Ávarp á ráðstefnu um rafræna framtíð, Grand Hótel 19.09.2001

19/9/01

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á ráðstefnu um rafræna framtíð,
Grand Hótel 19. september 2001.Ágætu ráðstefnugestir.
Við lifum nú í skugga þeirra hrikalegu illvirkja sem unnin voru í New York og Washington í fyrri viku þegar þúsundum mannslífa var fórnað fyrir málstað sem enginn kann að skýra og enginn hefur gengist við. Þótt við Íslendingar teljum okkur ekki vera í þjóðbraut hryðjuverkanna, er engu að síður mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að illvirki birtast í margskonar gerfum og enginn veit hvar borið er niður þegar mannvonskan og ómenningin leysist úr læðingi.

Ég vek athygli á þessu hér vegna þess að hryðjuverk framtíðarinnar munu vafalítið beinast í auknum mæli að upplýsinga- og fjarskiptakerfum. Nútíma þjóðfélag byggist á óheftri starfsemi þessara kerfa og því er rétt að ítreka það sem oft hefur verið bent á að öryggi þeirra er ekki í samræmi við mikilvægi í atvinnurekstri og í einkalífi. Mín tilfinning er sú að við Íslendingar séum ekki síður hirðulausir um öryggismál upplýsingakerfa en aðrir. Úr því verður að bæta. Svefnrósirnar líða yfir tölvuskjáinn næturlangt og jafnvel um helgar og bjóða þannig hverjum sem framhjá fer að gera sig heimakominn.

Hugsanlega munu atburðirnir í Bandaríkjunum vekja okkur til meðvitundar um eigið öryggi. Öllum má vera ljóst að í rafheimum þekkjast engin pólitisk- eða landfræðileg landamæri. Þar erum við Íslendingar jafn opnir fyrir hryðjuverkum og hver annar. Þegar ég segi þetta er ég að sjálfsögðu ekki að leggja að jöfnu mannslíf og rafræn upplýsingakerfi. Ég er einungis að vekja athygli á mikilvægi þess að allir séu meðvitaðir um þær hættur sem eru til staðar og þá ábyrgð sem hvílir á hverjum og einum að leggja sitt af mörkum til að auka öryggi.
Þátttaka almennings í upplýsingasamfélaginu er sennilega hvergi meiri en hér á landi. Þetta sýna m.a. kannanir á aðgengi og notkun Netsins. Þrátt fyrir þetta virðist sem meiri tregða sé á að nota Netið til viðskipta en víða annars staðar. Það þýðir að við nýtum okkur ekki það hagræði sem rafræn viðskipti geta boðið umfram hin hefðbundnu.

Ég er fullviss um það, að áður en langt um líður munu Íslendingar njóta kosta rafrænna viðskipta engu síður en aðrar þjóðir. Við verðum að vinna markvisst að því að greiða götu rafrænna viðskipta. Þar gegna stjórnvöld mikilvægu hlutverki en atvinnulífið er og verður áfram drifkraftur þessara breytinga. Að stjórnvöldum snýr fyrst og fremst að afnema lagalegar hindranir, tryggja öryggi og lögmæti viðskiptanna og vernd neytenda. Eitt mikivægasta skrefið í þessa átt hefur þegar verið stigið með lögum um rafrænar undirskriftir sem samþykkt voru á síðasta vorþingi. Framkvæmd þessara laga heyrir undir viðskiptaráðuenytið og svo verður einnig um rafræn viðskipti, skv.frumvarpi um rafræn viðskipti og rafræna þjónustu sem nú er í undirbúningi í ráðuneytinu. Frumvarpinu er m.a. ætlað að auka tiltrú á rafrænni þjónustu, t.d. með ákvæðum sem skylda þjónustuaðila til að veita upplýsingar um þá sjálfa og hvernig unnt er að komast í samband við þá.

Auk þessara mikilvægu réttarbóta er á vegum forsætisráðuneytis unnið að endurskoðun á stjórnsýslulögum með tilliti til rafrænnar stjórnsýslu og í fjármálaráðuneytinu er unnið að tillögum að skipulagi opinberra dreifilykla fyrir hverskonar rafræn samskipti þegnanna við ríkisvaldið. Þessi atriði eru í raun grunnforsendur þess að okkur takist að koma á virkri rafrænni stjórnsýslu, sem að mínu mati er lykilatriði til að auka framleiðni í opinberum rekstri og til að bæta þjónustu við almenning. Rafræn stjórnsýsla er einnig mikilvægur þáttur í byggðastefnu, þar sem hún bætir aðgengi að þjónustu hins opinbera og jafnar þannig stöðu landsmanna.
Ágætu fundarmenn.
Öryggismálin eru mér ofarlega í huga, ekki að ástæðulausu. Ég tel að framtíð rafrænna viðskipta og rafrænnar stjórnsýslu muni að verulegu leyti byggjast á því hvernig okkur tekst að efla öryggisvitund almennings. Við þurfum að koma okkur upp tölvukerfum og verkferlum sem gera okkur kleift að stunda rafræn viðskipti á öruggan hátt. Við verðum að geta sýnt viðskiptavinum okkar fram á það með óyggjandi hætti að viðskiptin séu byggð á alþjóðlega viðurkenndum öryggisstöðlum. Á þann hátt eflist okkur trú á getu okkar til að stunda örugg rafræn viðskipti og einnig skapast fullvissa hjá viðskiptavinum okkar á að svo sé í raun. Ávinningur þessa er tvennskonar. Í fyrsta lagi bætt innra öryggi fyrir tölvukerfi okkar og í öðru lagi bætt samkeppnisstaða á hinum alþjóðlega samkeppnismarkaði viðskiptanna.

Með þessum orðum lýsi ég ráðstefnuna rafræn framtíð setta og óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar hér í dag. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval