Ávarp á ársfundi RARIK, 18.05.2001 -

28/5/01

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp
á ársfundi RARIK
á Blönduósi 18. maí 2001

Ágætu ársfundarfulltrúar og gestir!

Sú öld er nýlega hefur kvatt færði okkur Íslendinga inn í nútímann á flestum sviðum mannlífsins og varð tímabil meiri breytinga en allar hinar fyrri tíu aldir Íslandssögunnar samanlagt. Þjóðfélagið breyttist frá örbirgð til allsnægta á þessum árum. Þetta má að verulegu leyti þakka aukinni nýtingu þjóðarinnar á náttúrulegum auðlindum sínum, bæði gjöfulum fiskimiðum og orkulindum. Hraðfara tækniþróun og þekking á eðli þessara auðlinda er vitaskuld forsenda fyrir hagkvæmri nýtingu þeirra og þeim framförum sem hér urðu á öldinni.. Aukin nýting orkulindanna mun áfram bæta lífsgæði þjóðarinnar og mun því fyrirsjáanlega verða einn af hornsteinum aukins hagvaxtar hér á landi í framtíðinni.

Íslendingum varð ljóst snemma á síðustu öld að landið bjó yfir miklum orkulindum. Rafvæðing landsins hófst ekki að marki fyrr en komið var fram á fjórða áratug aldarinnar og beindist einkum að þéttbýlinu. Með hinu mikla átaki við rafvæðingu landsins á árunum 1950-1965 og byggingu virkjana var lyft grettistaki og á þeim tíma var þetta forgangsverkefni hverrar ríkisstjórnar. Á árunum 1974-1984 var nýtt framfaraspor stigið með byggingu byggðalínu sem stuðlað hefur að mikilli hagkvæmni í rekstri raforkukerfisins, jafnað aðgengi landsmanna að flutningskerfinu og stuðlað að jöfnun raforkuverðs. Á þessu sviði vorum við að sumu leyti framar mörgum þjóðum í Evrópu sem nú á síðustu árum hafa unnið við að tengja saman einstök orkuveitusvæði sín og er í raun ein forsenda þeirra miklu breytinga er þar hafa orðið á raforkumarkaðnum á þessum tíma.
Með þessu átaki má heita að lokið hafi tímabili innfluttra orkugjafa til raforkuvinnslu hér á landi. Á árunum 1979-1980 var gert átak við að auka rafhitun í strjálbýli í kjölfar olíukreppunnar sem leiddi til þess að víða þurfti verulega að styrkja og endurbyggja dreifikerfið og nýta jarðhita í auknu mæli. Er nú svo komið að um 98% húsnæðis þjóðarinnar er hitað með hreinum orkugjöfum, jarðhita eða rafmagni. Þetta átak hefur vakið eftirtekt nú á síðustu tímum erlendis. Öðrum þjóðum finnst við hafa með þessu átaki sýnt forsjálni og fyrirhuggju og þessar miklu fjárfestingar hafa skilað sér aftur í tryggu og öruggu raforkukerfi auk hinna jákvæðu umhverfisáhrifa sem umbreytingin fól í sér.

Raforkuflutningskerfi landsins hefur verð byggt upp til að tryggja öruggan flutning raforku til allra landsmanna og einnig til að anna orkuþörf stóriðjufyrirtækja. Óhjákvæmilegt er í stóru og orkuríku landi að byggja flutningskerfi þannig upp að unnt sé að ráðast í hagkvæmar virkjanir fjarri þeim svæðum þar sem raforkunotkunin er mest, þetta hefur ótvírætt skilað sér í hagkvæmu heildarflutningskerfi raforku. Í dag stöndum við hins vegar frammi fyrir því að huga þarf að endurbyggingu byggðalínu að verulegum hluta, að minnsta kosti þarf að auka verulega raforkuflutning milli Norðurlands og Suðvesturlands í náinni framtíð. Við þurfum áfram að huga að þeim markmiðum er fólust í samtengingu milli landssvæða og styrkja flutningskerfið í takt við tímann.

Hefðbundin viðhorf til raforkumála erlendis hafa verið að breytast. Hér áður fyrr var það viðtekin skoðun að hið opinbera gegndi lykilhlutverki á öllum sviðum raforkumála vegna þess að markaðslausnir ættu þar ekki við, meðal annars vegna einkaréttar í starfsemi af þessu tagi. Á síðustu árum hafa hins vegar þróast aðferðir þar sem markaðsöflum hefur verið beitt í vinnslu og sölu raforku. Þessar aðferðir hafa í aðalatriðum reynst vel og er nú almennt talið að meiri árangur náist að jafnaði í vinnslu og sölu þar sem samkeppni ríkir.
Þessi nýju sjónarmið og reynslu annarra er sjálfsagt að færa sér í nyt á Íslandi þótt hér eins og annars staðar þurfi jafnframt að taka mið af aðstæðum. Þetta verður best gert með því að endurskipuleggja raforkubúskapinn á núverandi grunni með markaðssjónarmið að leiðarljósi þar sem við á..

Þróun raforkumarkaðar í Evrópu hefur almennt byggst á tilskipun Evrópusambandsins um innri markað raforku. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar árið 1999 varð tilskipunin hluti af EES-samningnum og er Ísland skuldbundið til að innleiða efni tilskipunarinnar í íslenska löggjöf fyrir 1. júlí 2002. Aðskilnaður samkeppnis- og einokunarþátta er þar höfuðatriði og þetta leiðir hugann að fyrirsjáanlegum breytingum í raforkuumhverfi hér á landi á næstu árum.

Unnið hefur verið að stefnumörkun á framtíðaskipulagi raforkumála á Íslandi um nokkurra ára skeið. Á fyrri hluta árs 1999 voru lögð fram til fyrstu kynningar drög að frumvarpi til nýrra raforkulaga sem byggðust að verulegu leyti á niðurstöðum nefndar um skipan orkumála sem lauk störfum í október árið 1996 og þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi í lok árs 1997. Markmið með nýjum raforkulögum er að auka þjóðhagslega hagkvæmni í nýtingu orkulindanna, og stuðla að öflugra atvinnulífi og styrkingu byggðar í landinu um leið og tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða og landnytja. Ein meginbreyting í drögum að nýjum raforkulögum er sú að samkeppnisþættir í starfsemi orkufyrirtækjanna, þ.e. vinnsla og sala verður aðskilin frá starfsemi sem nýtur einkaréttar, þ.e. flutnings og dreifingar.

Við gerð raforkulagafrumvarpsins hefur verið reynt að taka mið af þekkingu og reynslu þeirra er gerðu athugasemdir við fyrstu frumvarpsdrögin auk fjölda hagsmunaaðila er komu á fund nefndarinnar sem frumvarpið samdi. Einnig hefur verið horft til annarra þjóða er reynslu hafa af þeim breytingum sem orðið hafa í greininni á undanförnum áratug, einkum Norðurlandaþjóðanna. Breytingar á raforkulagaumhverfi verða einnig að taka mið af þeirri staðreynd að við eigum miklar endurnýjanlegar okulindir og ný skipan raforkumála þarf því að stuðla að og örva áframhaldandi nýtingu orkulindanna um leið og við virkjum markaðsöflin til að auka hagkvæmni í orkubúskapnum. Raforkulagafrumvarpið hefur nú verið lagt fram á Alþingi til kynningar, en óvíst er hvort því verður vísað til nefndar eftir 1. umræðu eins og upphaflega stóð til. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram aftur í upphafi næsta þings á hausti komanda og og ný raforkulög verði samþykkt fyrir áramót.

Þótt einsýnt virðist í hvaða átt beri að halda er heppilegasti vegurinn oft vandfundinn á þessu sviði Fyrir vikið er ráðlegt að stilla breytingum í byrjun í hóf. Við blasir að byrja þarf á því að skapa forsendur fyrir samkeppni með því að aðskilja einkasölu- og samkeppnisþætti og koma á frelsi til viðskipta með raforku í áföngum. Í framhaldi af því er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að samkeppni geti þróast eðlilega á þeim sviðum þar sem hún á við og að efla eftirlitskerfið á sviðum einkaréttar, þ.e.a.s. við raforkuflutning og dreifingu.

Það er ljóst að gera þarf verulegar breytingar á lögum um raforkufyrirtæki landsins í kjölfar nýrra raforkulaga. Endurskoða þarf orkulögin, sem fjalla m.a. um hlutverk Orkustofnunar og Rafmagnsveitu ríkisins, einnig þarf að gera breytingar á lögum um rannsóknir og auðlindir í jörðu þannig að þau lög nái einnig til rannsókna á vatnsorku landsins og loks ber að nefna vatnalögin frá 1923, en heildarendurskoðun þeirra fer nú fram á vegum iðnaðarráðuneytisins. Þá hef ég nýlega ákveðið að leggja fram á hausti komanda sérstakt frumvarp um hitaveitur, sem tengist }beint gerð nýrra raforkulaga. Nýlega hafa verið samþykkt á Alþingi ný lög um Hitaveitu Suðurnesja þar sem formi fyrirtækisins er breytt í hlutafélag, og frumvarp liggur fyrir Alþingi um samskonar breytingu á Orkubúi Vestfjarða, en óvíst er enn um afdrif þess á yfirstandandi þingi.

Ein forsenda fyrir breyttu skipulagi raforkumála er að tryggja þarf jafnræði og sömu starfsskilyrði milli fyrirtækja en ekki er þó gert ráð fyrir að fyrirtækin í greininni verði þvinguð inn í hlutafélagsform. Sérstök nefnd á vegum fjármálaráðuneytis vinnur nú að tillögugerð um að tryggja skattalegt jafnræði raforkufyrirtækja. Önnur nefnd, ekki síður mikilvæg fyrir RARIK, hefur nýlega lokið störfum, en hennar hlutverk var að gera tillögur um á hvern hátt dreifiveitum yrðu bættar óarðbærar rekstrareiningar, sem þær væru lagalega skuldbundnar til að reka. Eins og kunnugt er hafa þessar einingar valdið því að skuldasöfnun hefur orðið í tímans rás hjá dreifiveitum í strjálbýli, sem hefur leitt til þess að ríkið hefur þurft að yfirtaka hluta þessara skulda þegar í óefni hefur verið komið. Jafnframt hafa viðskiptavinir RARIK í þéttbýli orðið að bera hluta þessa kostnaðar með hærra orkuverði en ella væri þar eð sama verð hefur gilt um verð í þéttbýli og dreifbýli.Í nýju raforkuumhverfi gengur slíkt fyrirkomulag ekki upp. Nefndin leggur því til að ríkið leggi fram árlega allt að 500 millj. kr. í því skyni að bæta dreifiveitunum upp óarðbærar rekstrareiningar kerfisins og tekna yrði aflað annaðhvort af fjárlögum eða með sérstöku álagi á framleidda orku til almennra nota. Eðlilegt væri að afla tekna til slíks af almennu skattfé eins og gert er með flestar aðrar svipaðar aðgerðir. Verði farin sú leið að leggja álag á raforkuframleiðslu myndi það hins vegar þýða hækkun á raforkuverði til almennra nota um 16-17 aura/kWst. Hér er um gífurlega mikilvægt mál að ræða fyrir RARIK og landsbyggðina, sá klafi sem viðvarandi hallarekstur árum saman hefur haft á starfsemi fyrirtækisins hefur hamlað eðlilegri endurnýjun dreifikerfisins og jafnvel komið niður á viðhaldi þess.
Ljóst er að ný raforkulög hafa veruleg áhrif á starfsemi flestra raforkufyrirtækja og þurfa þau að aðlaga sig að nýrri hugsun og breyttu umhverfi. Því skal engan undra þótt ágreiningur skuli vera um það á hvern hátt best sé að verki staðið. Ég veit að hjá RARIK hafa verið gerð drög að breytingum á skipulagi fyrirtækisins í því skyni að aðlaga fyrirtækið að breyttu raforkuumhverfi og verður væntanlega fjallað um það hér á eftir. Á undanförnum 10 árum hafa einnig verið uppi hugmyndir hjá RARIK um að breyta fyrirtækinu í hlutafélag og tel ég eðlilegt að þeirri vinnu verði fram haldið.. Sú jákvæða umræða er fram fór um þetta mál fyrir nokkrum árum koðnaði niður og ég fagna því að menn hugi nú að slíku rekstrarformi.
Ég tel hinsvegar mikilvægast að hraðað verði þeim skipulagsbreytingum sem fyrirsjánlegt er að gera þarf á fyrirtækinu í samræmi við helstu ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins og raforkulagafrumvarpsins þannig að fyrirtækið sé vel í stakk búið þegar kemur að nýjum rafokulögum

Eins og flestum er kunnugt var á síðasta ári unnin hagkvæmniathugun á sameiningu RARIK og Norðurorku á Akureyri. Þessi athugun var unnin á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar um að ganga til samstarfs við Akureyrarbæ um slíka athugun. Niðurstaða hennar leiddi í ljós að sameining myndi verða hagkvæm og hefur ríkisstjórnin samþykkt að bjóða Akureyrarbæ til viðræðna um husanlega sameiningu RARIK og Norðurorku. Í framhaldinu hafa aðilar skipað viðræðunefndir er hafa það hlutverk að kanna ítarlegar hagkvæmni sameiningar og er þá miðað við að sameinað fyrirtæki tæki til starfa í nýju raforkuumhverfi.
Flest bendir til þess að í nýju skipulagi orkumála verði staða RARIK sterkari en hún hefur verið fram til þessa. Hér að framan greindi ég frá því að óarðbærar rekstrareiningar í rekstri dreifiveitna verður bættur sérstaklega og mun það le}tta verulega undir rekstri fyrirtækisins. RARIK er í dag langstærsti dreifingaraðili raforku hér á landi utan höfuðborgarsvæðisins og styrkur þess liggur í raforkuflutningi og dreifingu, en nauðsynlegt er að stefna að aukinni raforkuframleiðslu á næstu árum. Að mínu mati verður að efla þann þátt í starfseminni á næstu árum til að fákeppni verði ekki algjör á markaðnum við framleiðslu raforku. Ég tel að það myndi efla og styrkja starfsemi fyrirtækisins og landsbyggðarinnar ef tækist að mynda sterkt orkufyrirtæki með sameiningu Norðurorku og RARIK. Enginn veit enn hvort af þessum áformum verður eða ekki. Umhverfi raforkufyrirtækja mun vafalaust breytast hér á landi á næstu árum eins og gerst hefur erlendis en víðast hvar hafa þau stækkað til að standast samkeppni og auka hagræðingu í rekstri. Nýtt raforkuumhverfi mun leiða til breytinga hjá RARIK sem öðrum fyrirtækjum alveg óháð því hvar höfuðstöðvar fyrirtækisins verða. Ég vil ítreka að stefna mín er að efla og styrkja starfsemi fyrirtækisins í framtíðinni. Ég geri mér grein fyrir þeim mannauð, reynslu og þekkingu sem er að finna í fyrirtækinu og harma það ef hugmyndir um sameiningu RARIK og Norðurorku hafa valdið óróa meðal starfsfólks. Vil ég eindregið hvetja starfsmenn til að halda ró sinni og trúa á framtið fyrirtækisins..

Ég get ekki látið hjá líða að minnast í lokin á eitt mál sem skiptir dreifbýlið miklu máli og unnið hefur verið að. Þar á ég við ályktun Alþingis um að ríkisstjórnin skipi nefnd til að gera úttekt á því hve mikið vanti af raflínum fyrir þriggja fasa rafmagn á landinu. Einnig er nefndinni ætlað að meta þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn og leggja mat á kostnað við að tryggja öllum landsmönnum aðgang að því. Allir sem þekkja til atvinnuhátta á landsbyggðinni vita hve brýnt þetta mál er, og eins og málum er háttað í dag er veruleg mismunun á aðstöðu manna eftir svæðum hvað varðar aðgengi að þriggja fasa rafmagni. Í samræmi við ályktun Alþingis skipaði ég nefnd til að fjalla sérstaklega um þetta mál og koma fram með tillögur hvernig bæri að svara ályktuninni. Nefndin hefur ritað öllum sveitastjórnum landsins bréf þar sem óskað er eftir að þær forgangsraði framkvæmdum innan þeirra marka til að auðvelda endurnýjun raforkukerfisins. Svör hafa verið að berast undanfarið og mun nefndin skila tillögum sínum í haust.

Ágætu ársfundarfulltrúar!
Eins og ég hef rakið hér að framan er unnið að margvíslegum breytingum í raforkumálum þjóðarinnar til að mæta nýjum kröfum og sjónarmiðum nýs tíma, okkar bíða mikilvæg verkefni á komandi misserum, eins og ég hef getið um hér að framan. Þó svo að menn kunni að greina á um leiðir horfum við sem hér erum til sömu framtíðarhugsjónar. Saga síðustu áratuga segir okkur hvaða sóknarfæri felast í nýtingu orkulinda þjóðarinnar. Með áframhaldandi nýtingu þeirra erum við að stuðla að hagsæld komandi kynslóða og framtíð barna okkar.

Ég vil að lokum þakka fyrir að fá tækifæri til að vera hér með ykkur í dag og þakka að lokum stjórn Rafmagnsveitna ríksins, rafmagnsveitustjóra og starfsliði hans gott samstarf í hvítvetna.

Ég þakka áheyrnina

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval