Ávarp á málþingi austfirskra fyrirtækja, 07.02.01

7/2/01

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á málþingi austfirskra fyrirtækja,
7. febrúar 2001 á Egilsstöðum.


Fundarstjóri góðir fundarmenn

Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að vera með ykkur hér í dag þar sem rætt verður með hvaða hætti hægt er að undirbúa austfirskt atvinnulíf sem best til að taka þátt í fyrirhuguðum framkvæmdum vegna Kárahnjúkavirkjunar og byggingu álvers í Reyðarfirði. Í þessu sambandi er þó rétt að vekja athygli á því að þegar byggingatímanum lýkur og starfsemi hefst í álverinu þá kallar það á aukin umsvif hér á svæðinu í þjónustu og annarri starfsemi sem tengist álverinu. Það hefur t.d. komið fram að það verði stefna Reyðaráls að kaupa sem mest þjónustu í stað þess að byggja hana upp innan veggja fyrirtækisins. Atvinnulífið má því ekki um of einblína á sjálfan uppbyggingartímann heldur þurfa menn jafnframt að huga að því hvernig hægt verður að laga atvinnulífið að þeim aðstæðum sem hér skapast eftir að starfsemi álversins hefst.

Ég fagna því frumkvæði sem tekið er með því að boða til þessa fundar hér í dag. Fundurinn markar vonandi upphafið að markvissu undirbúningsstarfi á ýmsum sviðum á svæðinu sem miða að því að efla atvinnulífið hér og undirbúa það sem best til að takast á við þær breytingar sem hér verða ef áform um byggingu álvers ganga eftir. Ég er sannfærð um að starfsemi álversins mun breikka verulega grundvöllinn fyrir austfirskt atvinnulíf og fjölga þannig atvinnutækifærum íbúanna. Það mun leiða til þess að fólk flytji á svæðið og unga fólkið fær tækifæri til að snúa heim að loknu námi.

Að undanförnu hefur umræðan um byggingu álvers á Reyðarfirði ekki verið fyrirferðarmikil í þjóðfélaginu. Ég get þó fullvissað alla sem hér eru inni um að samningsaðilar þessa mikla verkefnis vinna af fullri einurð að framgangi þess og enn sem komið er standast allar tímaáætlanir sem samið var um sl. vor.

Um þessar mundir er unnið að gerð fjölmargra samninga um ýmsa þætti verkefnisins. Þar er m.a um að ræða innri samninga milli fjárfesta, samninga um orku milli Reyðaráls og Landsvirkjunar og samninga milli Reyðaráls, stjórnvalda og Fjarðarbyggðar. Þegar meginefni samninga liggur fyrir - sem væntanlega verður á næstu vikum – getur Reyðarál farið að leita tilboða í fjármögnun álversbyggingarinnar.

Samhliða vinnu við samningagerð er unnið að umhverfismatsskýrslum fyrir álverið og virkjunina. Er stefnt að því að vinnu við matsskýrslur ljúki fyrir lok marsmánaðar og í framhaldi af því verða þær lagðar inn til Skipulagsstjóra ríkisins til opinberrar meðferðar og úrskurðar. Ef allir frestir verða nýttir eins og mögulegt er ætti endanleg niðurstaða að liggja fyrir seint á þessu ári. Jafnframt þessu verður sótt um starfsleyfi til Hollustuverndar ríkisins.

Gert er ráð fyrir að öflun gagna, undirbúningur og gerð matsskýrslna fyrir Kárahnjúkavirkjun komi til með að kosta um 250 millj. kr. en um 100 millj. kr. vegna álversins. Samanlagður kostnaður Reyðaráls og Landsvirkjunar mun því nema um 350 millj. kr. Gerð er ráð fyrir að um 25-30 aðilar, innlendir og erlendir komi að gerð beggja skýrslnanna.

Samfélagsleg athugun á áhrifum framkvæmdanna fyrir Austurland verður hluti af báðum matsskýrslunum. Ljóst er að samfélagsleg áhrif Kárahnjúkavirkunar verða mest á framkvæmdartímanum en gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting fyrir virkjunina nemi samtals 70-80 milljörðum kr. á framkvæmdatímanum á árunum 2002 til 2006. Alls er áætlað að um 3000 ársverk þurfi við gerð virkjunarinnar og að allt að 900 manns starfi þar á mesta álagstíma.Auk þess hefur verið ákveðið að verja um 600 millj. kr. til vegagerðar í tengslum við virkjunarframkvæmdirnar. Þessir nýju vegir munu ekki einungis bæta vegasamgöngur fyrir þá sem búa á svæðinu heldur mun aðgengi ferðamanna og annarra þeirra sem vilja njóta útivistar á Fljótsdalsheiði og svæðinu þar í kring stórbatna. Við þekkjum vel hversu mikla þýðingu virkjanavegir hafa haft á Þjósár- Tungnaársvæðinu en með tilkomu þeirra hefur heimsóknum ferðamanna á svæðið fjölgað mikið. Ég er sannfærð um að þær umbætur sem verða í vegamálum í tengslum við virkjunina geti haft mjög jákvæð áhrif á ferðamennsku á svæðinu.

Hin samfélagslegu áhrif vegna byggingar og starfsemi álvers í Reyðarfirði verða þó augljóslega önnur og meiri en áhrifin af byggingu virkjunarinnar. Áætlað er að heildarfjárfesting vegna byggingar álversins geti numið um 80-85 milljörðum kr. Ársverk við byggingu álversins eru áætluð um 2.700 með um 1.400 manns starfandi á byggingarstað þegar mest á reynir. Framkvæmdir við álverið verða á árabilinu 2003 til 2006. Auk þess er gert ráð fyrir að bygging hafnar við álverið kosti um 1.000 millj. kr. og framkvæmdir við að gera lóðina undir álverið byggingarhæfa um 1.500 millj. kr. Þá hefur verið ákveðið að verja um 400 millj. kr. til að bæta vegi í Fjarðarbyggð. Vegur þar þyngst endurbygging vegarins á milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Þá er unnið að rannsóknum vegna jarðgangna á milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Ljóst er að bygging þeirra myndi hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnumöguleika á Suðurfjörðunum og jafnframt styrkja atvinnusvæði álversins.

Þá eru fyrirsjáanlegar miklar framkvæmdir í bæjunum. Í Fjarðabyggð hefur t.d. verið unnið mjög ötullega að nýju skipulagi þar sem gert er ráð fyrir verulegri fjölgun íbúa. Samkvæmt drögum að því skipulagi er gert ráð fyrir verulegri fjölgun íbúðarhúsa og ýmsum framkvæmdum sem tengjast væntanlegri íbúafjölgun.

Nýlega gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun fyrir Reyðarál á afstöðu ungs fólks og brottfluttra Austfirðinga til álvers í Reyðarfirði. Þessi könnun er hluti af skýrslu um mat á umhverfisáhrifum álversins. Að mínu viti er niðurstaða þessarar könnunar mjög skýr. Skortur á fjölbreyttu atvinnulífi og öryggi í atvinnumálum er meginorsök þeirrar byggðaröskunar sem verið hefur hér á landi um all langa hríð. Að mati þeirra sem þátt tóku í könnuninni mun starfsemi álvers í Reyðarfirði efla atvinnulíf á svæðinu og draga úr fólksflutningum frá Austurlandi. Jafnframt mun nokkur hópur brottfluttra Austfirðinga hugleiða að flytja að nýju heim á Austurland verði af byggingu álversins. Þetta er ánægjuleg niðurstaða og sýnir svo ekki verður um villst hvaða hug ungt fólk á Austurlandi ber til áforma um byggingu álvers við Reyðarfjörð.

Góðir fundarmenn

Eins og ég sagði áðan þá vona ég að þessi fundur marki upphafið að þeim undirbúningi sem er nauðsynlegur fyrir atvinnulífið á Austurlandi. Ég óska ykkur alls hins besta í þessu starfi og vona að það verði til þess að styrkja atvinnulífið hér á svæðinu og bæta lífskjör íbúanna.

 

Valgerður Sverrisdóttir


Stoðval