Ávarp á þingi Samiðnar, 19.04.2001

25/4/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðhera

Ávarp iðnaðarráðherra á reglulegu þingi Samiðnar,

fimmtudaginn 19. apríl 2001, kl. 16.00,

á Grand Hótel, Reykjavík.


Formaður,

góðir þingfulltrúar,

utländska gäster, som jag hoppas att forstår det mesta av min fornsvenska.

Gleðilegt Sumar!

Íslenskt atvinnulíf og samfélagið allt hefur gengið í gegnum miklar breytingar hin síðustu ár. Fyrir marga hafa þessar breytingar ógnað viðteknum venjum og hefðbundnum gildum - en fyrir flesta hafa breytingarnar verið hvati til nýrrar sóknar sem fyrri staða gaf ekki tilefni til.

Þessar breytingar eiga rætur að rekja til örra framfara í vísindum og tækni, sem við Íslendingar höfum náð að tileinka okkur með undragóðum árangri. Þessi árangur hefur aukið orðstír okkar á erlendum vettvangi og vakið athygli hinna stærri þjóða á að hér býr dugmikil og framsækin þjóð.

Atvinnulífið hefur verið í fararbroddi þessara breytinga og mun verða það áfram. Hlutverk stjórnmálamanna verður aftur á móti fyrst og fremst að marka leikreglurnar og skapa hina ytri umgjörð.

Í nýútkomnu riti, "Megináherslur iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2001-2003", hef ég sett fram helstu markmið í starfsemi ráðuneytanna næstu þrjú árin. Þar er þekkingin leidd til öndvegis sem lykill að kröftugri atvinnustefnu.

Meðal markmiðanna er aukin fjölbreytni og bætt samkeppnishæfni atvinnulífsins en atvinnulífið hefur breyst mikið á síðustu árum. Breytingarnar hafa fyrst og fremst verið knúnar áfram af auknu frelsi í viðskiptum og hröðum framförum í vísindum og tækni, einkum upplýsinga- og fjarskiptatækni. Þetta hefur veitt íslensku atvinnulífi mörg tækifæri til að skapa fjölbreytt störf á nýjum og krefjandi sviðum og til að taka með virkum og hagkvæmum hætti þátt í alþjóðlegum viðskiptum.

Ein af mörgum leiðum að markmiðinu um aukna fjölbreytni og samkeppnishæfni er að veita nýjum þekkingarsviðum á borð við líftækniiðnað sérstakt brautargengi til að þróast í arðvænleg fyrirtæki og efla markaðsstarf á sviði erlendrar fjárfestingar, einkum með áherslu á fjárfestingarkosti á landsbyggðinni. Segja má að stjórnvöld hafi á sínum tíma stuðlað að bættum kjörum hér á landi með gerð samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og síðan starfi á grundvelli hans. Góður árangur byggist í reynd á aukinni samkeppnishæfni landsins, þannig að leggjast verður vel á árarnar.

Það er einnig meðal markmiða minna sem ráðherra, sem fer með byggðamál, að treysta búsetu á landsbyggðinni. Þar munu hefðbundnir atvinnuvegir gegna áfram veigamiklu hlutverki í hagkerfinu. Nýjar atvinnugreinar geta hins vegar skapað ný störf, m.a. afleidd störf. Plöntulíftækni og sjávarlíftækni verður gefinn sérstakur gaumur í þeim tilgangi þannig að þau geti orðið undirstaða nýrrar atvinnustarfsemi í dreifbýlinu. Þá mun upplýsinga- og fjarskiptatækni gegna veigamiklu hlutverki fyrir þróun búsetu. Byggðastofnun er ætlað að vera forystuafl við uppbyggingu nýs atvinnulífs á landsbyggðinni með framsækinni byggðastefnu. Nefna má að nýlega var stofnað frumkvöðlasetur á Norðurlandi og stefnt er að stofnun frumkvöðlasetra á sviði líftækniiðnaðar á Akureyri, þar sem byggt verður á nýtingu líffræðilegra erfðaauðlinda sjávar, og á Hvanneyri á sviði líftækniiðnaðar sem byggir á hagnýtingu líffræðilegra erfðaauðlinda landbúnaðar.

Þegar við tölum um bætt kjör til sjávar og sveita má ekki gleyma þátttöku kvenna í atvinnurekstri. Ég legg mikla áherslu á stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki en 98% fyrirtækja í Evrópu falla í þennan flokk. Þessi fyrirtæki eru grundvöllur efnahagslífsins. Þar er mest verðmætamyndun og nýsköpun og flest störf en fyrirtæki kvenna falla mörg hver undir þessa skilgreiningu. Rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki þar sem konur eru við stjórn fara síður í þrot en fyrirtæki karla. Stuðningur sem leiðir til fjölgunar fyrirtækja kvenna á samkvæmt þessu að treysta stöðu íslensks atvinnu- og efnahagslífs. Hefur þetta verið eitt af áherslumálum iðnaðarráðuneytisins, m.a. í tengslum við stofnun Félags kvenna í atvinnurekstri og stuðning við rekstur félagsins í tengslum við IMPRU á vegum Iðntæknistofnunar Íslands. Enn er á brattann að sækja enda reka konur einungis 18% íslenskra fyrirtækja sem er lágt hlutfall miðað við önnur lönd. Á árinu 1999 störfuðu um 4.500 manns við upplýsingaiðnaðinn en hann er í örum vexti og tengist upplýsingasamfélagi framtíðarinnar.

"Að efla veg iðnmenntunar" er meðal hlutverka Samiðnar og er það mikilvægt markmið. Rétt er að benda á að á þessu sviði verða þó einatt miklar breytingar. Á sínum tíma þurfti iðnaðarráðuneytið þannig að beita sér fyrir breytingum á iðnaðarlögunum vegna iðnaðartilskipana EES-samningsins sem drógu að sumu leyti úr kröfum um iðnmenntun en sköpuðu hins vegar þjálfuðu fólki, er hafði iðnréttindi í einu EES-ríki, aukin tækifæri til að fara á milli landa. Þá átti sér stað gott samstarf af hálfu ráðuneytisins við Samiðn og fleiri aðila. Við það tækifæri komst einn frammámaður í iðnaði þó þannig að orði að iðnaðarráðuneytið væri að leggja iðnmenntun í Evrópu í rúst með viðkomandi lagafrumvarpi. Skýrt var út að málið væri nú ekki svo alvarlegt og sló viðkomandi að lokum á léttari strengi og sagði efnislega á fundi í iðnaðarnefnd Alþingis: "Það verður aldeilis munur fyrir útlendinga frá EES-ríkjunum að koma á Keflavíkurflugvöll í framtíðinni. Menn ýta bara á einn takka í flugstöðinni ef þeir vilja verða húsasmiðir, annan takka ef þeir vilja verða pípulagningamenn, þriðja takkann ef þeir vilja verða málarar o. s. frv. "

Ekki er víst að það verði alveg eins auðvelt fyrir Íslendinga að vinna á grundvelli iðnaðartilskipana erlendis og í þessari tilvitnun. Einn þeirra iðnaðarmanna, sem hélt utan, var beðinn að láta iðnaðarráðuneytið vita ef erfiðleikar kæmu upp. Eftir stuttan tíma hringdi hann frá Þýskalandi og sagði að vandamál hefði komið upp. "Nú, hvert er vandamálið?" spurði ráðuneytismaðurinn. "Jú, þeir kannast ekki við neinn EES-samning". Á ýmsu áttu menn von en ekki þessu. Þetta minnir þó svolítið á fríverslunarsamning Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu á sinni tíð. Þá vissu tollverðir í bandalaginu ekki alltaf af sérstökum tollfríðindum Íslendinga á sjávarafurðum á grundvelli bókunar nr. 6 í samningnum. Það skipti þó máli hvort tollur á íslenskum kavíar væri 30% eða hann tollfrjáls eins og vera átti samkvæmt bókuninni.

Mismunandi kerfi eru í einstökum löndum en hér felur löggilding iðngreina, sem heyrir nú undir iðnaðarráðuneytið, bæði í sér einkarétt til starfa og lögverndun á starfsheiti. Vissar takmarkanir eru þó á einkaréttinum. T.d. virðast menn geta unnið í öllum iðngreinum í sveitarfélögum sem eru með undir 100 íbúa, eins og t.d. í Grímsey og Mjóafirði.

Símenntun er snar þáttur í starfi Samiðnar. Rétt er að leggja áherslu á það að menn geta ekki lengur búist við að sinna starfi á einum stað alla ævina heldur er aðalatriðið að búa ætíð yfir starfshæfni. Til að varðveita og auka starfshæfnina þarf símenntun. Á einu námskeiði um árangur í starfi og einkalífi er ráðlagt að menn fari á fjögur námskeið á ári eða stefni að því. Eitt af slíkum námskeiðum gæti t.d. verið hraðlestrarnámskeið. Annar möguleiki væri tímastjórnunarnámskeið en á slíku námskeiði má t.d. læra að fimm mínútur á dag í óþarfa alla virka daga ársins geri hvorki meira né minna en tvo vinnudaga samanlagt á ári. Það er gott að hafa þetta í huga þegar fólk lendir í brasi á tölvunni. Væri þá ekki einfaldlega betra að fara á gott tölvunámskeið til að koma í veg fyrir mesta brasið?

Samiðn á í athyglisverðu samstarfi við erlenda aðila og nýtur aðstoðar erlendra bræðrasambanda. Ég hefði nú orðað þetta erlendra bræðra- og systrasambanda. Samböndin veita jafnvel aðstoð við öflun húsnæðis og vinnu. Á vettvangi stjórnvalda er einnig gagn að erlendum samskiptum eins og allir vita, t.d. á grundvelli EES-samningsins. Ég sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra þarf að sjálfsögðu að ferðast talsvert og ferðast þá jafnvel í vetnisknúnum strætisvögnum. Fyrir einni öld var engin bifreið á landinu og erfitt að ferðast milli landa. Hvernig verður þetta eftir 100 ár?

Samiðn leggur áherslu á að auka áhuga ungs fólks á iðnnámi. Í því sambandi má nefna að iðnaðarráðuneytið hefur beitt sér fyrir upplýsingum á vefnum handa ungu fólki sem hyggur á nám og störf í iðnaði. Slóðin er idnadur.is.

Ég vil benda á að samskipti iðnaðarráðuneytisins við Samiðn hafa verið mjög góð enda höfum við átt samskipti við góða menn í tengslum við breytingar á iðnaðarlögum o. fl., t.d. Grétar, Örn, Þorbjörn og Finnbjörn. Ég er þess fullviss að samskiptin verði áfram með ágætum, bæði persónuleg samskipti og jafnvel rafræn samskipti, t.d. með auknu aðgengi að opinberum upplýsingum.

Ég gat þess í upphafsorðum mínum að ég hef sett fram helstu markmið í starfsemi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytanna næstu þrjú árin. Þau er að finna í sérstökum bæklingi og á heimasíðu minni: Valgerdur.is. Stefnumótun er í eðli sínu viðvarandi verkefni sem stöðugt þarf að endurskoða. Viðbrögð ykkar við þessari stefnu eru því vel þegin.

Ég þakka svo fyrir mig. Það var ánægjulegt að koma hingað.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval