10 ára afmæli Prenttæknistofnunar

10/12/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra:

Ávarp á 10 ára afmæli Prenttæknistofnunar


Ágætu ráðstefnugestir!

Það fer sjálfsagt ekki framhjá neinum að þessa dagana er jólabókaflóðið í algleymingi. Undanfarnar vikur hafa bækurnar streymt á markaðinn, en ekki aðeins bækur, heldur líka geisladiskar og alls konar margmiðlunarefni sem leikmaður kann varla að nefna, en verður samt var við allt í kringum sig. Ekki þarf annað en nefna alla litprentuðu bæklingana og auglýsingapóstinn sem hann fær inn um bréfalúguna hjá sér svo til á hverjum degi.

Þannig eru afurðir prentiðnaðarins, til orðnar í flóknu samspili iðn- og tæknimenntaðra fagmanna og fyrirtækja með mikla veltu, háþróaðrar nútímatækni og margþættra möguleika, vaxandi og áberandi þáttur í daglegu umhverfi okkar. Þess vegna er vel til fundið að halda einmitt nú þessa ráðstefnu í tilefni af 10 ára afmæli Prenttæknistofnunar, því að sú mynd sem ég dró upp af áhrifum prenttækni og prentiðnaðar væri önnur ef þeir sem ferðinni ráða í þeim greinum hefðu ekki fullan hug á að fylgjast vel með.

Það er söguleg staðreynd að prentarar og bókagerðarmenn hafa það orð á sér, bæði hér á landi og annars staðar, að hafa verið framsækin og menntafús starfsstétt. Ásamt útgefendum og öðrum atvinnurekendum sem hafa nýtt sér möguleika prenttækni og margmiðlunar hafa þeir átt drjúgan þátt í að skapa upplýsingaþjóðfélag nútímans með því menntunarstigi og þeim möguleikum sem það býður upp á.

Menntunarmálin hafa löngum verið í brennidepli innan prentiðnaðarins og iðnfræðslumálin höfðu sem oftar verið mikið rædd meðal bókagerðarmanna og atvinnurekenda í prentiðnaði áður en Prenttæknistofnun var komið á laggirnar 1991.

Næstu 20-30 árin þar á undan höfðu ýmsar breytingar orðið í fræðslumálum prentiðnaðarins. Þáttaskil urðu þegar verknámsskóli hóf starfsemi í Iðnskólanum í Reykjavík í öllum greinum bókagerðar 1977. Eftir þessa breytingu urðu námsleiðir í bókagerð tvær: verknámsbrautin við iðnskólann og samningsbundið nám eins og tíðkast hafði frá því að prentöld hófst. Áfangakerfi var svo tekið upp í bókiðnadeild Iðnskólans í Reykjavík 1982 og sex árum seinna urðu ýmsar breytingar á menntun bókagerðarmanna. Það stuðlaði svo enn að breytingum að tækni og starfshættir í prentsmiðjum voru sífellt að breytast, gömul mörk milli einstakra iðngreina voru að þurrkast út og þær sköruðust meira og meira uns félög bókagerðarmanna og prentiðnaðarins ákváðu að stíga skrefið til fulls og sameina tilteknar greinar.

Ég rifja þetta upp nú á tíu ára afmæli Prenttæknistofnunar vegna þess að síðustu öldina hafa menntunar- og iðnfræðslumál prentiðnaðarins löngum verið nátengd Iðnskólanum í Reykavík. Tilraunakennsla í bókagerð hófst þar með nýju sniði 1993, en ekki er nema rúm vika síðan stofnuð voru hollvinasamtök skólans sem hafa á stefnuskrá sinni að efla iðnmenntun í landinu, m.a. í þeim greinum sem Prenttæknistofnun ber fyrir brjósti.

Þegar Félag bókagerðarmanna og Félag íslenska prentiðnaðarins tóku höndum saman um að koma upp Prenttæknistofnun 1991 var til samstarfsins stofnað í því skyni að efla grunnmenntun starfsmanna í prentiðnaði og til að stuðla að víðtækri endurmenntun. Síðan hefur Prenttæknistofnun í grófum dráttum sinnt þremur meginþáttum: námskeiðahaldi, námsgagnagerð og mótun iðnnáms, þótt fleira hafi komið til síðustu ár vegna síbreytilegrar tækni og nýjunga.

Launþegar hafa nýtt sér vel og kunnað að meta þá miklu sí- og endurmenntunarmöguleika sem stofnunin hefur boðið upp á. Án Prenttæknistofnunar hefði ekki verið unnt að mennta starfsfólk í prentiðnaði nægilega vel í síbreytilegu tækniumhverfi. Kunnugir fullyrða að stofnunin hafi skipt sköpum um það að unnt hefur verið að takast á við allar þær öru breytingar sem gengið hafa yfir prentiðnaðinn.

En Prenttæknistofnun er einnig mikilvægur hlekkur í grunnmenntun starfsmanna.

Miklar breytingar hafa orðið á tíu ára starfstíma Prenttæknistofnunar, ekki síst í tölvuheiminum. Margmiðlun er það nýjasta og þess vegna var stofnaður margmiðlunarskóli í Prenttæknistofnun fyrir tveimur árum og síðan sameinaður margmiðlunardeild Rafiðnaðarskólans árið 2000. Margmiðlunarskólinn er nú ein öflugasta sí- og endurmenntunarstofnun sem rekin er með samstarfi milli launþega og vinnuveitenda hér á landi.

Það er gaman að handleika fallegan prentgrip. Listræn hönnun og vönduð vinna gleður augað og er alls staðar og ævinlega menningarvottur. Nú í aldarbyrjun á Prenttæknistofnun góðan hlut að því hve framarlega við Íslendingar stöndum í prenttækni. Ég óska henni heilla á tíu ára afmæli og bjartrar framtíðar og vona að hún geti sem lengst boðið félagsmönnum sínum upp á fræðslu og menntun sem dugir þeim til þess að svara þeim kröfum sem við gerum til nútíma prentiðnaðar.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval