Ávarp á ráðstefnu Skýrr og EJS um rafrænar kosningar, 20.11.2001 -

30/11/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á ráðstefnu Skýrr og EJS um
rafrænar kosningar.
Hótel Loftleiðum, 30. nóvember 2001.

Ágætu ráðstefnugestir:

Upplýsinga- og fjarskiptatæknin hefur nú þegar mótað allar athafnir okkar - með svo afgerandi hætti - að ekki er nokkur vafi á því, að rafrænar kosningar verða að veruleika áður en langt um líður. Fram hjá því verður þó ekki litið að samtímis því að margir líta meira til kosta og sóknarfæra upplýsingasamfélagsins eru aðrir sem vilja fara hægar í sakirnar og halda í hefðir sem gefið hafa góða raun í áranna rás.

Hvort tveggja hefur kosti og galla, - en hvernig sem menn vilja meta hlutina þá er nokkuð ljóst að ekki verður staðið á móti framþróuninni til lengdar. Ég veit raunar ekki alveg hvað liggur til grundvallar andmælum gegn þessu kosningaformi, nema ef vera skyldi einhverskonar rómantísk tilfinning fyrir spenningnum, sem fylgir kosningavöku fram undir morgun. Ég hef sjálf mikla ánægju af þeim, en kýs fremur að horfa til þess, sem leiða mun til almennra framfara.
Kosningar eru í eðli sínu einn af hornsteinum lýðræðisins og öll þróun rafrænna kosninga verður að taka mið af því. Fyrst og fremst þarf að huga að öryggi, í víðtækum skilningi þess orðs, - við hverja einstaka aðgerð í undirbúningi og framkvæmd rafrænna kosninga. Öryggið er forsenda þess, að borgararnir allir, jafnt kjósendur sem frambjóðendur, geti borið fullt traust til þessa nýja kosningaforms. Það er ljóst að hér verður ekki flanað að neinu.

Með lögunum um rafrænar undirskriftir, sem samþykkt voru á þinginu fyrr á þessu ári má segja að stigið hafi verið fyrsta stóra skrefið í flókinni vegferð að innleiðingu rafrænna kosninga. Lögin um rafrænar undirskriftir, sem heyra undir viðskiptaráðherra, fjalla einfaldlega um aðferðir til dulritunar, sem fullnægja þurfa mjög ströngum öryggiskröfum. Einnig segja lögin til um þær kröfur sem gerðar eru til vottunaraðila sem gefa út vottorð um réttmæti slíkra undirskrifta og opinbert eftirlit með vottunaraðilunum.

Nú þegar er því tilbúinn einn grundvallarþátur rafrænna kosninga, þ.e. vottun búnaðarins, sem nota á við framkvæmdina. Um er að ræða vottun rafrænnar kjörskrár, en þó aðallega vottun kosningatölvunnar sjálfrar, þ.e. hugbúnaðarins, vélbúnaðar og tenginga á milli tölva. Þessi búnaður þarf að vera vottaður sem traustur og óumdeilanlega trúverðugur.
Framvinda þessa máls hefur einnig aðra hlið, sem snýr að hagsmunum íslensks hugbúnaðariðnaðar. Mér er kunnugt um að flugvallarkosningin hjá Reykjavíkurborg gekk snurðulaust fyrir sig og að hugbúnaðarkerfin sem íslensku fyrirtækin hafa þróað gefa góða raun. Margt mun þó ógert áður en ströngustu öryggiskröfum verður fullnægt, en vel miðar.

Þrátt fyrir smæð íslenska markaðarins og landfræðilega einanagrun hans, hafa hugbúnaðarfyrirtækin margsinnis bent á, að það sem heldur þeim hér heima eru hinir sérstæðu kostir smæðar og gegnsæis þjóðfélagsins. Sú þróunarvinna sem þegar liggur að baki er sameiginlegt verkefni stjórnsýslunnar og íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Þar hafa báðir lagt nokkuð undir, en fyrirtækin þó sýnu meira. Það er því mikilvægt að tíminn fram að sveitarstjórnarkosningum næsta vor verði vel nýttur til að hið rafræna kosningakerfi geti fengið þá notendareynslu sem aðeins eldskírn raunverulegra kosninga getur veitt. Það er einnig von mín að okkur takist að þróa þessi kerfi þannig að úr verði arðvænleg útflutningsvara.
Í ljósi þeirrar umræðu, sem átt hefur sér stað um rafrænar kosningar að undanförnu, er mikilvægi þessarar ráðstefnu augljóst. Það er von mín að hér verði kostir og gallar þessa kosningaforms dregnir fram í dagsljósið, - þeir vegnir og metnir - og ályktað í samræmi við það.

Góðir gestir, með þessum orðum lýsi ég ráðstefnu þessa - um rafrænar kosningar - setta.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval