Gangsetning þriðju vélasamstæðu Nesjavallavirkjunar, 29.06.2001

29/6/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaaráðherra


Ávarp
við gangsetningu þriðju vélasamstæðu Nesjavallavirkjunar,
29. júní 2001

Borgarstjóri, góðir gestir

Það er mér sönn ánægja að afhenda hér í dag virkjunarleyfi fyrir þriðju vélarsamstæðu jarðvarmavirkjunarinnar á Nesjavöllum, en nýverið veitti Alþingi heimild til að stækka virkjunina í allt að 90 MW. Vígsla vélasamstæðunnar ber upp á sömu viku og 80 ára afmæli rafstöðvarinnar í Elliðaánum og er það vel við hæfi. Nú eru liðin rúm fjögur ár frá því að Hitaveitu Reykjavíkur var veitt leyfi til að reisa virkjun á Nesjavöllum til raforkuframleiðslu og hefur reynslan af rekstri hennar sýnt okkur að hægt er að nýta náttúruauðlindir okkar í sátt við umhverfið.

Virkjun jarðhita til raforkuframleiðslu hefur vaxið stöðugt og á síðasta ári nam raforkuvinnsla jarðvarmavirkjana rúmlega 17 prósentum af allri raforkuframleiðslu landsins. Með þessari stækkun á Nesjavöllum og hugmyndum um aðrar jarðvarmavirkjanir er lagður grunnur að enn frekari nýtingu jarðhita til raforkuframleiðslu. Á næstu árum er ekki ólíklegt að við munum sjá nýjar jarðvarmavirkjanir rísa og veg jarðhitans vaxa í raforkukerfinu.

Nýlokið er ráðstefnu um djúpboranir hér á landi. Þær hugmyndir sem nú eru uppi um að kanna jarðhitageymana enn frekar með djúpborunum og nota hærra hitastig vekur upp vonir um að líftími háhitasvæðanna muni lengjast. Fróðlegt verður að fylgjast með gangi djúpborunarverkefnisins og ánægjulegt að íslensk orkufyrirtæki og íslenskir vísindamenn skuli vera þar í fremstu röð.

En það er ekkert nýtt að við stöndum framarlega í þessum efnum. Á undanförnum árum hafa orkufyrirtækin tekið höndum saman um að markaðssetja erlendis þá þekkingu á nýtingu jarðhita sem til staðar er í landinu. Sá áhugi og ávinningur sem orðið hefur í þeim efnum færir okkur heim sanninn um það að við erum í fremstu röð á sviði nýtingar jarðhita. Aðrar þjóðir leita stöðugt meir til Íslendinga og er það vel.

Við höfum lengi gert okkur grein fyrir þeim auðlindum sem jarðhiti og fallvötn landsins eru. Stefna okkar er og hefur verið að auka nýtingu þessara orkulinda. Stóriðju- og virkjunarframkvæmdir áttu hvað stærstan þátt í að lyfta efnahagslífinu úr þeirri lægð sem það var í fram á miðjan síðasta áratug. Áframhaldandi framkvæmdir í orku- og stóriðjumálum eru mikilvægar fyrir vöxt efnahagslífsins og með þeim getum við vonandi viðhaldið þeim lífsgæðum sem við höfum tileinkað okkur.

Framundan eru nýir tímar í raforkumálum á Íslandi. Næsta vor má búast við að umhverfi orkufyrirtækja hafi breyst og að samkeppni verði hafin. Við sjáum að menn eru þegar farnir að bregðast við þessum boðuðu breytingum með sameiningu veitna, skipulagsbreytingum og framkvæmdum á borð við þá sem við erum að vígja hér í dag. Það er trú mín að sátt náist um þessar skipulagsbreytingar og að þrátt fyrir samkeppni í vinnslu og sölu raforku þá geti orkufyrirtæki landsins áfram unnið saman á ýmsum sviðum.

Ríki og sveitarfélög hafa í gegnum tíðina borið hitann og þungann af uppbyggingu í orkumálum og eru umsvif Reykjavíkurborgar gott dæmi um það. Orkuveita Reykjavíkur er í dag eitt stærsta orkufyrirtæki landsins og framsýni og drifkraftur þeirra sem því stýra og þar starfa ætti að vera öðrum til fyrirmyndar. Sem dæmi um framsýni má nefna þátttöku í að nýta metan frá sorphaugum og spillivarma frá iðjuverum til raforkuframleiðslu ásamt rannsóknum á notkun vetnis. Fyrirtækið hefur átt drjúgan þátt í því að byggja upp þann kjarna sem höfuðborgarsvæðið er í dag.

Ríki og borg hafa um langt skeið unnið saman að uppbyggingu í orkumálum. Segja má að samstarf ríkis og borgar hafi hafist með Sogsvirkjunum sem síðar leiddi til stofnunar Landsvirkjunar. Samstarf ríkisins, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun hefur verið drifkrafturinn í nýtingu fallvatna landsins til hagsbóta fyrir þjóðina alla og verður svo vonandi áfram.

Um leið og ég óska Orkuveitu Reykjavíkur innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga í starfsemi fyrirtækisins, bið ég Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra að koma hér upp og taka við virkjunarleyfinu.

Takk fyrir.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval