Ávarp á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga, 23.11.2001

23/11/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á fulltrúaráðsfundi Sambands ísl. sveitarfélaga,
Hótel Sögu, 23. nóvember 2001

Góðir fundarmenn!

Í vor hófst vinna á vegum iðnaðarráðuneytisins við mótun nýrrar byggðaáætlunar sem koma á til framkvæmda í upphafi næsta árs. Að þessu sinni hefur starfinu við mótun byggðastefnunnar verið hagað með talsvert öðrum hætti en áður. Skipuð var sex manna verkefnisstjórn, undir formennsku Páls Skúlasonar háskólarektors en auk þess voru skipaðir þrír starfshópar sem unnið hafa að tillögum í tilteknum málaflokkum, en það eru alþjóðasamskipti, atvinnumál og fjarskipta- og upplýsingatækni.

Í verkefnisstjórn og starfshópunum situr breiður hópur fólks með fjölbreytilega menntun og starfsreynslu, og með búsetu víðsvegar af landinu. Með þessari tilhögun starfsins viljum við leggja áherslu á að byggðaþróun og byggðastefna er mál þjóðarinnar allrar. Orsakir þeirra breytinga sem orðið hafa í byggðum landsins á undanförnum árum og árutugum eru margþættar og varða nær alla þætti samfélags okkar. Sömuleiðis hafa þessar breytingar víðtækar afleiðingar, ekki aðeins fyrir íbúa landsbyggðarinnar eða einstakra byggðarlaga, heldur fyrir menningu og efnahag þjóðarinnar í heild. Það er því brýnt að sem víðtækust sátt og samstaða náist í þjóðfélaginu um stefnumörkun og aðgerðir í byggðamálum. Tillögugerð Byggðanefndar Samtaka ísl. Sveitarfélaga sem lagðar voru fram sl. sumar er mikilvægt framlag til slíkrar sáttar og hafa þær tillögur nýst vel í þeirri vinnu sem nú stendur yfir um mótun nýrrar byggðaáætlunar.

Þróun samfélagsins, einkum á sviði efnahagslífs og menningar hefur gert það að verkum að framboð atvinnu og þjónusta hefur vaxið hratt í borgum um leið og hefðbundið atvinnulíf í dreifbýli hefur sífellt þurft á minna vinnuafli að halda. Þessi þróun er mjög skýr hér á landi þar sem hefðbundnum störfum í sjávarútvegi og landbúnaði hefur fækkað mjög mikið á síðustu áratugum og þeim mun halda áfram að fækka. Við þurfum því að byggja upp atvinnutækifæri á landsbyggðinni á öðrum sviðum. Bygging álvers á Reyðarfirði er liður í því.

Hér á landi hafa búsetu breytingar verið örari og gengið lengra en víðast hvar annars staðar. Í flestum landshlutum stóð íbúafjöldi nánast í stað alla síðustu öld og sumsstaðar fækkaði fólki. Á sama tíma margfaldaðist íbúafjöldi á höfuðborgarsvæðinu.
Þessi þróun og staða mála nú, hlýtur að vera okkur mikið umhugsunarefni. Viljum við halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á síðustu áratugi eða viljum við sjá þróun byggðar stefna í aðra átt? Ef við viljum snúa þróuninni við er það þá yfir höfuð á okkar valdi að gera það? Við verðum að takast á við slíkar spurningar af alvöru ef við eigum að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir um í stefnu okkar í byggðamálum á komandi árum.

Við skulum ekki gleyma því að sveigjanleiki í búsetu er jákvæður eiginleiki þjóða. Víða hafa þjóðir til dæmis þurft að glíma við langvarandi og mikið staðbundið atvinnuleysi í dreifðum byggðum. Á Íslandi hafa slík vandamál síður skapast, meðal annars vegna þess hve greiðlega fólk flytur á milli staða. Sveigjanleiki í búsetu er bæði kostur fyrir einstaklingana er nýta vilja starfsorku sína og hæfni sem best, og fyrir þjóðfélagið í heild sem þarf að geta brugðist við nýjum aðstæðum hverju sinni.

Það er áleitin spurning hvers vegna okkur hefur ekki tekist að nýta sem skildi þennan sveigjanleika til að byggja upp öflugt atvinnulíf og menningu í öllum landshlutum, en ekki aðeins á suð-vestur hluta landsins. Vera má að hluti skýringarinnar sé fólginn í því að aðgerðir stjórnvalda hafa á liðnum áratugum ekki verið nægilega markvissar og skipulegar.
Í tillögum Byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga frá því í sumar er lagt til að byggð verði upp tvö til þrjú öflug kjarnasvæði sem hafi burði til að treysta búsetu í viðkomandi landshlutum og vera kjölfesta fyrir byggð í landinu öllu. Það yrði mikilvægur áfangi í byggðamálum ef ríkisvaldið og sveitarfélögin í landinu gætu sameinast um að koma slíkri stefnu til framkvæmda. Slík stefna á hins vegar ekki að þýða að önnur byggð leggist af.

Hugmyndin á bak við það að stuðla að myndun öflugra kjarna byggir á því að fjölbreytt atvinnulíf þurfi starfsumhverfi sem einungis stærri byggðakjarnar geta boðið upp á. Hér er átt við menntun, sérmenntað fólk, þróunarstarf, möguleika á endurmenntun og símenntun osfrv. Slíkt starfsumhverfi verður ekki byggt upp nema á fjölmennustu stöðum landsins. Jákvæð skref hafa verið stigin t.d. með uppbyggingu Háskólans á Akureyri en tímabært er að taka fleiri og ákveðnari skref í þessa átt á næstu árum.


Ýmislegt annað er varðar almennt skipulag hins opinbera og einstakra stofnana þess er einnig nauðsynlegt að taka til endurskoðunar í því skyni að aðgerðir stjórnvalda og sveitarfélaga nýtist sem best fyrir byggðirnar í landinu. Á sama hátt þurfa sveitarfélögin að huga að sínum skipulagsmálum ekki síst í ljósi breytinga á kjördæmaskipan. Þar ber hæst sameiningu sveitarfélaga, en flestir virðast sammála um að öflugri sveitarfélög séu ein meginforsenda þess að hægt verði að snúa vörn í sókn í byggðarlögum víða um land. Í tillögum Byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, er lagt til að unnið verði að því að fækka sveitarfélögum á landinu í 40-50 á komandi árum. Ég tel það mjög jákvætt að sveitarfélögin sjálf skuli setja fram slíka stefnu. Auk styrkari sveitarfélaga - þá þurfa sveitarfélögin að huga að skipulagi þess samstarfs sem verið hefur á milli þeirra í formi landshlutasamtaka. Breytt kjördæmaskipan kallar á slíka endurskoðun. Við þá endurskipulagningu þarf að hafa tvennt í huga. Annars vegar þarf að efla svæðabundið samstarf ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs á öllum þeim sviðum sem áhrif hafa á atvinnu- og búsetuþróun og hins vegar að nýta takmarkaða fjármuni sem best.

Í tillögum Byggðanefndarinnar er lagt til að sjóðakerfi hins opinbera á sviði atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni verði sameinað. Ég tek undir þessar hugmyndir en þær eru jafnframt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er ekkert vit í því að ríkið – með sérstökum sjóðum eða úr einstökum ráðuneytum – sé að reka marga sjóði til atvinnuuppbyggingar. Slíkt fyrirkomulag er bæði kostnaðarsamt og flókið fyrir þá sem þurfa á þjónustu slíkra sjóða að halda.

Íslandi stendur til boða að gerast aðili að Interreg áætlun Evrópusambandsins, Northern Periphery, sem er sérstaklega hönnuð fyrir hinn norðlæga hluta Evrópu. Þau lönd sem standa að Northern Periphery eru Noregur, Svíþjóð, Finnland, Skotland, Færeyjar og Grænland. Eftir því sem við höfum kynnt okkur betur þessa áætlun, hefur komið í ljós að mikill áhugi er á því hér á landi að taka þátt í ýmsum verkefnum sem boðið er upp á. Mörg þessara verkefna henta mjög vel fyrir sveitarfélög. Samband íslenskra sveitafélaga, Fjarðabyggð, Háskólinn á Akureyri og atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hafa nú þegar lýst yfir áhuga á að taka þátt í tilteknum verkefnum. Í ljósi þess mikla áhuga á þátttöku í Northern Periphery sem ég hef orðið vör við þá hef ég ákveðið að beita mér fyrir því að Ísland geti tekið fullan þátt í þeirri áætlun sem er að fara af stað þessa dagana.

Ég tel að það sé góð sátt um það í landinu að öflug byggð eigi að vera í öllum landshlutum og að það eigi að vera hlutverk hins opinbera að stuðla að því að svo verði. Það hefur hins vegar ríkt meiri ágreiningur um leiðir. Ég bind vonir við þá vinnu sem nú stendur yfir um mótun nýrrar byggðaáætlunar. Mér er kunnugt um að tillögur Byggðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi fengið ítarlega umfjöllun í því starfi.

Frumvarp til raforkulaga er nú til umfjöllunar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna og er gert ráð fyrir að það verði lagt fram á Alþingi á næstu dögum. Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum frá að það var lagt fram til kynningar sl. vor.
Þær tillögur sem felast í frumvarpinu miða að því að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og sölu raforku, en slíkri samkeppni verðu hins vegar ekki við komið í flutningi og dreifingu. Í frumvarpinu eru reglur sem eiga að stuðla að því að þau fyrirtæki sem starfa að flutningi og dreifingu hafi sömu hvata til hagkvæmni í rekstri og ef um samkeppnisstarfsemi væri að ræða.
Frá og með 1. júlí 2002 munu öll fyrirtæki geta fengið leyfi til að reisa og reka raforkuver á grundvelli hlutlægra og gegnsærra skilyrða. Sala raforku verður gefin frjáls í áföngum en gert er ráð fyrir opnun markaðarins að fullu 1. janúar 2005.

Til að tryggja gegnsæi í rekstri og jafnræði raforkufyrirtækja verða öll fyrirtækin að vera rekin á einkaréttarlegum grundvelli. Í frumvarpinu kemur fram að öll raforkufyrirtæki verði að vera sjálfstæðir lög- og skattaðilar. Fyrirtæki sem í dag eru rekin af sveitarfélögum verða því að breyta rekstrarformi sínu. Mörg raforkufyrirtæki hafa blandaðan rekstur og annast m.a. vatnsveitustarfsemi en vatnsveitur skulu samkvæmt gildandi lögum reknar af sveitarfélögum. Í félagsmálaráðuneytinu er nú verið að athuga hvort heimila eigi sveitarfélögum að reka vatnsveitur í formi sjálfstæðra lögaðila svo ekki þurfi að skipta upp veitufyrirtækjum sem í dag stunda bæði raforku- og vatnsveitustarfsemi.

Jafnræði aðila á markaði verður því aðeins tryggt að samkeppnisstarfsemi verði ekki niðurgreidd af sérleyfisstarfsemi. Til að tryggja þetta er lögð sú skylda á raforkufyrirtæki að þau haldi reikningum vegna sérleyfisstarfsemi aðskildum í bókhaldi sínu frá samkeppnisstarfsemi og ef ástæða þykir til er Samkeppnisstofnun heimilt að mæla fyrir um fyrirtækjaaðskilnað milli samkeppnis- og sérleyfisþátta.

Í sérleyfisstarfseminni, dreifingu og flutningi, er lögð áhersla á hagkvæmni og gegnsæi í rekstri fyrirtækjanna. Þau fyrirtæki sem í dag hafa sérleyfi til dreifingar munu halda rétti sínum.
Flutningur raforku er skilgreindur í frumvarpinu svo að hann nái allt niður á 30 kV spennu. Einu fyrirtæki verður falið að annast rekstur flutningskerfisins og kerfisstjórnun. Flutningsfyrirtækinu verður óheimilt að taka þátt í annarri starfsemi en þeirri sem tengist flutningsstsarfseminni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að settar verði reglur um gjaldskrá fyrir flutning raforku.

Byggðalínuhringurinn tryggir að unnt er að flytja raforku frá öllum virkjunum til allra notenda. Hann tryggir því forsendur samkeppni og öryggi raforkuafhendingar fyrir alla landsmenn. Það er því eðlilegt að allir landsmenn taki jafnan þátt í kostnaði við uppbyggingu og rekstur hans, og gerir frumvarpið ráð fyrir því að svo verði áfram. Flutningskostnaður í meginflutningskerfinu, þ.e. 220 kV- og 132 kV- kerfinu verður því að mestu jafnaður út milli notenda. Í samræmi við tillögur landsnetsnefndarinanr á hins vegar að byggja á raunverulegum stofn- og rekstrarkostnaði í þeim hluta flutningskerfisins sem almennt er nefnt aðveitukerfi.
Til að tryggja hagkvæmni kerfisins og ekki síst til að vernda neytendur er frelsi flutnings fyrirtækisins til að ákveða gjaldskrá settar skorður. Gjaldskráin verður að byggja á tekjuramma sem Orkustofnun ákveður. Gerðar verða kröfur um arðsemi í rekstri fyrirtæksins og getur Orkustofnun sem eftirlitsaðili krafist þess að fyrirtækið hagræði í rekstrinum.

Dreifikerfið tekur við þar sem flutningskerfinu sleppir. Dreifiveitur fá einkaleyfi til dreifingar á tilgreindum svæðum. Eins og áður segir munu dreifiveitur sem í dag hafa sérleyfi til að dreifa raforku halda þeim rétti. Gert er ráð fyrir að starfssvæði dreifiveitu geti skipst í fleiri en eitt gjaldskrársvæði þar sem sama gjaldskrá skal gilda. Líkt og flutningsfyrirtækið verða dreifiveitur að uppfylla skilyrði er lúta að arðsemi og hagræðingu.

Í dag eru óarðbærar einingar í aðveitu og dreifikerfinu og hefur kostnaði vegna þeirra verið jafnað út í gjaldskrá á svæðum viðkomandi veitna. Viðskiptavinir Rarik hafa einir borið kostnað af óarðbærum einingum í aðveitu og dreifikerfi Rarik. Ennfremur hafa hinar óarðbæru einingar komið fram í hallarekstri hjá fyrirtækinu. Ljóst er að í breyttu kerfi þarf að mæta þessum kostnaði með öðrum hætti en verið hefur.

Skipuð var nefnd sl vetur til að meta kostnað vegna óarðbærra eininga í aðveitu og dreifikerfinu. Nefndin skilaði tillögum sínum síðastliðið vor. Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að kostnaðurinn nemi um 500 milljónum á ári. Leggur nefndin til að dreifiveitusvæði fái framlag ef kostnaður notenda fer yfir ákveðin mörk á hverju svæði. Nefndin benti á tvær leiðir til að mæta þessm kostnaði. Annars vegar af almennum skatttekjum ríkissjóðs og hins vegar með sérstökum skatti á framleidda orku. Gert er ráð fyrir að síðarnefnda leiðin verði farin. Kostnaðurinn við flutnings- og dreifikerfið hefur verið óljós og borinn af mismiklum þunga af landsmönnum. Er nú í iðnaðarráðuneytinu unnið að frumvarpi þar sem m.a. verður mælt fyrir um framkvæmd niðugreiðslna vegna óarðbærra eininga í raforkukerfinu.

Í frumvarpi til nýrra raforkulaga felast, samkvæmt framansögðu, verulegar breytingar frá gildandi kerfi sem beint eða óbeint snerta sveitarfélögin í landinu. Breyta verður rekstrarfyrirkomulagi fyrirtækja, forgangsréttur sveitarfélaga til að reisa og reka dreifiveitur fellur niður og jöfnun kostnaðar vegna óarðbærra eininga í raforkukerfinu verður með öðrum hætti en nú er. Þá má búast við því að raforkufyrirtæki verði skattlögð eins og önnur fyrirtæki. Á vegum fjármálaráðherra er starfandi nefnd sem ætlað er að koma með tillögur sem eiga að tryggja skattalegt jafnræði raforkufyrirtækja.

Ljóst er að hið nýja umhverfi í raforkumálum mun hafa áhrif á sveitarfélögin í landinu. Sveitarfélögin eru ásamt ríkinu eigendur allra þeirra fyrirtækja sem starfa í þessu geira. Gera má ráð fyrir að þessi nýja skipan muni með tímanum leiða til breytinga í eignarhaldi og sveitarfélög og ríki muni losa um eignir sínar í þessum fyrirtækjum. Þeim fjármunum verður þá hægt að ráðstafa með öðrum hætti í þágu íbúa landsins.

Góðir fundarmenn
Ég hef rætt um tvö verkefni sem unnið er að á vegum iðnaðarráðuneytisins um þessar mundir. Miklu skiptir að vel takist til við mótun nýrrar byggðaáætlunar og nýskipan raforkumála. Ég bind vonir við að geta átt gott samstarf við sveitafélögin í landinum í báðum þessum málum.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval