Ávarp við undirritun samnings X18 við kanadíska fyrirtækið Norimco, 17.11.2001

17/11/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp við undirritun samnings X-18 við kanadíska fyrirtækið Norimco.

Hótel Saga – Sunnusalur, 17. nóvember 2001


Ágætu gestir. Ladies and Gentlemen. I would like to congratulate you all and wish you all the best in your co-operation. I hope that you can sell a lot of X18 shoes in your stores and that this contract will only be the start of a long and successful relationship.

Það er með mikilli ánægju sem ég mæti hér í dag því eins og fram hefur komið er verið að undirrita tímamótasamning í íslenskri viðskiptasögu. Skófyrirtækið X18 hefur náð ótrúlegum árangri á skömmum tíma við markaðssetningu og sölu á framleiðslu sinni. Að fyrirtæki sem er tæplega fjögurra ára skuli vera að ganga frá sölusamningi að andvirði um 8 milljarða króna er framar björtustu vonum.

Fyrirtækið X18 hefur sýnt að okkur Íslendingum eru allir vegir færir við uppbyggingu atvinnulífs. Hér hefur fæðst fyrirtæki í fremstu röð á heimsvísu. Það hefur ráðist inn á harðan samkeppnismarkað og náð árangri.

Það er stefna íslenskra stjórnvalda að auka fjölbreytni atvinnulífsins, skapa samkeppnishæf skilyrði til nýsköpunar, tryggja rekstraröryggi fyrirtækja og auka útflutning. Ég þykist vita að X18 hafi notið góðs af því umhverfi sem sprotafyrirtækjum á Íslandi er búið, m.a. með góðum stuðningi Viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins. Hafa starfsmenn hennar bæði hér á landi og í New York verið fyrirtækinu til þjónustu reiðubúnir og vonandi reynst vel. Utanríkisráðherra hefur lagt áherslu á að utanríkisþjónustan nýtist fyrirtækum eins og X18 og ég vona að fyrirtækið geti áfram stólað á aðstoð hennar. Þá hefur þátttaka Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í uppbyggingu fyrirtækisins án nokkurs vafa verið því mikill styrkur.

Fyrirtækið X18 veitir nú um 30 einstaklingum vinnu við hönnun, markaðssetningu og vörudreifingu. Það veitir góð og vellaunuð störf. Í dag tekur það stórt skref sem vonandi verður til að tryggja enn frekar framgang þess. Ég óska starfsfólki og stjórn X18 til hamingju með þennan dag.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval