Ávarp við kynningu á nýju þekkingarstjórnunarkerfi Hugvits, 08.11.2001

8/11/01

Valgerður Sverrisdóttir,iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp
í tilefni af kynningu á nýju þekkingarstjórnunarkerfi Hugvits
í Smárabíói, fimmtudaginn 8. nóvember.
Ágætu samkomugestir.

Það er mér sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra sönn ánægja að
taka þátt í þessari athöfn þar sem til kynningar er ný
framsækin hugbúnaðarframleiðsla, sem er til þess fallin að
skapa ný og vellaunuð störf á Íslandi.

Framleiðsla Hugvits er mér að góðu kunn, því
málastjórnunarkerfi ráðuneytisins er Lotus Notes kerfi frá Hugviti.
Það er líka gleðiefni fyrir mig að vita, að þrátt fyrir ýmsar
markaðslegar takmarkanir sem óneitanlega fylgja smæð samfélags
okkar, hefur Hugviti tekist að hagnýta sér nokkuð af kostum
smæðarinnar með því að virkja samstarf við opinbera aðila.
Þannig hefur Hugvit fengið aðgang að kröfuhörðum opinberum
notendum og skapað tengsl við þá um lokaþróun nýrra
hugbúnaðarlausna.

Eftir því sem ég best veit, var iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið
frumkvöðull í notkun þekkingar- og skjalastjórnunarlausna frá
Hugviti fyrir um sex til sjö árum. Frá þeim tíma hefur mikið
vatn runnið til sjávar og hefur fyrirtækið nú innleitt
þekkingarstjórnunarlausninr hjá hundruðum fyrirtækja um allan
heim. Nærri lætur að notendur slíkra lausna frá Hugviti séu um
40 þúsund, þar af 9 þúsund á Íslandi.

Af þessu má glögglega sjá að útflutningur er lykilatriði fyrir afkomu
íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Markaðurinn hér er einfaldlega
of smár til að fyrirtæki í þróun og framleiðslu þekkingariðnaðar
geti náð hámarks, arðgefandi stærð. Þrátt fyrir að upplýsingasam
félagið hafi minnkað fjarlægðirnar svo um munar, verður sennilega
aldrei hægt að slíta hin persónulegu tengsl við markaðinn og
hvern einstakan viðskiptavin. Því leitar nú í vaxandi mæli í það
horf að hin kröftugri íslensku hugbúnaðarfyrirtæki munu byggja
upp þróunarsetur sín á Íslandi, en reka smáar söluskrifstofur víða
um heim til að annast sölu og þjónustu við viðskiptavinina.
Þetta er jákvæð þróun ekki síst vegna þess að þekkingarauðurinn
felst fyrst og fremst í þróuninni sem gefur þannig af sér meiri arð.

Þekkingariðnaðurinn er ung grein í örri þróun. Fyrirtækjum hefur
fækkað og þau hafa stækkað, - á sama tíma og sérlausnum fækkar
og stærri heildarlausnum fjölgar. Starfsemi Hugvits er um margt
til vitnis um þessa þróun. Hugvit hefur átt einstakri velgengni að
fagna í þróun heildarlausna og er nú orðið veigamikill
hluti af GoPro samsteypunni, sem varð til við samruna tveggja
kröftugra fyrirtækja.

Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika í íslensku- og alþjóðlegu
efnahagslífi, sem þekkingariðnaðurinn hefur ekki farið varhluta af,
er það staðföst trú mín að vöxtur íslensks atvinnulífs muni í
framtíðinni fyrst og fremst byggjast á nýjum þekkingarsviðum,
eins og upplýsingatækni.
Þessi atburður hér í dag er til að styrkja þessa trú mína og vil ég
í tilefni þess óska Hugviti innilega til hamingju með hið nýja
þekkingarstjórnunarkerfi.
Ég hlakka til að fræðast meira um það hér á eftir.

Takk fyrir.


 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval