Ávarp á kynningarfundi um ný vaxtalög, 27.06.2001 -

27/6/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Kynning á nýjum vaxtalögum,
morgunverðarfundur á Hótel Sögu, 27. júní 2001
Ávarp ráðherra.

I.
Góðir fundargestir. Við gildistöku nýrra vaxtalaga er hollt að rifja upp hversu stutt er síðan að vextir voru gefnir frjálsir hér á landi. Fram til ársins 1987 voru í gildi lög um bann við okri, dráttarvexti o.fl. Seðlabankanum var þá heimilt að ákveða lágmarksvexti innlána og hámarksvexti útlána. Vextir í almennum viðskiptum manna á meðal máttu ekki vera hærri en almennir útlánsvextir banka og sparisjóða. Það var síðan ekki fyrr en með nýjum lögum um Seðlabankann og um viðskiptabanka á árunum 1985-86 sem að heimild til að ákveða vexti banka og sparisjóða færðist til þeirra sjálfra, að því undanskildu að dráttarvexti skyldi Seðlabankinn ákveða.

Árið 1987 voru sett lög um vexti sem komu í stað okurlaganna frá 1960. Með vaxtalögunum var staðfest almennt frelsi til samninga manna á milli um vexti, þó ekki um dráttarvexti.
Vaxtalögunum hefur síðan verið breytt sjö sinnum frá því að þau voru fyrst sett. Veigamesta breytingin var árið 1995 en þá var kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár bætt við lögin. Þá var mótuð sú stefna stjórnvalda að reyna að takmarka vægi verðtryggingar á skammtímaskuldbindingum en leggjast ekki gegn verðtryggingu á lengri tíma skuldbindingum kjósi aðilar að semja um verðtryggingu.
II.
Óhætt er að segja að bylting hafi orðið á íslenskum fjármagnsmarkaði frá því að vaxtalögin voru sett fyrir fjórtán árum. Þar má nefna afnám gjaldeyrishafta, efling hlutabréfamarkaðar, stofnun gjaldeyrismarkaðar, verulega aukningu fjárfestinga í erlendum verðbréfum, öflun lánsfjár ríkisins á markaði í stað fyrirgreiðslu hjá Seðlabankanum, aukna áherslu fyrirtækja á að afla lánsfjár með sölu skuldabréfa í stað hefðbundinna bankalána, aðild að EES sem hefur skapað færi fyrir erlenda aðila til að veita þjónustu hér á landi og svo mætti lengi telja.

Löggjöf á sviði fjármagnsmarkaðar hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum en vaxtalög að mestu staðið óhreyfð þrátt fyrir miklar breytingar á ytra umhverfi. Þó að reynslan af vaxtalögunum frá 1987 hafi verið góð og þau hafi reynst mikil réttarbót þá var engu að síður þörf á að einfalda þau og sníða þau betur að þeim aðstæðum sem nú ríkja. Af þessum sökum skipaði ég nefnd í apríl 2000 til að endurskoða vaxtalög nr. 25/1987. Reyndar hafði vinna við frumvarp til vaxtalaga staðið yfir í alllangan tíma innan ráðuneytisins áður en kom til þessa nefndarstarfs. Hlutverk nefndarinnar var að gera tillögu að breytingum á vaxtalögum til samræmis við réttarþróun erlendis en einnig að tryggja réttaröryggi og einfaldleika í framkvæmd.

Nefndin var skipuð
Benedikt Árnasyni, viðskiptaráðuneytinu,
Andra Árnasyni, tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands,
Benedikt Bogasyni, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti,
Eiríki Guðnasyni, tilnefndur af Seðlabanka Íslands og
Finni Sveinbjörnssyni, tilnefndur af Sambandi íslenskra viðskiptabanka og Sambandi íslenskra sparisjóða.
Starfsmaður nefndarinnar var Eyvindur G. Gunnarsson, þáverandi lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu.
Frumvarp sem byggt var á vinnu nefndarinnar var síðan lagt fram á Alþingi sl. vor og hlaut samþykki þingsins.

III.
Góðir fundargestir. Góður og traustur lagarammi fyrir töku vaxta og verðtryggingu er mjög mikilvægur fyrir hagkerfið. Með nýjum vaxtalögum er verið að skapa þennan trausta ramma fyrir aðila til að semja um vexti sín á milli. Ekki er hægt að leiða að því líkum að vextir breytist með tilkomu nýrra vaxtalaga. Það er einfaldlega ekki hlutverk vaxtalaga enda eru vextir frjálsir og vaxtastig ræðst af þjóðhagslegum stærðum. Ýmis ákvæði nýrra laga geta þó breytt vaxtamynduninni í þjóðfélaginu. Til dæmis er stefnt að því með nýjum lögum að aðilar semji um ákveðna vexti sín á milli í stað þess að miða við almennar vaxtaviðmiðanir sem Seðlabankinn hefur hingað til látið í té.

Þá er í vaxtalögunum ný ákvæði sem gera aðilum kleift að semja um dráttarvexti upp að ákveðnu marki. Hér er stigið ákveðið skref í átt að dráttarvaxtafrelsi en langur vegur er þó frá að hægt sé að segja að dráttarvextir hafi verið gefnir frjálsir. Ég er þeirrar skoðunar að fullkomið samningsfrelsi eigi ekki að gilda um dráttarvexti, a.m.k. ekki fyrir einstaklinga í viðskiptum við fyrirtæki. Til þess er samningsstaða neytenda gagnvart fyrirtækjum einfaldlega of veik. Um þessi og fleiri ný atriði vaxtalaga verður fjallað í erindunum hér á eftir.
Ég vonast til að þessi kynningarfundur viðskiptaráðuneytisins verði fundargestum til gagns og að ný vaxtalög muni reynast vel. Ég þakka fyrir. 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval