Ávarp á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða, 30.05.2001 -

31/5/01

Valgerður Sverrisdóttir
viðskiptaráðherra.


Ávarp á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða,
30. maí 2001.


I.
Góðir aðalfundargestir. Mikið framfaraspor var stigið á vormánuðum 1969 þegar samið var um almenna þátttöku launþega að lífeyrissjóðum með skylduaðild og fullri sjóðssöfnun. Þetta hlýtur öllum Íslendingum að vera orðið ljóst. Á undanförnum þremur áratugum hefur tekist að byggja upp afar gott lífeyriskerfi sem alþjóðastofnanir telja til mikillar fyrirmyndar. Með traustum lagalegum grundvelli, sem fékkst á árinu 1997 eftir ítarlega þjóðfélagsumræðu, munu lífeyrissjóðir verða meginuppistaðan í lífeyriskerfinu á þessari öld. Lífeyriskerfið mun byggjast á þremur stoðum í samræmi við viðurkennd alþjóðleg viðhorf á þessu sviði, þ.e. lágum grunnlífeyri almannatrygginga, lífeyrissjóðum og frjálsum lífeyrissparnaði.

Ég er þeirrar skoðunar að þjóðfélagsumræðan sem átti sér stað fyrir setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hafi verið ein sú gagnlegasta á síðustu árum og stuðlað að sátt um starfsemi lífeyrissjóðanna. Margir landsmenn vöknuðu af löngum dvala og fóru að huga að stöðu lífeyrisréttinda sinna. Óhætt er að fullyrða að ungt fólk í dag er meðvitaðra um nauðsyn lífeyrissparnaðar en foreldrar þeirra voru á sínum tíma, enda hefur stöðugleiki og uppgangur fjármagnsmarkaðar á síðustu tíu árum leitt til þess að hægt er að horfa lengra fram á veginn í stað skammtímahugsunar verðbólguáratuganna. Það er hins vegar nokkuð áhyggjuefni að ekki skuli fleiri en tæp 40% vinnandi fólks leggja til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað. Viðbótarlífeyrissparnaður með sínum hagstæðu skattahvötum hefur verið rækilega kynntur af lífeyrissjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum á undanförnum árum og þótt mikið hafi áunnist er enn nokkuð í land að almenningur nýti sér þetta hagstæða sparnaðarform til fullnustu.
II.
Ég ætla að gera fjármagnsmarkaðinn að umtalsefni hér í dag, lagaumhverfi hans og hlutverk ríkisins. Þó svo að reglusetning á sviði lífeyrissjóða heyri undir fjármálaráðuneytið er mikilvægt fyrir lífeyrissjóði að vera vel meðvitaðir um hina almenna stefnumörkun á sviði fjármagnsmarkaðar og fjármálaþjónustu sem iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti stendur fyrir. Þetta er augljóst þegar haft er í huga að lunginn af 570 milljarða króna eignum lífeyrissjóðanna er í markaðsverðbréfum.

Fjármagnsmarkaðurinn er dæmi um grein sem hefur blómstrað á undanförnum árum. Í raun má halda því fram að hagvöxtur síðustu fimm ára hefði verið mun minni ef breytingar á fjármagnsmarkaðnum hefðu ekki verið jafn örar og raun ber vitni. Það eru ekki einungis skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaðnum sem leitt hafa til þessa árangurs heldur ekki síður frumkvæði og nýjungar sem fylgt hafa hinni auknu samkeppni á markaðnum. Ungt og vel menntað fólk haslar sér völl í þessari atvinnugrein í síauknum mæli. Fólk sem menntað hefur sig í hinum ýmsu greinum erlendis finnur störf við sitt hæfi á íslenskum fjármagnsmarkaði. Þetta fólk skapar verðmæti með nýjum hugmyndum og ferskir vindar leika í kjölfarið um íslenskt atvinnulíf. Hinn einsleiti og niðurnjörvaði fjármagnsmarkaður heyrir því sögunni til og í staðinn hafa komið þekkingarfyrirtæki fólks með fjölbreyttan bakgrunn. Á sama tíma hafa fjármálafyrirtækin stækkað ört.
III.
Ríkið hefur um áratugaskeið verið ráðandi á íslenskum fjármagnsmarkaði þó mjög hafi dregið úr áhrifum þess á síðustu árum. Áður fyrr ákvað ríkið vexti í landinu og jafnframt hvernig lífeyrissjóðir skyldu ráðstafa fé sínu svo dæmi séu tekin. Þetta er að sjálfsögðu liðin tíð.

Ítök ríkisins eru samt sem áður sterk. Ríkið á ennþá meirihluta í tveimur af þremur viðskiptabönkum landsins. Þó mikið verk sé enn óunnið í þeim efnum verður að taka með í reikninginn að ríkið hefur nú þegar selt nær helming eigna sinna á fjármagnsmarkaði.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi almennt ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðlilegum hætti og virk samkeppni er fyrir hendi. Er þetta í samræmi við viðtekin sjónarmið í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Ríkisviðskiptabankarnir áttu rætur sínar að rekja til þess tíma þegar takmarkað framboð var á fjármagni og því talið nauðsynlegt að ríkið hlutaðist til um þessa starfsemi og tæki jafnframt áhættuna af henni. Nú er þessi staða ekki lengur fyrir hendi.

Einkarekstur banka er meginreglan í hinum vestræna heimi. Í flestum löndum Evrópu er löng saga ríkisrekinna banka en nú er helst um slíkt að ræða í Þýskalandi og Austurríki. Umfangsmiklar einkavæðingar hafa verið á Ítalíu og Frakklandi á liðnum árum. Annars staðar á Norðurlöndunum heyrði ríkisrekstur banka til undantekninga þar til fjármálakreppa dundi yfir fyrir um áratug síðan. Þar hafa flestir bankar sem ríkið tók yfir verið seldir aftur. Norska ríkið á þó enn meirihluta í Den norske bank en stefnt er að sölu hlutabréfa á þessu ári til að koma eigninni niður í 33%.

Nú hefur fengist heimild Alþingis til að selja allan hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka. Stefnt er að því að sala á eftirstandandi hlut ríkisins hefjist á þessu ári og ljúki fyrir lok kjörtímabilsins árið 2003. Gera verður þann fyrirvara að sala á hlutabréfum hlýtur ætíð að taka mið af aðstæðum á hlutabréfamarkaði, öðrum þjóðhagslegum aðstæðum og þeim mögulegu sölutækifærum sem til staðar eru hverju sinni. Því er ekki hægt að ákveða útboð hlutabréfa með löngum fyrirvara.

Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um sölu fyrirtækja í eigu ríkisins verður lögð áhersla á sölu til almennings og tilboðssölu. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu mun gera tillögur til viðskiptaráðherra um fyrirkomulag sölu til almennings og tilboðssölu.

Einnig er gert ráð fyrir að kannaður verði áhugi kjölfestufjárfesta um kaup á stórum hluta í bönkunum. Í því sambandi verði sérstaklega hugað að fjárfestingu erlends fjármálafyrirtækis í bönkunum. Við val á slíkum fjárfesti verði tekið mið af verklagsreglum um einkavæðingu.

Það er óskandi að lífeyrissjóðir muni telja að það þjóni hagsmunum sjóðsfélaga sinna að taka þátt í þeim stóru einkavæðingarverkefnum sem framundan eru. Ef litið er til breytinga á eignasamsetningu sjóðanna síðasta áratug er auðsætt að þeir hafa lagt á það aukna áherslu að kaupa hlutabréf og minnka vægi íbúðarlána. Eftir að fjármagnsflutningar urðu frjálsir hófst erlend eignasöfnun af krafti. Þessi mikla erlenda sókn er rekin áfram af viðleitni til að dreifa áhættu, vonum um hagstæð kauptækifæri ytra og sterkri stöðu krónunnar fyrir mitt síðasta ár. Nú hafa mál snúist þannig að hægt hefur á erlendri eignasöfnun lífeyrissjóðanna, m.a. vegna gengislækkunar krónunnar og verðþróunar á erlendum mörkuðum. Aftur á móti hafa innlend hlutabréfakaup verið fremur hæg og hlutdeild þeirra staðið í stað á síðustu þremur árum.

Önnur mikilvæg skipulagsbreyting á íslenskum fjármagnsmarkaði sem náðist í gegn á vorþingi er heimild til sparisjóðanna að breyta sér í hlutafélög. Mikilvægt er að sparisjóðirnir fái tækifæri til að vaxa og dafna í þessu nýja umhverfi íslensks fjármagnsmarkaðar. Sparisjóðirnir hafa lengi haft hærra eiginfjárhlutfall en viðskiptabankarnir. Á síðustu árum hafa sparisjóðirnir hins vegar vaxið hratt og eiginfjárhlutfall þeirra lækkað að sama skapi. Með stækkandi markaði, alþjóðavæðingu og harðnandi samkeppni hefur þörfin fyrir eigin fé orðið brýnni. Það er því orðið brýnt að sparisjóðum verði gefinn kostur á að gefa út markaðsverðbréf til að geta keppt á jafnræðisgrunni við önnur fyrirtæki á nútíma fjármagnsmarkaði. Af þessum sökum er ég hlynnt því að sparisjóðum verði heimilað að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag.

IV.
Góðir áheyrendur. Mér hefur orðið tíðrætt um stöðu ríkisins sem eiganda viðskiptabanka. En ljóst má vera að því hlutverki fer senn að ljúka. Hlutverk ríkisins er og verður fyrst og fremst að bæta samkeppnishæfni fjármagnsmarkaðarins og gæta hags viðskiptamanna fjármálafyrirtækja. Af nógu er að taka í því efni því markaðnum fleygir fram og fjármálalöggjöf sömuleiðis.

Við þurfum að nýta okkur fjármálalöggjöfina til að búa til sem bestar aðstæður fyrir íslensk fjármálafyrirtæki. Með því á ég ekki við að regluverk sem þessi fyrirtæki búa við sé sem léttbærast fyrir þau. Þau ríki sem þannig hafa búið um hnúta njóta almennt ekki trausts. En regluverkið verður að vera skilvirkt og réttlátt. Það getur ekki verið markmið í sjálfu sér að regluverkið sé sem umfangsmest.

Regluverk á fjármagnsmarkaði er til muna meira heldur en í flestum öðrum atvinnugreinum. Það kemur til af mikilvægi fjármagnsmarkaðarins í hagkerfinu. Fjármálafyrirtæki geyma sparnað almennings, veita almenningi og fyrirtækjum lán og ráðgjöf og sinna greiðslumiðlun. Fjármálafyrirtæki eiga allt sitt undir trausti viðskiptavina. Viðskiptavinir fyrirtækjanna verða að geta treyst því fullkomlega að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi en ekki hagsmunir fyrirtækisins sjálfs, starfsmanna þess eða aðrir hagsmunir. Þetta er lykilatriði. Gjaldþrot eins fjármálafyrirtækis hefur víðtækari áhrif á virkni hagkerfisins heldur en í öðrum atvinnugreinum. Með umfangsmiklu eftirliti og ítarlegri reglusetningu reyna stjórnvöld því að stuðla að sem mestu öryggi í starfsemi lánastofnana.

Grunnur flestra laga á fjármagnsmarkaði var að mestu mótaður um það leyti sem við Íslendingar skrifuðum undir Samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það var mjög stórt skref á sínum tíma. Við uppfylltum tilskipanir ESB á mjög skömmum tíma og höfum síðan verið að byggja ofan á þann grunn. Nú þegar markaðurinn er orðinn þroskaðri er kominn tími á að endurskoða grunninn.

Nú er að störfum sérstök bankalaganefnd sem ætlað er að endurskoða bankalöggjöfina og gera hana einfaldari og skilvirkari. Í því sambandi er nefndin sérstaklega að skoða hvort æskilegt sé að sameina öll ákvæði er varða stofnun og starfsemi viðskiptabanka, sparisjóði, fjárfestingarbanka og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu í eina heildarlöggjöf um fjármálafyrirtæki. Nefndin tekur í starfi sínu sérstakt tillit til alþjóðlegra strauma en mjög víða er einmitt um þessar mundir verið að vinna að sameiningu löggjafar á fjármagnsmarkaði.
V.
Ég vil nú víkja stuttlega að EES-samningnum. Það er engin spurning um það í mínum huga að samningurinn hefur orðið íslenskum fjármagnsmarkaði til góðs. Við getum treyst því að regluumhverfi íslensks fjármagnsmarkaðar er ekki ólíkt því sem gengur og gerist meðal annarra Evrópuríkja. Nýjungar í fjármálalöggjöf innan sambandsins eru strax teknar upp í íslenskan rétt og við njótum góðs af því sem og annarri vinnu sem frá ESB kemur.

Samstarf Evrópusambandsins á sviði fjármagnsmarkaðar er sífellt að verða umfangsmeira. ESB hefur gefið út framkvæmdaáætlun til næstu fimm ára um aðgerðir sem það hyggst grípa til á sviði fjármagnsmarkaðar. Áætlunin er mjög umfangsmikil og ber þess merki að sambandið telur að með tilkomu evrunnar og Netsins sé loksins unnt að koma á hinum sameiginlega innri markaði á sviði hefðbundinnar bankaþjónustu. Á síðustu árum hefur myndast skilvirkur innri markaður í fjárfestingarbankastarfsemi en hið sama hefur ekki verið uppá tengingnum hvað varðar viðskipti við heimili og lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er hins vegar að breytast. Sú breyting mun hafa mikil áhrif á hagkerfi Evrópuríkja. Bankar búa sig undir þessa samkeppni með samrunum og veita gríðarlegum fjármunum í rannsóknir og þróun í upplýsingatækni.

Við munum á næstu árum þurfa að uppfylla fjöldamargar tilskipanir á sviði fjármagnsmarkaðar. Margar þeirra snerta rafræn viðskipti á þessu sviði, svo sem tilskipanir um rafeyri og fjarsölu. Allt er þetta gert til að auðvelda framþróun fjármálaþjónustu yfir landamæri. En ESB hyggst ganga lengra. Nú eru hugmyndir uppi um að freista þess að samræma skattlagningu á þessu sviði en um það verða harðvítug pólítísk átök innan sambandsins. Annað mikilvægt mál fyrir okkur Íslendinga eru hugmyndir um að setja tilskipun um starfsemi og fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða. Sú tilskipun mun þó að öllum líkindum aðeins ná til viðbótarlífeyrissparnaðar hér á landi en ekki til skyldutryggingarinnar.
VI.
Góðir aðalfundargestir. Um þessar mundir á nær allur einkasparnaður sér stað í formi lífeyrissparnaðar en annar hreinn einkasparnaður hefur nær horfið. Ráðstöfunarfé sjóðanna til kaupa á verðbréfum og annarri fjárfestingu verður líklega um 170 milljarðar á þessu ári, þar af verða líklega 80 milljarðar í formi nýrra iðgjalda og fjárfestingartekna.

Eins og þessar tölur sýna svo ekki verður um villst eru lífeyrissjóðirnir risar á íslenskum fjármagnsmarkaði. Framgangur verðbréfamarkaðarins ræðst af miklu leyti af því hvernig þeir ráðstafa fé sínu. Í krafti stærðar sinnar mun þátttaka þeirra í íslensku atvinnulífi án efa aukast frekar á næstu árum og vonast ég til að þátttaka þeirra í atvinnurekstri verði ekki síður á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Ábyrgð lífeyrissjóða er mikil sem og áhrif þeirra á þróun fjármagnsmarkaðar. Lífeyrissjóðir ávaxta framtíðarlífeyri Íslendinga og þurfa í hvívetna að gæta hagsmuna sjóðsfélaga. Það er mikilvægt fyrir lífeyrissjóði sem og önnur fjármálafyrirtæki að gæta ítrustu hlutlægni í störfum sínum og huga að trúverðugleika sínum. Það er jafn mikilvægt að fyrir lífeyrissjóði að framfylgja ítrustu reglum til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstri og það er fyrir verðbréfafyrirtæki að framfylgja reglum um aðskilnað einstakra starfssviða.

Þó ágæt sátt hafi náðst um setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er líklegt að einstakir hlutar laganna muni verða áfram mjög til umræðu. Þannig er líklegt að heimildir til fjárfestingarstefnu verði áfram til umræðu og þá ekki síður umræða um áhrif eða áhrifaleysi hins almenna sjóðfélaga og hvernig staðið er að vali á stjórnarmönnum. Um þessi atriði ríkir ekki sátt.

Góðir gestir. Ég vil að endingu þakka Landssamtökum lífeyrissjóða fyrir að bjóða mér til þessa fundar. Ég óska lífeyrissjóðum allra heilla í mikilvægum störfum sínum. Ég þakka fyrir.


 

Valgerður Sverrisdóttir






Stoðval