Ávarp á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu, 28.03.2001

28/3/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu,
28. mars 2001

Fundarstjóri, ágætu aðalfundargestir.

Ég vil þakka forsvarsmönnum Samtaka verslunar og þjónustu fyrir að bjóða mér til þessa aðalfundar til að ræða þau mál sem efst eru á baugi í ráðuneytum mínum og tengjast verslun og viðskiptum. Í þetta sinn hef ég valið að fjalla einkum um samkeppnismál og neytendamál en fjalla síðan um nýja lagasetningu og frumvörp sem liggja fyrir Alþingi.

Samkeppnismál.
Á sama hátt og hjá öðrum þjóðum býr íslenskt efnahagslíf við mjög hreyfanlegt umhverfi um þessar mundir og allt bendir til að svo muni verða um hríð. Þetta hefur margvísleg áhrif á stefnuna í samkeppnismálum og þeir sem annast framkvæmd hennar þurfa að vera í stakk búnir til að laga hana að þessum efnahagslega veruleika.

Almennt er viðurkennt að á síðustu tveimur áratugum hafi samkeppnisstefna sannað gildi sitt í að auka efnahagslega hagsæld í þjóðfélaginu og kröfur eru gerðar til þess að hún haldi áfram að gera það á komandi árum.

Ekki er langt síðan að hið efnahagslega umhverfi var all frábrugðið því sem nú er og í samræmi við það fólst höfuðverkefni verðlags- og samkeppnisyfirvalda í því að framfylgja verðlagseftirliti. Þau vörðu mestum tíma í að fást við efnahagslegar afleiðingar ákvarðana sem teknar voru á öðrum sviðum stjórnsýslu, þ.e. af peninga- og fjármálayfirvöldum, eða af aðilum vinnumarkaðar. Þau fengu lítið tækifæri til þess að vega að raunverulegum rótum verðbólguvandans og þess vegna hélt verðbólgan áfram án tillits til þeirra aðgerða sem stjórnvöld gripu til. Andstætt því sem hér hefur verið lýst byggir efling virkrar samkeppni á langtíma markmiðum og hún hefur í æ ríkara mæli verið að vinna sér sess sem mikilvægur hlekkur í efnahagsstefnu þjóðarinnar.

Hinum nýju samkeppnislögum sem tóku gildi í desember á sl. ári er ætlað að styrkja samkeppnisumhverfið og hin nýju lög leggja jafnframt nýjar skyldur á herðar markaðsráðandi fyrirtækja um að raska ekki samkeppni. Hinum nýju lögum er ætlað að festa í sessi þessar leikreglur því það hefur lengi verið þekkt að samkeppni milli fyrirtækja skilar neytendum miklum ávinningi.

Hún stuðlar að því að neytendur fái sem besta vöru og þjónustu á sem lægstu verði. Hún leiðir til þess að fyrirtæki eru knúin til að þróa vörur sínar og koma með nýjar vörur eða bæta þjónustu á markaði.

Samkeppnin á þannig að tryggja hagsmuni neytenda og hún er einnig í raun eina vörn þeirra gegn verðhækkunum og slæmri þjónustu fyrirtækja.

Hafa verður í huga að það eru ekki einungis neytendur sem njóta ávaxtanna af virkri samkeppni, það gera fyrirtækin einnig ef horft er á heildarhagsmuni atvinnulífsins.

Samkeppnin kemur atvinnulífinu til góða, hún agar fyrirtækin, stuðlar að nýsköpun og framförum og gerir þeim frekar kleift að ná árangri á erlendum mörkuðum. Virk samkeppni er því sameiginlegt hagsmunamál neytenda og fyrirtækja og í raun þjóðfélagsins alls. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að styrkja Samkeppnisstofnun svo hún megi sem best gegna hlutverki sínu.

Ég hef áður fjallað um mikilvægi samkeppnisreglna á opinberum vettvangi og jafnan lagt áherslu á það að virk samkeppni er því miður ekki sjálfgefin. Sagan sýnir að veruleg hætta er á því að fyrirtæki misnoti frelsi markaðshagkerfisins og eyði samkeppni með aðgerðum sínum til þess að hagnast á kostnað neytenda. Ég hef sérstaklega hvatt samkeppnisyfirvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stöðva ólögleg samráð milli fyrirtækja um verð og önnur viðskiptamálefni.

Ég hef einnig beint því til samkeppnisyfirvalda að fylgjast grannt með því að markaðsráðandi fyrirtæki misnoti ekki aðstöðu sína, fyrirtæki í slíkri yfirburðastöðu eru fær um að valda keppinautum, viðskiptavinum og neytendum miklu tjóni og slíkt má ekki líðast.

Ég hef í þriðja lagi hvatt samkeppnisyfirvöld til að beita hertum samrunareglum samkeppnislaga af festu þegar samruni er líklegur til að hamla samkeppni. Hins vegar ber að hvetja samkeppnisyfirvöld til að beita þessu valdi að vel íhuguðu máli því auðvitað er það svo að samruni milli fyrirtækja getur verið mjög eðlileg og skynsamleg aðgerð og í fæstum tilvikum skapar samruni samkeppnisleg vandamál.

Ég er þeirrar skoðunar að með breytingum á samkeppnislögunum sem tóku gildi í desember sl. hafi falist mikil réttarbót og ég er sannfærð um að þau muni örva samkeppni og koma öllum almenningi og fyrirtækjum í landinu til góða. Á þeim átta árum sem liðin eru síðan lögin tóku gildi er óhætt að segja að reynslan af samkeppnislögunum hafi verið góð.

Þau hafa leitt til jafnari samkeppnisskilyrða á mörkuðum ekki síst með því að jafna skilyrði einkafyrirtækja til að keppa við fyrirtæki undir vernd hins opinbera. Einnig hafa þau leitt til þess að tekið er aukið tillit til samkeppnissjónarmiða við laga- og reglugerðarsetningu og að öðru leyti í opinberri stjórnsýslu. Á grundvelli þeirra hefur alvarlegum samkeppnishindrunum verið eytt og lögin hafa þannig stuðlað að aukinni samkeppni milli fyrirtækja til hagsbóta fyrir neytendur og þjóðfélagið í heild.

Hin öra þróun í viðskiptum og umhverfi þeirra hefur ekki haft minni áhrif hér á landi en annars staðar á síðustu árum. Ein afleiðing þróunarinnar er aukin samþjöppun á ýmsum mikilvægum íslenskum mörkuðum. Fákeppnismarkaðir hafa orðið til þar sem áður ríkti samkeppni. Má þar nefna matvörumarkaðinn, byggingavörumarkaðinn og fjölmiðlamarkaðinn.

Störf samkeppnisyfirvalda og ákvarðanir þeirra hafa vissulega oft verið umdeild en aðalatriðið er að við beitingu samkeppnisreglna sé gætt hófs en þó ákveðni til heilla fyrir neytendur, verslun og viðskipti. Þau samkeppnislög sem nú eru í gildi eru sniðin að samkeppnisreglum í Evrópu og samkeppnisyfirvöld hafa stóraukið með sér samstarf á öllum sviðum. Þannig eigum við aðild að samstarfsverkefnum á vettvangi EFTA-ríkjanna og um árabil hefur verið náin samvinna með samkeppnisyfirvöldum á öllum Norðurlöndum.

Í því sambandi má nefna að nú nýlega hefur verið gengið frá samningi á milli Danmerkur, Íslands og Noregs sem eflir möguleika samkeppnisyfirvalda landanna á aukinni samvinnu. Samkvæmt samningnum er mikilvægasta atriði hans það að samkeppnisyfirvöld geta skipst á trúnaðarupplýsingum í málum þar sem sameiginlegir hagsmunir eru fyrir hendi og á það einnig við í samrunamálum. Hingað til hafa aðeins eftirlitsstofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu haft möguleika á að afla trúnaðarupplýsinga í samkeppnismálum hjá aðildarlöndunum, en samkeppnisyfirvöld einstakra landa hafa hins vegar ekki haft tök á því. Með þessum samningi geta samkeppnisyfirvöld á Íslandi, Danmörku og Noregi haft með sér náið samstarf og skipst á slíkum upplýsingum, eins og fyrr segir.

Neytendamál.
Umsjón með málaflokkum sem varða neytendavernd heyrir undir viðskiptaráðuneyti. Á sl. ári hefur Alþingi samþykkt lög á sviði neytendamála sem mér þykir rétt að nefna hér án þess að ég fjalli sérstaklega um þau.

Í fyrsta lagi vil ég nefna lög um lagaskil á sviði samningsréttar. Eftir því sem viðskipti einstaklinga og fyrirtækja aukast á milli landa eykst nauðsyn þess að í lögum sé að finna skýrar reglur um hvað leggja eigi til grundvallar í viðskiptum tveggja aðila sem ekki eru búsettir innan sama ríkis og þjónar lagasetning þessi þeim tilgangi.

Í öðru lagi vil ég nefna lög um lausafjárkaup. Við samningu þeirra laga var í meginatriðum stuðst við tillögur í samnorrænu nefndaráliti frá árinu 1988 en lengi hefur verið samstarf með Norðurlandaþjóðunum um lagasetningu á sviði fjármunaréttar, ekki hvað síst á sviði samninga og kauparéttarins. Samræmi í löggjöf auðveldar samningagerð og eykur réttaröryggi við kaup á hinu samnorræna markaðssvæði.

Í þriðja lagi vil ég nefna lög um þjónustukaup, en þau lög taka mið af lagasetningu annars staðar á Norðurlöndum að Danmörku undaskilinni. Í þessum lögum er ákvæði um neytendavernd þegar keypt er þjónusta og er það nýmæli í löggjöf hér á landi.

Í fjórða lagi vil ég nefna að vegna skuldbindingar Íslands og samkvæmt ákvæðum EES-samningsins voru tekin upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar ESB um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga og lög þar að lútandi um húsgöngu- og fjarsölusamninga.

Í fimmta lagi vil ég nefna breytingu á lögum um neytendalán sem samþykkt voru í lok sl. árs.

Ég vil einnig minna hér á að í kjölfar samþykktar á nýjum kaupalögum skipaði ég nefnd sem skilaði tillögum að verklagsreglum sem gilda eiga þegar nýjum en ógölluðum vörum er skilað í verslanir og hvernig fara eigi með inneignarnótur, gjafakort o.fl.

Í framhaldi af þessu var búið til svokallað skilaréttarmerki sem þær verslanir sem vilja nota framangreindar verklagsreglur geta notað til að auglýsa þjónustu sína í búðargluggum eða við búðarkassa. Þá vil ég einnig nefna að viðskiptaráðuneytið hefur lagt áherslu á kynningu á norræna umhverfismerkinu á Íslandi og í því sambandi var sérstök kynning á því í Kringlunni hér í Reykjavík.

Ég hef oft lýst yfir mikilvægi þess að neytendavernd sé í hvívetna tryggð og skilgreindar leiðir til eflingar neytendaverndar. Í þessu sambandi er rétt að nefna að oft hefur komið upp umræða um nauðsyn þess að sett verði á stofn sérstakt embætti umboðsmanns neytenda hér á landi.

Svo sem kunnugt er hefur viðskiptaráðuneytið falið Samkeppnisstofnun að hafa eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og neytendavernd og í því sambandi hefur verið starfrækt sérstök deild, neytendamáladeild, við stofnunina. Hefur þessi skipan mála verið viðhöfð allt frá árinu 1978 þegar samþykkt voru lög um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.

Við samningu samkeppnislaga nr. 8/1993 var ekki talin ástæða til að breyta þessu fyrirkomulagi enda talið að það henti vel að þessir málaflokkar sem séu eðlisskyldir og stefni að sama markmiði, bættum hag neytenda, séu áfram undir Samkeppnisstofnun.

Það fyrirkomulag að hafa samkeppnisrétt og þann hluta neytendaverndar sem lýtur að óréttmætum viðskiptaháttum í einni og sömu stofnun er ekki óþekkt í viðskiptalöndum okkar. Þannig er þessum málaflokkum komið fyrir svo dæmi sé nefnt á Englandi, í Frakklandi, Bandaríkjunum og Kanada. Enda er, eins og komið hefur fram, bættur hagur neytenda markmið beggja málaflokkanna.

Nýlega kom fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um umboðsmann neytenda og þykir mér af því tilefni nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um þetta atriði.

Í þingsályktuninni er vísað til þess fyrirkomulags sem er á Norðurlöndum að þar starfi sérstakir umboðsmenn neytenda auk opinberra neytendastofnana og frjálsra neytendasamtaka.

Til samræmis þessu fyrirkomulagi er því haldið fram að þörf sé á að setja sérstök markaðsfærslulög á Íslandi.

Um þetta vil ég í fyrsta lagi segja að sjötti kafli samkeppnislaga fjallar um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og hefur að geyma í öllum aðalatriðum sömu ákvæði og markaðsfærslulög annarra Norðurlanda gera.

Í annan stað hafa dæmin sýnt að afgreiðsla mála hjá Samkeppnisstofnun hefur verið í samræmi við afgreiðslu neytendastofnana Norðurlandanna.

Í þriðja lagi framfylgir Samkeppnisstofnun á sama hátt og neytendastofnanir Norðurlandanna einnig ýmsum sérlögum sem taka til verndar neytenda og sett hafa verið í samræmi við skuldbindingar á grundvelli EES-samningsins. Má þar nefna lög um neytendalán, lög um alferðir og lög um húsgöngu- og fjarsölu. Samkeppnisstofnun tekur þátt í samstarfi neytendastofnana Norðurlandanna og er að hluta til aðili að samstarfi umboðsmanna neytenda.

Loks ber að hafa í huga að markaðsgæsludeild Löggildingarstofu annast markaðsgæslu leikfanga og raffanga og gegnir því mikilvægu hlutverki í neytendavernd á sínu sviði.

Til viðbótar þessu skal einnig minnt á að við Neytendasamtökin hefur verið gerður þjónustusamningur sem felur í sér að styrkja leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu samtakanna.

Þá eru starfandi sex úrskurðarnefndir sem fjalla um mikilvæg málasvið í samskiptum neytenda og seljenda vöru og þjónustu og skipar viðskiptaráðherra formann fimm þessara nefnda.

Með vísan til framangreinds tel ég að mál sem varða neytendavernd geti hér eftir sem hingað til fallið vel að starfi Samkeppnisstofnunar svo fremi að fjárveitingar séu í samræmi við verkefni. Ég tel því ekki sérstaka þörf á að stofna embætti umboðsmanns neytenda á Íslandi. Málefnum neytenda er ágætlega sinnt með núverandi fyrirkomulagi og frekar en að stofna sérstakt embætti umboðsmanns neytenda sé skynsamlegra að veita meira fé til Samkeppnisstofnunar til að gera stofnuninni kleift að sinna þessum málaflokki enn betur.

En hvað sem líður því hvaða fyrirkomulag er haft á eftirliti með neytendavernd þá er það á endanum neytandinn sjálfur sem ræður mestu um hvernig til tekst. Opinbert eftirlit getur aldrei komið í staðinn fyrir vökul augu og dómgreind hins almenna kaupanda.

Rafrænar undirskriftir.

Góðir fundarmenn.
Ég hefi nýlega lagt fyrir Alþingi og mælt fyrir frumvarpi til laga um rafrænar undirskriftir.

Kannanir hérlendis sem erlendis hafa sýnt að menn telja að öryggi skorti í rafrænum samskiptum og stundi þau því í minni mæli en ella. Rafrænar undirskriftir eru hins vegar taldar grundvöllur aukins trausts í rafrænum samskiptum og viðskiptum. Með notkun þeirra er unnt að tryggja að sending gagna um internetið sé á trúnaðarstigi. Þá er unnt að sannprófa að upplýsingum hafi ekki verið breytt í sendingu um Netið og að upplýsingarnar stafi í raun frá tilteknum sendanda. Þannig eru rafrænar undirskriftir m.a. forsenda fyrir öruggri sendingu gagna á Netinu.

Með frumvarpi þessu er stefnt að því að setja í lög reglur um réttaráhrif rafrænna undirskrifta, vottunaraðila sem gefa út fullgild vottorð, eftirlit með þeim vottunaraðilum og bótaábyrgð þeirra. Þannig er frumvarpinu m.a. ætlað að stuðla að öryggi í viðskiptum og öðrum samskiptum á internetinu og styrkja það traust sem neytendur og seljendur þjónustu bera til rafrænna viðskipta. Stefnt er að því að þetta frumvarp verði að lögum á yfirstandandi þingi.

Í haust hyggst ég leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um rafræn viðskipti sem hefur það meginmarkmið að skýra réttarstöðu á sviði rafrænna viðskipta enn frekar, m.a. með því að kveða á um að þeir sem hafa staðfestu á Íslandi og bjóða fram þjónustu á Netinu beri að hlýta íslenskum lögum.

Fjármagnsmarkaður.
Á síðustu vikum hef ég lagt fyrir Alþingi fjögur frumvörp um skipulagsbreytingar á sviði fjármagnsmarkaðar. Þetta eru mikilvæg mál sem ég vonast til að verði að lögum á þessu þingi.

Af þessum málum ber hæst heimild til sölu banka í eigu ríkisins. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi almennt ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta stundað með eðilegum hætti og virk samkeppni er fyrir hendi. Er þetta í samræmi við viðtekin sjónarmið í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við.

Stefnt er að því að sala á eftirstandandi hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka hefjist á þessu ári og ljúki fyrir lok kjörtímabilsins árið 2003. Í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um sölu fyrirtækja í eigu ríkisins verður lögð áhersla á sölu til almennings og tilboðssölu. Einnig er gert ráð fyrir að kannaður verði áhugi kjölfestufjárfesta um kaup á stórum hluta í bönkunum.

Ég tel mjög mikilvægt að þegar ríkið dregur sig út af fjármagnsmarkaði verði kveðið skýrar á um eftirlit með eigendum fjármálafyrirtækja. Með því að styrkja eftirlit með eigendum fjármálafyrirtækja er minni hætta á að stórir hluthafar hafi skaðleg áhrif á rekstur þeirra og þar með á fjármagnsmarkaðinn allan. Það er einmitt megintilgangur frumvarps um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta sem nú er til umræðu á Alþingi. Brýnt er að þegar ríkið fer af markaði verði leikreglur skýrar og eftirlit virkt.

Þriðja málið sem nú er til þinglegrar meðferðar er rekstrarform sparisjóðanna.

Mikilvægt er að sparisjóðirnir fái tækifæri til að vaxa og dafna í hinu nýja umhverfi íslensks fjármagnsmarkaðar. Það er orðið brýnt að veita heimild til að hægt verði að breyta þeim í hlutafélög þannig að þeir geti keppt á jafnræðisgrunni við önnur fyrirtæki á markaðnum.

Það verður þó að taka með í reikninginn að hér er einungis um heimild að ræða en ekki skyldu. Það er síðan stjórnenda sparisjóðanna að móta framtíð þeirra.

Að síðustu hef ég lagt fram frumvarp til nýrra vaxtalaga. Gildandi vaxtalög eru frá árinu 1987 og eru orðin barn síns tíma, enda gríðarlegar breytingar sem verið hafa á fjármagnsmarkaði á þessum fjórtán árum. Frumvarpinu er ætlað að móta almennar leikreglur um notkun vaxta og verðtryggingar og treysta réttarstöðu samningsaðila.

Fundarstjóri, ágætu aðalfundargestir.

Á síðustu árum og áratugum hafa orðið mjög miklar breytingar í lagaumhverfi og öllu rekstrarumhverfi verslunar og viðskipta. Sífellt auknar kröfur og tækninýjungar hafa kallað á nýja löggjöf og nýtt starfsumhverfi sem ríkisstjórnir hafa brugðist við og stöðugt er verið að reyna að bæta þann lagaramma sem verslunin starfar eftir. Megi sú þróun sem hafin er halda áfram að eflast til hagbóta fyrir þjóðina alla.

Við stöndum á þröskuldi nýrrar aldar þar sem ný tækni og nýjar starfsaðferðir eins og rafræn viðskipti munu skipa æ mikilvægari sess í viðskiptum manna á milli. Sú lagasetning sem þegar hefur átt sér stað og frumvarpsgerð sem unnið er að eru liðir í því að mæta nýjum og auknum kröfum á alþjóðavettvangi.

Ég óska Samtökum verslunar og þjónustu velfarnaðar og vona að þessi aðalfundur ykkar megi verða árangursríkur.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval