Ávarp á kynningarfundi EBRD 22.11.2001

22/11/01

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á kynningarfundi EBRD,
Hótel Sögu, 22. nóvember 2001


Góðir fundargestir.

Ég vil byrja á því að bjóða ykkur velkomin á þennan fyrsta kynningarfund um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu. I want specially to thank our guests, Mr. Peter Engström and Mr. Ulf Linders from the European Bank for Reconstruction and Development and Mr. Sindri Sindrason, CEO for Pharmaco and Balkanpharma for giving us part of their valuable time to indroduce us to the bank.

Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu var stofnaður 1991 og eru hluthafar auk Íslands 57 lönd. Hlutverk og meginmarkmið EBRD er að stuðla að umskiptum úr miðstýrðum áætlunarbúskap í opið hagkerfi.

Ísland hefur frá stofnun bankans verið í samstarfi með Svíum og síðar Eistlendingum um rekstur stjórnarskrifstofu. Þessi lönd standa því sameiginlega að kjöri stjórnarmanns og starfsmannamálum stjórnarskrifstofunnar. Peter Engström veitir skrifstofunni forstöðu og er jafnframt fulltrúi landanna í stjórn bankans. Stjórnarskrifstofur eru alls 23 í bankanum og fara með mismunandi atkvæðamagn. Stjórnarskrifstofa Íslands, Svíþjóðar og Eistlands fer með 2.58 % af atkvæðamagni í stjórn EBRD, þar af hefur Svíþjóð 2.38 % en Ísland og Eistland 0.10 % hvort. Heildarhlutafé Íslands í EBRD er 20.000.000 euro og greiðist hlutaféð með reglulegum afborgunum.

Íslensk yfirvöld stofnsettu íslenskan tæknisjóð fljótlega eftir að bankinn hóf starfsemi sína. Sjóðurinn hefur það hlutverk að fjármagna vinnu ráðgjafa við undirbúning verkefna og hafa nokkrir ráðgjafar fengið styrk úr sjóðnum. Sjóðurinn fjármagnar aðeins vinnu íslenskra ráðgjafa, enda er sjóðurinn fjármagnaður af íslenskum yfirvöldum. Tillaga um framlag úr sjóðnum þarf að koma frá einni af deildum bankans, sem velur ráðgjafann og gerir tillögu um upphæð greiðslunnar. Það er því ljóst að sýnileiki íslenskra ráðgjafa innan bankans er mjög mikilvægur. Auðbjörg Halldórsdóttir, verkefnisstjóri Viðskiptaþróunar, sem er hluti af Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins, er að taka saman lista yfir alla ráðgjafa sem hafa hug á starfa fyrir alþjóðastofnanir. Ráðgjafalistinn verður birtur á heimasíðu utanríkisráðuneytisins og sendur viðkomandi aðilum hjá alþjóðastofnunum. Ég vil hvetja alla ráðgjafa til að vera með á þessum lista, þar sem hér er um ákveðið skref að ræða til að auka sýnileika íslenskra ráðgjafa.

Stjórn bankans sinnir stefnumótun og almennum rekstri bankans. Ákvarðanir stjórnarinnar þurfa að vera samþykktar af fulltrúum hluthafa, sem eru ráðherrar þeirra landa sem hafa með málefni EBRD að gera. Ég er fulltrúi bankans fyrir Íslands hönd. Ísland hefur engan starfsmann í bankanum eins og er, en síðasti Íslendingurinn sem gegndi starfi aðstoðarframkvæmdastjóra stjórnarskrifstofunnar er Baldur Erlingsson, lögfræðingur. Hér á eftir verður starfsemi bankans kynnt nánar og þeir möguleikar sem bjóðast íslenskum fyrirtækjum er huga á útrás. Er það sérstakt ánægjuefni að Sindri Sindrason forstjóri Balkanpharma í Búlgaríu er hér staddur til að kynna starfsemi fyrirtækisins þar sem það er stærsta verkefnafjármögnun bankans til íslensks fyrirtækis.

Ágætu fundargestir,

Það er ósk mín að þessi kynningarfundur um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu verði einungis sá fyrsti af mörgum og muni reynast íslenskum fyrirtækjum gagnlegur.

Takk fyrir


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval