Ávarp á ráðstefnunni Þjóðgarðar og friðlýst svæði, 23.03.2001 -

23/3/01

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ráðstefna
(Ó)velkomin í eigin landi
Þjóðgarðar og friðlýst svæði/búseta og atvinnusköpun
Húsavík, 23. mars 2001


Ágætu ráðstefnugestir!
Mér er ætlað það hlutverk hér að fjalla um atvinnustarfsemi á friðlýstum svæðum og þá væntanlega hvernig það fer saman að reka atvinnustarfsemi innan friðlýstra svæða.
Í upphafi er rétt að skoða skilgreiningar þessara hugtaka og þá einkum friðlýstra svæða.
Í lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 er sagt í skilgreiningum að friðlýst svæði séu þjóðgarðar, friðlönd, fólkvangar og náttúruvætti. Ég mun þó takmarka mína umfjöllun við 53. gr. náttúruverndarlaganna um friðlýsingu annarra náttúruminja en þjóðgarða.
Þar segir í 1. tölulið varðandi friðlýsingu að umhverfisráðherra geti friðlýst "Landsvæði, sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags eða lífríkis. Friðlýst landsvæði nefnast friðlönd."


Í 60. grein laganna um efni friðlýsingar er sagt að í efni friðlýsingar skuli kveðið á um að hve miklu leyti framkvæmdir skuli vera takmarkaðar innan svæðisins. Það er mjög útbreiddur misskilningur eða vanþekking á ákvæðum laga að framkvæmdir séu ekki heimilar innan friðlýstra svæða.
Í greininni segir orðrétt:
"Ef ætla má að fyrirhugaðar framkvæmdir á friðlýstu svæði raski svo náttúrulegu umhverfi að hætta sé á að ákveðnar lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi eyðist eða verði fyrir varanlegum skaða getur umhverfisráðherra látið friðlýsingu taka til banns við slíkum framkvæmdum, enda sé áður fengin umsögn Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands."
Mér finnst þetta lagaákvæði vel orðað og á þann hátt að flestir landsmenn ættu að geta sætt sig við það.
Á hinn bóginn höfum við önnur lög, Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjasýslu þar sem mun ítarlegri ákvæði gilda en í almennu náttúruverndarlögunum.


Í 1. grein þeirra laga segir að tilgangur laganna sé að stuðla að verndun Mývatns- og Laxársvæðisins.
Í 2. grein kemur fram að ákvæði laganna nái til alls Skútustaðahrepps og Laxár allt til ósa árinnar ásamt bökkum árinnar.
Síðan er í 3. gr. laganna allar framkvæmdir bannaðar nema leyfi Náttúruverndar ríkisins komi til.
Nauðþurftarframkvæmdir á bújörðum eru þó undanskildar ef þær valda ekki spjöllum að mati Náttúruverndar ríkisins. Að mínu mati þarf að breyta lögunum þannig að sömu lög gildi um íbúa Skútustaðahrepps og aðra landsmenn varðandi lög um náttúruvernd.
Reynslan af atvinnurekstri í Mývatnssveit sýnir að vel getur farið saman atvinnustarfsemi, ferðamennska og náttúruvernd. Kröfluvirkjun og svæðið þar í kring er ágætt dæmi um þetta, þar hefur tekist afar vel til að nýta og njóta náttúrunnar og raunar er víðar svo háttað. Fyrirhuguð Bjarnarflagsvirkjun er hönnuð þannig að tekið er sérstakt tillit til náttúru svæðisins og þeirra ferðamanna er eiga leið um svæðið og verður spennandi að sjá hvernig til tekst.


Nesjavallavirkjun er einnig ágætt dæmi þar sem vel hefur tekist til og í báðum þessum tilvikum hafa virkjanirnar opnað víðáttumikil og nánast ókunn landsvæði fyrir ferðamönnum og stuðlað að atvinnusköpun á því sviði. Það er staðreynd að orkuverin við Þjórsá og Tungnaá opnuðu fyrir öllum hálendið. Vegakerfið sem gert var vegna virkjananna opnaði almenningi aðgengi að ómetanlegum eigum sínum, miðhálendinu.
Kannanir meðal íslenskra ferðamanna hafa leitt í ljós að mikill meirihluti þeirra telur miðlunarlón á virkjunarsvæði Tungnaár og Þjórsár engin áhrif hafa á upplifun þeirra á náttúru landsins.
Hugmyndir manna um hvað sé ósnert náttúra eru mismunandi. Sumir álíta að maðurinn megi engu breyta meðan aðrir þola ýmsa uppbyggingu án þess að svæðið hætti að vera ósnortið í þeirra huga. Könnun meðal ferðamanna í grennd við virkjanir á Suðurlandi sýndi að allt að 85% þeirra töldu að mannvirki af einhverju tagi megi vera til staðar í náttúrunni án þess að valda verulegri truflun á upplifun svæðisins.


Af þessum viðhorfum má draga þá ályktun að meirihluti manna telji sig geta lifað í náttúru landsins þó svo að þar séu mannvirki að finna, vandinn sé hinsvegar sá að velja þeim heppilegastan stað og fella að landinu þannig að vel fari.
Við horfum í auknum mæli fram á að þurfa að ná sættum milli vinnslu og náttúruverndarsjónarmiða auk hinna mannlegu sjónarmiða.
Á árinu 1999 var í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum hafin vinna við gerð rammaáætlunar til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma landsins. Áætlunin ber vinnuheitið: Maður, nýting, náttúra, sem á einkar vel við að nefna hér á þessari ráðstefnu.
Markmið áætlunarinnar er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt vatnsafls og háhita, meðal annars með tilliti til orkugetu, hagkvæmni og annars þjóðhagslegs gildis, meta og flokka áhrif þeirra á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar svo og á hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði. Stór hópur sérfræðinga hefur komið hér að verki og hefur vinnu við verkið miðað eðlilega hingað til. Fyrsta hluta verkefnisins á að ljúka árinu 2002.


Hér er um gríðarlega stórt og þýðingarmikið verkefni að ræða. Ráðist hefur verið í viðamiklar grunnrannsóknir á hugsanlegum virkjunarsvæðum og það er ljóst að verkefnið mun bæði auka þekkingu okkar á náttúrufari landsins og auka skilning okkar á þessu sviði.
Ég bind miklar vonir við að með þessari áætlunargerð skapist aukin sátt um nýtingu þessara auðlinda sem í senn tryggi að við getum áfram nýtt orkulindirnar til að efla atvinnulíf og styrkja byggð í landinu án þess að ganga óhóflega á náttúrulegt umhverfi eða aðra landnýtingu.
Fyrir utan Mývatnssvæðið eru önnur svæði á landinu þar sem virkjanir eru fyrirhugaðar og snerta friðlýst svæði. Hér er um að ræða háhitasvæðið í Torfajökli, sem er innan friðlands að Fjallabaki, og Kárahnúkavirkjun, en þar kemur fyrirhugað miðlunarlón inn á friðland í Kringilsárrana.
Eins og kunnugt er hefur um skeið verið unnið að undirbúningi Kárahnúkavirkjunar vegna fyrirhugaðrar álverksmiðju á Reyðarfirði. Miðlunarlón virkjunarinnar nær inn á friðlýst svæði í Kringilsárrana, sem hefur verið friðlýstur allt frá árinu 1975.


Kringilsárrani var ekki friðlýstur vegna sérstaks náttúruvættis, heldur var ástæða þess sú að menn töldu á þeim tíma að þar ættu hreindýr friðland fyrir ágangi manna og þar væru burðarlönd dýranna. Þetta var á fimmta áratug síðustu aldar þegar hreindýrastofninn var í lágmarki.
Í ljós hefur komið með því að fylgjast með hreindýrum á þessu svæði að það er ekki eins mikilvægt land fyrir hreindýr og áður var talið og lónmyndunin gefur vart tilefni til sérstakra mótvægisaðgerða vegna hreindýranna ef miðað er við forsendur náttúruverndarlaganna. Áhrifasvæði virkjunarinnar og miðlunarlón mun ná inn á svæði, sem fyrirhugað er að friðlýsa sem hluta af Vatnajökulsþjóðgarði. Ekkert er því til fyrirstöðu að skipuleggja svæðið í grennd við virkjunina með það í huga að þar geti orðið friðland og raunar mun virkjunin stórbæta alla aðkomu að svæðinu í framtíðinni. Mikil reynsla er erlendis af rekstri lóna innan þjóðgarða. Ekkert er því til fyrirstöðu að við Kárahnúka verði samtvinnuð starfsemi friðlands við Vatnajökul og virkjunarinnar á þann hátt að báðum aðilum verði til góðs.


Rannsóknir á Torfajökulssvæðinu eru ekki það langt komnar að unnt sé að kveða upp úr um staðsetningu virkjana þar, en svæðið er það stórt og öflugt að þær geta auðveldlega orðið fjórar til fimm. Á næstu árum verða rannsóknir auknar á svæðinu og þá skýrist frekar hvernig mannvirkjum verður við komið í þessu að mörgu leyti viðkvæma landi. Skipulag þeirrar vinnu verður undir umsjón Orkustofnunar, en í samstarfi og samráði við Náttúruvernd ríkisins.

Góðir ráðstefnugestir!
Þjóðgarður er garður þjóðarinnar, sem hún á að geta notið og nýtt. Þessi kenning er ekki ný. Hana setti Jónas frá Hriflu fram í framsöguræðu fyrir friðun Þingvalla árið 1923. Hann segir þar: "Sú kenning hefur komið fram að Þingvellir ættu að verða þjóðgarður Íslendinga. Það getur vel samrýmst þó að fjöldi manna komi þar saman sér til skemmtunar, ef þeir læra að fara vel með staðinn og bera virðingu fyrir honum." Undir þessi orð má sannarlega taka.
Jónas benti einnig á nauðsyn gæslu á viðkvæmu friðlandinu og sagði þar um: "Án eftirlits yrðu Þingvellir eins konar viðbót við Siglufjörð eða úthverfi Reykjavíkur, eins konar Klondyke-hérað."


Maðurinn er hluti af náttúrunni og mannanna verk verða er tímar líða fram hluti af henni.
Því þarf vel að vanda til allrar mannvirkjagerðar á friðlýstum svæðum sem og annars staðar í náttúrunni.
Ef okkur auðnast að gera sátt um sambúð mannsins, verka hans og náttúrunnar mun okkur best farnast í framtíðinni.
 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval