Ávarp við stofnun Iðnskólafélagsins, 28.11.2001

28/11/01

Valgerðar Sverrisdóttur
iðnaðarráðherra

Ávarp við stofnun
Iðnskólafélagsins 28. nóv. 2001.Ágætu gestir!

Undanfarinn áratug hefur samstarf atvinnulífs og skóla farið vaxandi hér

á landi. Í því felst töluverð breyting frá því sem áður var. Með því að víkja

við einu eða tveimur orðum í gömlum málshætti má segja að merking hans

hafi snúist við og fólki og fyrirtækjum hafi nú skilist að menntunin verður í

askana látin. Sífellt fleiri gera sér ljóst að sóknarfæri atvinnuveganna felast

ekki síst í menntun og færni starfsfólksins. Jafnframt hafa skólarnir séð að

með því að líta m.a.á sig sem þjónustustofnanir fyrir atvinnulífið og einstök

fyrirtæki, bjóðast þeim ný tækifæri sem þeir geta nýtt sér.

Við höfum séð hvernig menntunin breiðist út með nýjum hætti nú í

aldarbyrjun. Allt framboð á því sviði hefur stóraukist og skólum og

námsleiðum fjölgað. Og ungt fólk, sumt óráðið og óreynt eins og oft vill

verða á þeim aldri, lendir ekki eins oft í blindgötu og stundum gerðist áður fyrr.

Hvort sem það velur iðnskólaleiðina, menntaskólaleiðina eða fer beint út á

vinnumarkaðinn getur það breytt um stefnu seinna ef því sýnist. Ýmsir skólar

bjóða upp á stutt nám eða námskeið sem veita góðan starfsundirbúning og

möguleika til margs konar starfa.

Margir kjósa að fara í nám með starfi og kennsla á netinu er ekki

lengur framtíðardraumur, heldur raunhæfur möguleiki sem æ fleiri geta nýtt

sér, enda ryður netmiðlun og netkennsla sér mjög til rúms þessi árin. Jafnvel

mætti segja að möguleikar landsbyggðarinnar til vaxtar og viðgangs felist

kannski ekki síst í að grípa þau tækifæri, m.a. til menntunar, sem netmiðlunin

býður fólki þar upp á.

Þekking og hagvirkni er iðnaðarmönnum mikil nauðsyn, en þeir vita líka vel

að maðurinn lifir ekki á brauði einu saman. Þetta kemur mér í hug nú þegar

það rifjast upp að Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík og Iðnskólinn í Reykjavík

hafa bráðum átt samleið í 100 ár. Iðnaðarmannafélagið hefur haft meiri áhrif á

menntun og menningarlíf höfuðstaðarins en rakið verður í stuttu ávarpi, en ekki

er þó annað hægt en minnast þess að það var Iðnaðarmannafélagið sem fyrir

rúmri öld reisti Iðnó sem þá var stærsta hús bæjarins. Sá stórhugur félagsins

skaut ekki aðeins stoðum undir leiklistarlíf Reykjavíkur, heldur landsins alls,

á þeim tíma. Og það var líka Iðnaðarmannafélagið sem stofnaði Iðnskólann í

Reykjavík 1904 og reisti hús yfir starfsemi hans eftir að hafa um áratugaskeið

beitt sér fyrir óformlegri kennslu. Síðan hefur félagið ætíð litið svo á að það

hefði skyldum að gegna við Iðnskólann.

Þessi samþætting félags- og skólastarfs á sér mjög eðlilegar forsendur. Félög

og fyrirtæki innan Samtaka iðnaðarins og önnur félög meistara og sveina verða

að geta treyst því að iðnaðarmenn sem brautskráðst hafa frá Iðnskólanum í

Reykjavík hafi hlotið þar bestu iðnmenntun sem á hverjum tíma er völ á. Það er

beinlínis forsenda fyrir starfi iðnaðarmanna, félaga þeirra og fyrirtækja.

Til þess að tryggja þetta skiptir meginmáli að þessir aðilar hafi sameiginlegan

umræðu- og samstarfsvettvang.

Þess vegna ber að fagna því að þeir skuli í dag stofna hér sérstakt hollvinafélag

Iðnskólans í Reykjavík undir heitinu Iðnskólafélagið. Það er að mínu viti

mikilvægur hornsteinn þeirrar byggingar sem við hyggjumst reisa með

samstarfi atvinnulífs og skóla. Samkvæmt lögum félagsins á það þó ekki

aðeins að vera bakhjarl Iðnskólans í Reykjavík, heldur iðmenntunar yfirleitt.

Starfssviðið er því vítt og verkefnin næg.

Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri til þess að hvetja Iðnskólafélagið til þess

að beita sér fyrir því, eitt sér eða í samvinnu við aðra, að hefja iðnnám og

verkkennslu til vegs og virðingar um land allt með myndarlegu átaki. Vegna

allra þeirra námsleiða sem opnar standa og alls þess námsframboðs sem ég

hef gert hér að umtalsefni getur skipt sköpum fyrir iðnaðarmannastéttina,

samtök hennar og fyrirtæki og þar með atvinnulífið og samfélagið í heild, að

ungu fólki sjáist ekki yfir að traust iðnmenntun er góður og augljós valkostur

í nútímaþjóðfélagi.

Takist að vekja athygli á því, kann svo að fara að stofndagur Iðnskólafélagsins

verði talinn merkisdagur í sögu íslensks mennta- og atvinnulífs. Í þeirri von

óska ég félaginu farsældar í starfi á ókomnum árum.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval