á starfsemi slíkra félaga. Þess vegna segi ég að við eigum ekki að hika við að gera breytingar ef við teljum að þær geti verið til góðs.

Fyrir tíu dögum síðan barst mér bréf frá Skotlandi þar sem Íslandi var boðið að taka þátt í næstu INTERREG-áætlun Evrópusambandsins sem nær yfir tímabilið 2000-2006. Þetta er ein af byggðaáætlunum sambandsins en markmið hennar er að auka samstarf yfir landamæri. Norðmenn tóku þátt í þeirri áætlun sem lýkur á þessu ári og munu þeir jafnframt taka þátt í þeirri næstu. Ekki hefur enn verið tekin afstaða til þess hvort Ísland taki þátt í þessari áætlun en ég hef óskað eftir því að við fáum að taka þátt í störfum sérstakrar undirbúningsnefndar sem heldur næsta fund sinn síðar í þessari viku. Fulltrúi Íslands í undirbúningsnefndinni verður Bjarki Jóhannesson forstöðumaður Þróunarsviðs Byggðastofnunar. Ég hef jafnframt óskað eftir því að Byggðastofnun leggi fagleg mat á kosti þess að við gerumst aðilar að þessari áætlun en kostnaður af hugsanlegri þátttöku okkar liggur ekki fyrir enn sem komið er. Ég vænti þess að við getum tekið endanlega ákvörðun í þessu máli innan fárra vikna þegar allar upplýsingar eiga að liggja fyrir. Ef við tökum ekki þátt í þessari áætlun nú þá eigum við ekki kost á því næst fyrr en á árinu 2006.

Í ráðuneytinu er unnið að því að framfylgja þingsályktun um stefnu í byggðamálum 1999-2001. Hvað varðar fjarvinnslumálin þá erum við í samstarfi við Byggðastofnun og Iðntæknistofnun að skilgreina verkefni á sviði fjarvinnslu sem gætu hentað til vinnslu úti á landi. Þá höfum við ákveðið að halda morgunverðarfund með fulltrúum allra ráðuneyta og ríkisstofnana síðar í þessum mánuði til að kynna þá möguleika sem upplýsingatæknin býður upp á til þess að vinna verkefni úti á landsbyggðinni. Þá hef ég nýlega skipað nefnd til að útfæra tillögur um það hvernig eigi að standa að niðurgreiðslum á rafmagni til húshitunar. Fjárveitingar til þessa verkefnis hafa verið auknar mjög á síðustu árum og verður alls varið 760 millj. kr. til þessa verkefnis samkvæmt fjárlögum ársins.

Ég vil að lokum þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa fund ykkar hér í dag og vona að vinna ykkar skili góðum árangri til hagsbóta fyrir atvinnu- og búsetumál landsbyggðarinnar. Ég vænti þess að geta átt gott samstarf við öll atvinnuþróunarfélögin á landsbyggðinni í starfi mínu.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval